Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Gleðilegt ár!

Já já, gleðilegt ár daginn fyrir afmælið hans Paul Young! Svolítið seint í rassinn gripið en betra er smá blogg en ekkert...vonandi. Ég set engin nýársheit en datt nú í hug í minni fullkomnu tilveru að kannski væri ekkert vitlaust að fara að blogga oftar. Það liggur við að hver einasta færsla á síðasta ári hafi byrjað á afsökunarbeiðnum og skömmum í eigin garð út af lítilli virkni á síðunni. Ekkert virðist ætla að breytast á nýju ári. 

Ég ætla að hafa þetta stutt og laggott þó að ég eigi tonn af óskrifuðum minningum úr jólafríinu sem gott hefði verið að koma á prent, bæði fyrir mig og aðra fjölskyldumeðlimi að eiga. En við verðum bara að treysta á myndir og eigin minningar. Ég get þó sagt frá því að aðfangadagskvöld var það fjörugasta og hávaðasamasta í manna minnum, enda aldrei svo margir samankomnir áður. Allt fór þetta vel, allir fengu fallegar og fínar gjafir og fóru sáttir í svefn, nema kannski Sigrún sem varð eitthvað pirruð þegar líða fór á kvöldið, líklega yfirspennt. Áramótin voru aftur á móti róleg og þægileg, skaupið með betra móti (sérstaklega IKEA maðurinn) og allir sofnaðir fyrir tvö. 

Ég nýtti jólafríið líka ágætlega í kennsluundirbúning og mætti glöð og galvösk á fyrsta kennarafundinn fyrir 2 vikum síðan. Jæja, þetta síðara er kannski lygi því að það venst ótrúlega vel að vera heimavinnandi húsmóðir eingöngu. Ég gæti alveg tekið það upp sem lífsstíl - kannski með einn huggulegan bókmenntaáfanga á kantinum. En aldraða kennslukonan var fljót að detta í gírinn og lítur björtum augum á vorönnina. Ég er enn á ný með stóra hópa (28-31 í hverjum bekk) en fékk mun betri stundatöflu en oft áður og ég held að það muni heilmikið um það, svei mér þá. Þetta verður reyndar löng önn með fáum fríum fyrir nemendur, allur febrúar eftir (febrúarkrísurnar maður!), en svo fer að birta til. Nú er eitthvað verið að spá verkfalli, en ég vona að það komi ekki til þess. Ég vil helst ekki láta drulla yfir mig og mína stétt á kommentakerfi DV.

Af Gunna litla Bowie og Kisa stóra Jackson er það annars helst að frétta að þeir eru orðnir örlítið nánari. Gunni er orðinn vaskari í framgöngu en áður og á það til að stökkva á Kisa til þess að mana hann upp í slagsmál. Kisi tuskar hann þá aðeins til og svo er þetta bara búið. Kisi hegðar sér samt allt öðruvísi en áður. Hann lá vanalega á gólfinu í miðrýminu (eins og Vala matt hefði orðað það svo smekklega) og naut þess að hanga með okkur. Núna reynir hann að vera sem mest úti svo að hann fái frið fyrir krakkaskrattanum (Gunna). Gunni er ekki enn farinn að fá að fara út á eftir honum, enda er hann óviti mikill og ískalt úti í þokkabót. Eini ókosturinn við Gunna er að hann fær niðurgang af öllu öðru en þurrmat enn sem komið er. Því þurfum við að fara varlega í að gefa Kisa eitthvað góðgæti, því að ef Gunni kemst líka í það stinkar húsið eins og rotþróin í Öldu í Elliðaárdal í þá gömlu góðu daga. Það var ekki góð lykt. En við erum búin að læra á þetta þannig að allt gengur í rauninni mjög vel. Gunni veitir stelpunum mikla gleði, alltaf til í að leika sér og er mesta krútt í heimi, ásamt Kisa auðvitað og Jakob Ara.

Ég ætlaði að setja hér inn einhverjar myndir en eitthvað er ekki að virka. Ég hef einsett mér að láta ekki myndavesenið á þessari síðu fæla mig frá því að skrifa eitthvað (stundum fer meiri tími í það en skrifin sem er alveg glatað) en auðvitað er miklu skemmtilegra að hafa einhverjar myndir með. Kannski finn ég aðra síðu þar sem allt svínvirkar á einfaldan hátt. 

Næsta markmið er að byrja ekki bloggið á því að minnast á hvað það var langt síðan ég bloggaði síðast. I can do it!

Sóla súperbloggari :)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband