Kristrún Eir 3ja ára...og flutningarnir maður!

Það er um að gera að halda upp á að vera komin með internettengingu í nýja húsið með því að skrifa aðeins um afmæli Kristrúnar...sem var 28. nóvember! Mér finnst eins og heil eilífð sé liðin síðan við héldum upp á afmælið hennar með sushi veislu (að hennar ósk) og bleikri köku, enda eru næstum því tvær vikur liðnar og margt búið að gerast. Við erum búin að puða frá morgni til kvölds með góðri hjálp tveggja Letta (til þess að gera lífið "lettara") og svo er ekki hægt að segja annað en að Óli afi og Ásgeir afi hafi komið sterkir inn, og hvað þá Ásta ofur með tuskurnar sínar og andlegan stuðning að vopni. Börnunum mínum vil ég líka þakka þolinmæðina (þau voru gjörsamlega afskipt í tvær vikur) og Bjössa bró og Ernu hró fyrir að létta þeim lundina síðasta laugardag. Helga hefði eflaust verið með okkur dag og nótt ef hún hefði ekki þurft að liggja í prófum, en hún sendi unnustann í málningu einn daginn. Þá held ég að kreditlistinn sé búinn að rúlla í gegn. Ég ætla hins vegar að bíða með fleiri fréttir af húsaflutningum þangað til næst því að fröken Kristrún Eir þarf sínar fimm mínútur af frægð (og móðirin að létta af samviskubiti sínu í leiðinni).

Litla ljósið okkar varð sem sagt 3ja ára 28. nóvember. Búið var að halda upp á afmæli hennar og Sigrúnar með vinum og vandamönnum í október sl., en það er hefð fyrir því að leyfa afmælisbörnunum að velja hvað er í matinn á afmælisdeginum sjálfum. Hér er Kristrún eldsnemma um morguninn, morgunfögur að vanda: 

IMG_7565-Copy

Hún var ánægð með alla pakkana sína og fór auðvitað í glænýjum fötum frá Noregi í leikskólann. Svo var ráðist á sushi-ið um kvöldið og eins og sést er hér fagmaður að verki:

IMG_7583-Copy

Hún er ekkert voðalega spennt fyrir grjónunum, meiri svona sashimi stelpa alla leið! Fókusinn var svo á bleiku afmælistertuna sem móðirin græjaði í skyndi, enda undirbúningur fyrir flutninga hafinn:

IMG_7592

Þriggja ára dúllídúll sem mamma og pabbi elska út af lífinu!

 

Jám...ég sit sem sagt inni í notalegu litlu eldhúsi með hlýjar korkflísar undir fótum og hlusta á bröltið í Hirti uppi þar sem hann er að brasa við að koma sjónvarpinu í samband. Ótrúlegt en satt: Internet og sjónvarp sama daginn! Halló heimur! Það er margt búið að gera en hellingur eftir. Svefnherbergin uppi eru klár en það á eftir að græja sjónvarpsherbergið betur, kaupa nettan sófaræfil og koma fyrir einni borðtölvu, öllu í sama rýminu undir súð. Herbergi Bjargar á neðri hæðinni er líka komið í gott stand en eitthvað á eftir að laga til í þvottahúsi, stofu og skrifstofu Hjartar. Í kjallaranum er geymsla sem verið er að smíða hurð fyrir (eftir að hafa brotið gat í gegnum vegginn) og svo er fullt, fullt af drasli sem enn á eftir að koma fyrir. Allir skápar troðfullir nú þegar og við erum strax farin að leita að stærra húsi!

Næsta sumar verður kannski ráðist í miklar framkvæmdir við að endurnýja eldhús og fleira. Ég hlakka bara til þess þegar allt verður orðið klárt núna fyrir jólin, myndir uppi á veggjum og engin verkfæri úti um allar trissur. En mér líst bara vel á þetta allt saman og öðrum fjölskyldumeðlimum líka. Kisi var reyndar mjög ósáttur. Hann trylltist úr hræðslu þegar við byrjuðum að flytja húsgögnin úr Álfatúni. Svo var okkur ráðlagt að halda honum inni í tvær vikur á meðan hann væri að venjast húsinu en það var nú hægara sagt en gert með þennan mikla útikött! Hann slapp út um rifu á glugganum hennar Bjargar og sást ekki í hálfan sólarhring. Með tár í hvörmum fórum við nokkrar árangurslausar ferðir upp í Álfatún að skyggnast eftir honum og báðum svo nágrannana að vera á vaktinni. Seint um kvöld birtist hann þar og ég krumpaði malbikið með Hondunni til þess að missa ekki af honum. Hann var handsamaður og átti nokkuð rólegan sólarhring í húsinu með alla dalla fulla af rækjum og rjóma. Svo í gærmorgun vildi hann endilega komast út og gerði alvarlega sjálfsmorðstilraun með því að reyna að troða hausnum í gegnum bréfalúguna! Þegar það gekk ekki sprændi hann yfir alla úlpuna hennar Sigrúnar Bjarkar, sem ætlaði einmitt að fara að arka í skólann. Skynsamur köttur, enda gáfumst við hjónin upp á þessum tímapunkti og hleyptum honum út í frelsið. Við hefðum átt að hafa aðeins minni áhyggjur því að 5 mínútum seinna vappaði hann aftur inn...og svo út aftur...og svo inn aftur...og svo út aftur...og inn...svona rétt til þess að fá staðfestingu á því að hann réði för. "Mjálm" og mamma opnar og hleypir mér inn. "Mjálm" og mamma opnar og hleypir mér út... Yndislegur hann Kisi okkar Jackson :). Núna er Hjörtur svo að væla í mér um að fá annan kött á heimilið. Hann hitti nefnilega ofursætan kettling í Sandgerði í dag sem er líka af skógarkattarkyni og bráðvantar heimili. Hmmm...sjáum til.

Jæja, auðvitað tókst mér að tala meira um flutningana en barnið! Ég stefni á að henda inn nokkrum myndum næst, alla vega af þeim herbergjum sem teljast fullkláruð.

60 manns í prófi hjá mér á morgun þannig að ég ætti að hafa nóg að dunda mér við næstu dagana.

Sjáumst!

Sóla Daltúni :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innilega til hamingju með dúlluna og svo auðvitað nýja heimilið!

Lúlla sys (IP-tala skráð) 11.12.2012 kl. 23:24

2 identicon

Að reikna níu plús sautján var ekki það auðveldasta svona í morgunsárið !

En til hamingju með Kristrúnu krútt og nýja húsið ! Okkur hlakkar mikið til að koma ! Mig langaði svo að vera með að hjálpa til !

Gott að Kisi sé byrjaður að taka þessu vel :) Ég vona að hann eignist vinkonu :)

Harpa (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 09:09

3 identicon

Til hamingju með Kristrúnu 3ja ára og nýja heimilið. Ég fer bráðum göngutúr og kem við í kaffi. Eða Te altso :-) Banka bank er einhver heima? Hehe...

Sigrún Glenna (IP-tala skráð) 16.12.2012 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband