Notið hjálm!!!

Af hverju í fjáranum er ekki búið að setja í lög að ALLIR á hjóli eigi að hafa hjálm á höfði - ekki bara 15 ára og yngri? Ég hjóla alltaf með hjálm, bæði af skyldurækni (vil vera góð fyrirmynd) og af því að ég er bæði lífhrædd og áhættufælin; tilfinningar sem hafa fengið aukna vigt með hækkandi aldri og fjölgandi afkomendum. Það er til öfga- þetta og öfga- hitt og í dag varð ég „öfga-notaðu-alltaf-hjálm-isti“. Ég er alveg pottþétt á því að hjálmurinn á hausnum á mér hafi bjargað mér frá bráðum bana eða í besta falli ljóstillífandi plöntulífi til æviloka.

Við stelpurnar vöknuðum fullar tilhlökkunar í morgun því að Hjörtur var að koma heim úr átta daga JÚESSEI dvöl. Eftir kossa og knús hentist ég á upp á hjólið með hjálm á höfði og skólatöskuna aftan á barnastólnum, eins og ég geri iðulega á mánudögum og föstudögum (tímabundið neyðarúrræði konu sem ekki getur hlaupið). Veðrið var dásamlegt, blautt en milt og hlýtt, og ferðin upp í Grafarvog sóttist vel að vanda. Eftir að komið er úr Bryggjuhverfinu tekur við töluverð hækkun – og svo tímabundin lækkun áður en ég lendi uppi í World Class í Spöng til þess að sturta mig fyrir kennslu. Ég var á góðri ferð niður bratta brekku á hjólastíg en ákvað að hægja vel á mér áður en ég kæmi að gatnamótunum þar sem annað hvort biði mín grænt eða rautt ljós. Ekki datt mér í hug að þarna væri flughálka („black ice“) en sú var því miður raunin. Hjólið þeyttist undan mér og ég flaug í löngum boga fram fyrir mig og skall nánast lóðrétt á hausinn við vinstra gagnauga og rann um stund eftir glerhálum göngustígnum á hausnum og vinstra lærinu. Ósjálfráð viðbrögð (svona „fekkkk...sá einhver mig detta?“) urðu til þess að ég rauk nokkuð snöggt á fætur og fékk í leiðinni að sjá Mars, Júpiter, Venus og nokkur smástirni aukreitis dansa í kringum mig, alveg eins og í teiknimyndasögunum um Tinna. Ég sá í alvöru bara ljósdepla og svartnætti í kringum mig um stund. Hausinn varð þungur sem blý og tilfinningin var eins og hjartað væri að slá þungt uppi í heilanum og vildi brjótast út úr höfuðkúpunni. Ég fann fyrir sársauka í lærinu og sköflungnum, en vissi að ég var óbrotin. Ég hugsaði bara um hausinn á mér og þetta rosalega högg sem ég hafði fengið á hann og...hvað hefði gerst ef ég hefði ekki verið með hjálm? Þessi hjálmur...

Ég eyddi stórfé (á minn mælikvarða) í þennan hjálm fyrir rúmu ári síðan þegar mér fannst vera kominn tími á endurnýjun. Ég fór á „racernum“ mínum í fína hjólabúð og sá líka þennan flotta hjálm sem passaði einmitt við litinn á rándýra hjólinu sem Hjörtur hafði gefið mér í fertugsafmælisgjöf. Sölumaðurinn dásamaði hjálminn í bak og fyrir og „þýsk gæðavara“ voru einmitt töfraorðin (afsökunin) sem ég var að leita eftir. Ég staðgreiddi gripinn (ekki vísa-rað) og hef aldrei séð eftir því að hafa þetta þýska stál utan um viðkvæma íslenska hjúpinn sem verndar að öllu jöfnu minn auma heila. Það kvarnaðist vel upp úr honum við höggið en við Hjörtur teljum hann enn vel nothæfan, enda er plastið ekki brotið (það er einangrunarplast/korkur á mestu álagspunktunum). En ég bara veit að hefði ég ekki verið með hjálm hefði höfuðkúpan brotnað í mél.

Böndin á bakpokanum slitnuðu af við höggið (tölvan lifði samt af) og það hrikti í hjólinu, en ég hafði ekki tíma til þess að labba síðasta spölinn upp í Spöng. Ég gætti þess því vel að hjóla bara ofurvarlega á fína (beyglaða) fjallahjólinu hans Hjartar á grasinu alla leið upp í World Class. Ég var enn með dúndrandi hausverk og brá líka nett þegar ég fór úr buxunum og sá risastóra, blóðuga kúlu á lærinu. Mér logsveið í sturtunni, en sem betur fer er apótek við hliðina á WC og þar keypti ég pakka af íbúfen og stærstu grisjuna í sjoppunni. Poppaði peinkillers uppi í skóla, límdi grisjuna yfir bólguna á lærinu og reyndi að jafna mig á sjokkinu með því að tjá mig um atburðinn við vini mína á kennarastofunni. Ég kenndi svo fjóra tíma með þungan haus (en ekki ruglaðan), vann í smástund en hringdi svo í Hjört og fékk hann til þess að sækja mig og hjólið. Tilhugsunin um að hjóla heim var einfaldlega yfirþyrmandi. Seinni partinn fór ég svo smátt og smátt að stífna upp í herðum og hálsi, sérstaklega vinstra megin. Það liggur helaumur strengur frá eyranu, niður í öxl og jafnvel niður fyrir herðablað. Hausinn er enn þungur og sjálfsagt verð ég stíf og aum í nokkra daga. Það lagast og ég verð vonandi eins og nýsleginn túskildingur eftir nokkra daga. Hjörtur fór beinustu leið og keypti góð nagladekk fyrir hjólið þannig að mér ætti að vera óhætt að hjóla áfram í skólann í öllum veðrum (ef ég þori).

En lexían sem ég lærði svona harkalega í dag er að hjálmur er lífsnauðsynlegur. Sumir vilja halda því fram að hjálmlausar hjólreiðar séu bara lífsstíll og það sé alveg sjálfsagt að sporta sig í tweed-hjólafötum með six-pensara á höfði. Little do they know. Ég ræddi þetta mál einmitt við góða vinkonu mína í dag. Hún er algjörlega á sama máli og ég, en segir að helstu rök fólks gegn fullri lögleiðingu hjálmanotkunar séu að þetta sé viðkvæmt mál fyrir suma og jafnvel skerðing á frelsi einstaklingsins. Bann á reykingum á opinberum stöðum, svo sem í flugvélum, skólum og á veitingastöðum þótti sko líka skerðing á frelsi einstaklingsins fyrir ekki svo mörgum árum. Við hlæjum að þessari andstöðu núna. Vonandi gerum við það sama eftir örfá ár, þ.e. skellihlæjum að því að einu sinni hjólaði fólk án hjálms af því að það vildi vera „frjálst“ eða þótti það ekki nógu „kúl“ að vera með hjálm. Ég veit það í hjarta mínu (og þungu höfði!) að hjálmlaus hefði ég ekki lifað 12. október 2012 af – eða í besta falli lifað en samt aldrei aftur sem virkur þátttakandi í þessu þjóðfélagi, sem móðir, eiginkona, kennari og vinur.

Eins og þeir segja í Færeyjum: „Hættu þessu mjálmur og notaðu hjálmur!“

Peace out.

Hjóla Hjálmsdóttir :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úff þetta er svakalegt! Ég skil einmitt ekki heldur afhverju fólk kýs það að nota ekki hjálm. Ég væri ekki alveg í lagi í dag eða kannski bara ekki á lífi ef ég hefði ekki notað hjálm þegar ég var yngri. Það kom sprunga á hjálminn í staðinn fyrir hausinn.

Vonandi verðuru fljót að ná þér. Knús!

Rannveig Iðunn (IP-tala skráð) 12.10.2012 kl. 22:41

2 identicon

Takk elskan. Það eru einmitt margir með þessar reynslusögur, þ.e. um að hjálmur hafi bjargað þeim. Svo eru aðrir sem ekki notuðu hjálm og geta ekki tjáð sig :(

Sóla (IP-tala skráð) 12.10.2012 kl. 22:43

3 identicon

Mikið er ég feginn að þú varst með hjálm!!! Þetta hefur verið rosalegt! Dúgglegur!

Bjössi bró (IP-tala skráð) 12.10.2012 kl. 22:50

4 identicon

Hjúkket að þú varst með hjálminn! Guði sé lof!!! 

Svava (IP-tala skráð) 12.10.2012 kl. 23:01

5 identicon

Þú gleymdir dóttir! En guði sé lof...og þýsku hjálmahönnuðunum líka!

pabbi (IP-tala skráð) 12.10.2012 kl. 23:11

6 identicon

Úff þetta er hrikalegt! ég vona að þú verðir fljót að ná þér mín kæra vinkona. Mér finnst nú alveg spurning hvort þú hafir fengið heilahristing eða snert af honum, fyrst þú sást stjörnur. Og hefðir átt að fara á slysó, en þú ert náttúrlega af Snæfellsnesinu og ættuð af Ströndum, úr Flatey og víðar og því þetta hörkutól sem þú ert!

Alveg er ég innilega sammála þér með hjálminn, við Már notum hann alltaf, en það er svo oft sem maður sér fjölskyldu í hjólatúr og forelrarnir hjálmlausir. Hversu vitlaust er það?

Knús til þín mín kæra

Ingibjörg (IP-tala skráð) 13.10.2012 kl. 00:13

7 identicon

Úffídúffí !! Ég heyrði svo illa í gær þegar þú varst að útskýra hvernig þetta gekk til en mikið er ég guðslifandi fegin að þú sért í heilu lagi og á leiðinni til okkar eftir 5 daga :)

Harpa (IP-tala skráð) 13.10.2012 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband