Sumarfrí...tíhíhí...

Það er sniðugt að kíkja í símann sinn þegar gleymskan nær yfirhöndinni. Samkvæmt þessari mynd skemmtu stelpurnar sér vel í Nauthólsvíkinni fyrir skemmstu:

IMG_1178

 

Þar eru komin nokkur ný og skemmtileg tæki. Við hjóluðum þangað stelpurnar og pabbi var svo góður að kíkja líka þangað þannig að Jólrún gat synt í íslenska sjónum í fyrsta sinn í langan tíma (held að ég hafi ekki tekið sundsprett síðan á Ægisgötunni í gamla daga þegar Hrefna Markan...meiri harkan...hrinti mér í sjóinn sjö ára gamalli). En það fór verr fyrir Bob Dylan, en þar var María Markan að verki (man einhver eftir því?).  Anyways, mig langar til þess að synda oftar í sjónum. Og þá meina ég SYNDA. Þetta var eitthvað smá busl hjá mér og Björgu með tilheyrandi skrækjum. Einu sinni er þó allt fyrst.

Húsdýragarðurinn er svo mikil klassík að það hálfa væri nóg. Árskortið í garðinn er búið að margborga sig og ef ég reikna út ágóðann á ég fyrir nýjum minkapels og rúmlega það. Minn heitasti draumur, ásamt demantshringi auðvitað. Og gráu fúnkishúsi. Múahahaha. Minn materíalski Síamstvíburi,  Ásta margbrotna, slóst í för og úr varð heljarinnar hjólaferð í garðinn. Hér er Ásta ásamt tveimur yngstu sonum sínum, Aðalsteini og Ríkharði. Tjú tjú!

IMG_1179

Veðrið var sjúklegt eins og svo oft áður í sumar. Dásemd dásemd dásemd. 

Við áttum annan dásemdardag í Elliðaárdalnum, sem ég gerði reyndar ágætis skil á facebook. Þar voru flestar myndir teknar á vélina hans Óla afa, en ég fann nokkrar á símanum mínum. Hérna eru glaðbeittu nafnarnir:

IMG_1201

 

Óli og Erna, Bjössa og Ernu börn, fóru sem sagt með okkur í dalinn á meðan foreldrarnir voru að flytja úr Frostaskjólinu í Granaskjólið. Ég hjólaði þangað í fyrradag á 25 mínútum (tekur svipað langan tíma að keyra) og leist ótrúlega vel á hversu vel þau voru búin að koma sér fyrir. Næs að hafa einkalóð og ekki spillir fyrir að það er örstutt á KR völlinn þar sem krakkarnir munu bæði gera það gott í boltanum í framtíðinni (Óli Geir reyndar nú þegar,  bæði í fótbolta og körfubolta).  

Björg Steinunn fór loks í fermingamyndatöku í vikunni. Mér finnst ágætt að hafa formlegar myndatökur á sumrin þegar allir eru hraustlegri útlits og horið hætt að hanga. Kristrún er einmitt öll að hressast núna og hætt að hnerra sjötíu sentímetra sleipum slöngum, fagurgrænum að lit, út úr hvorri nös. Líklega af því að hún er komin í frí í leikskólanum - ónæmiskerfið er víst ekkert sérlega sterkt. Hér er Kristrún á leiðinni í myndatöku, ægilega fín:

IMG_1218

Það sést reyndar í smá glóðarauga og skrámu á auganu hægra megin. Krílið datt daginn áður í Elliðaárdalnum. Sigrún og Kristrún fengu að vera með Björgu á nokkrum myndum og ég hlakka til að sjá útkomuna. Ljósmyndarinn heitir Elena Litsova og ég valdi hana af því að myndirnar hennar eru bara ótrúlega flottar og öðruvísi. 

Við fórum í skemmtilega heimsókn til Svövu mágkonu í sveitina í gær. Hjörtur var í tveggja daga mótórhjólaferð uppi á fjöllum þannig að það var ágætt að dunda sér með Svövu og börnunum. Þrjú tveggja ára, ein fjögurra ára og ein sex ára. Góður hópur og nóg við að vera í sveitinni í Mosfellsdal. Hér eru Emma Björk og Kristrún Eir að brosa vinalega hvor til annarrar. Þær munu örugglega eiga skap saman, báðar rólegar í fasi en nokkuð ákveðnar samt.

IMG_1235

 

Hjörtur kom svo heim í gærkvöld, vel þreyttur eftir langa keyrslu í óbyggðum og hrjótandi herbergisfélaga. Útsýnið út um eldhúsgluggann í gærkvöld var fagurt eins og oft áður:

IMG_1242

Litirnir eiga að vísu að vera miklu bleikari en síminn var ekki alveg að ná þessu rétt.

Jæja, smá fótaskýrsla í lokin... Ég komst strax að hjá gamla sjúkraþjálfaranum mínum og þar kom í ljós að sinin undir ilinni er grjóthörð og stíf og mikil vinna framundan. Svo fórum við Kristrún í göngugreiningu í Flexor. Kristrún var mjög laus í öllum liðum en það þótti svo sem ekkert óeðlilegt fyrir hennar aldur og mun líklega lagast. Ég var líka skoðuð í bak og fyrir og ekki fannst nein sérstök skekkja frekar en vanalega. Geng svolítið á jörkunum, sem er eðlilegt fyrir mína fótabyggingu. "Göngugreinandinn" hafði sjálfur átt við hælvandamál  að stríða (gat ekki stigið í fótinn í 3 mánuði!) og gaf mér ýmis góð ráð. Hann ætlar að láta sérsmíða innlegg fyrir mig sem hann lofaði að myndu hvíla sinina vel. Ég er bara ánægð með það og leyfi mér að vera bjartsýn á framhaldið. Það verður þó ekki mikið um hlaup á næstunni þannig að ég verð að reyna að vera duglegri að hjóla. Við förum líklega í Hólminn á morgun og ég er alvarlega að spá í að hjóla frá Borgarnesi til Stykkishólms. Það eru einhverjir 100 kílómetrar en ættu varla að drepa gamlan maraþonhlaupara. Mér er reyndar meinilla við að hjóla úti á vegum af ótta við gáleysi bílstjóra, en við skulum bara vona að umferðin verði lítil sem engin. 

Until next time... 

 

Hjóla Bödd :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólrún Inga Ólafsdóttir

Jæja....myndirnar komu svona á ská í þetta sinn en ég býst alveg við að fólk geti tengt þær frásögninni þrátt fyrir allt :)

Sólrún Inga Ólafsdóttir, 15.7.2012 kl. 10:37

2 identicon

Fínustu símamyndir - merkilegt hvað myndirnar koma vel úr iPhone :)Ertu með dropbox eða iCloud í símanum?

Hann frændi minn stundar reglulega sjósund í Nauthólsvík og náði að plata mömmu og yngri bræður mína með um daginn. Þau stóðu sig víst vel.

Hlakka til heyra hvernig hjólaferðin gekk ;)

Rannveig Iðunn (IP-tala skráð) 15.7.2012 kl. 11:17

3 identicon

Það er bara iCloud, Rannveig. Voðalega þægilegt allt saman :)

Sóla (IP-tala skráð) 15.7.2012 kl. 22:11

4 identicon

Já það er mjög þæginlegt, ég nota samt bara dropbox :)

Rannveig Iðunn (IP-tala skráð) 15.7.2012 kl. 22:49

5 identicon

Ég er enn að jafna mig eftir hjólatúr gærdagsins hjá þér dugnaðarforkur! Við teljum niður dagana þar til þið komið í bæinn og við getum farið í sund, hjólatúr og húsdýragarðinn. Þangað til, láttu Hólminn heilla.

Ásta (IP-tala skráð) 17.7.2012 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband