Júlíbyrjun í Stykkishólmi

Jajíja....feita konan sest við tölvuna á ný með einhverjar ponsu fréttir af álfunum í túninu sem aldrei eru heima. Við vorum að koma úr Hólminum áðan eftir 5 daga dvöl sem leið hjá eins og hendi væri veifað. Vúmm! Þar voru flest tún gul, fyrir utan grænar skellur sem í daglegu tali kallast fíflablöð. Júní var náttúrulega þurrasti mánuðurinn þar frá upphafi mælinga. Það var aðeins meiri raki í loftinu núna í upphafi júlímánaðar, þó að ekki sé hægt að segja að rignt hafi mikið.

Björg Steinunn kom sinn fyrsta túr í Hólminn með okkur í sumar, sem er ótrúlegt miðað við aldur og núverandi störf. Reyndar var það starfið (unglingavinna, barnapössun, spilerí) sem hélt aftur af henni, en núna tók hún sér smá frí. Sigrún Björk eyddi mestum tímanum í Hólminum með vinkonum sínum (Helenu og Jóhönnu) þannig að ég skottaðist mest um bæinn með litlustu og stórustu:

 IMG_1123-1

Hér var ég að reyna að taka krúttlega mynd af Kristrúnu á Skólastígnum, en himpigimpið nýfermda gretti sig í gríð og erg fyrir aftan. Við vorum einmitt á leiðinni úr heimsókn hjá Dísu skvísu vinkonu okkar á Skólastígnum, saddar af Condiskexi og Pepsi Max. Rop.

Við hjóluðum reyndar miklu meira en við gengum, sem kom þó ekki endilega til af góðu. Sama morgun og við fórum til Stykkiz steig gamla konan (ég) berfætt (og sárfætt) á einhvern aðskotahlut á gólfinu sem stakkst djúpt inn í hælinn. Mér fannst þetta vera glerflís og finnst það enn þegar ég renni fingrinum laust yfir húðina á hælnum þar sem ætlaður aðskotahlutur er. Ekki sáum við neitt standa út úr hælnum þannig að ég mætti í tabata í Laugum með Ástu úlnliðsbrotnu á kantinum. Ég haltrandi og Ásta með hangandi hendi (týpískt hún eitthvað sko). Daginn eftir var mér enn jafnillt í hælnum (og komin með djúpan verk í ilina eftir að ganga alltaf á táberginu) þannig að ég kíkti í læknisheimsókn á sjúkrahúsið í Stykkishólmi. Læknirinn fann ekki neitt nema "bullandi hælspora", þ.e. il sem var viðkomu eins og spenntur bogi (Braga?). Við ræddum iljarfellsbólgu mína og að endingu gaf ég lækninum góð ráð við hans eigin hásinabólgu: Lið-aktín! Hann fór sáttur með þau málalok en ég alveg jafnhölt, þar sem að hann sá ekkert og vildi ekki fara að krukka í hælinn og búa til sár. Bíða í fimm daga og sjá svo til. Ég er skárri í "flísinni" núna, en hællinn og ilin í algjöru rusli, enda er ég nánast ekkert búin að geta hlaupið síðan einhvern tímann fyrir Kanada. Fram að því virtist þetta allt á uppleið, 9-10 km rólegir og var ekkert að versna. Ætli maður verði ekki að fara að játa sig sigraða og drullast til sjúkraþjálfara? En það kom sér vel fyrir gönguhefta konu að hafa tekið með hjólin til Stykkishólms. Ég fór meira að segja í smá hjólatúr upp í sveit og kom til baka alveg rennandi blaut...að utan. Lenti í rigningarskúrnum sem allir höfðu verið að bíða eftir! Já já...svo fór ég líka að synda...í annað skiptið á árinu! Hrikalegt hvað maður er "hooked" á hlaupunum og nennir engu öðru. En neyðin kennir naktri konu að troða sér í sundbol og sundhettu, setja á sig nýju sundgleraugun og dúlla sér í fínu sundlauginni í Stykkishólmi þar sem alltaf er nóg pláss. Ég byrjaði með froskalappir en í 25 metra laug er maður varla lagður af stað áður en komið er á bakkann hinum megin. Ég ákvað að reyna að æfa skriðsund ÁN froskalappa. Disaster.  Ég sökk eins og vanalega og var nær dauða en lífi á tímabili. Í staðinn fyrir að gefast upp snarlega ákvað ég að þrjóskast aðeins við. Ég prófaði að slaka aðeins á og gera bara fótatökin fyrst, alveg rosalega rólega, og reyna svo að koma restinni af skrokknum á stað á eftir. Þetta gekk betur og ég átti nokkrar sæmilegar ferðir. Hvíldi mig vel og lengi við bakkann eftir hverja ferð og var ekki að stressa mig á að telja ferðirnar. Ég bara verð að koma mér aftur í sund og æfa skriðsundið. Best væri auðvitað að fá einkaþjálfara í nokkur skipti. Er einhver á lausu?

Við gerðum nú ýmislegt fleira en að hjóla og haltra. Sóla var sett á flot og við drógum upp nokkra þorsktitti í matinn handa okkur og Begga nágranna. Síðustu þrír sem ég veiddi voru nú reyndar meira en bara tittir, Hirti til mikillar ánægju. Hann nennir ekki að flaka neitt undir 20 pundum sko.

Í gærkvöld dró ég engan þorsk, en hins vegar dró ég Hjört með mér upp á Hraunflöt að renna fyrir fisk í Selvallavatni. Þar eyddi ég mörgum góðum stundum með fjölskyldunni í gamla daga. Ég hafði keypt nýja silungaspúna í Kanada og var ekkert lítið spennt fyrir að prófa þá alla. Ég valdi einn nettan sem hét "Black Fury" sem virtist ætla að gefa góða raun því að um leið og ég kastaði út var kominn fiskur á. Því miður tókst honum að snúa sig af króknum og ekki varð ég vör aftur um hríð. Hirti gekk ekki vel heldur, enda að veiða á algjörlega glötuðum stað (what a noob!). Honum leiddist greinilega þófið og ákvað að ganga yfir vatnið! Hér er hann á miðri leið:

IMG_1135

Hann gekk sem sagt þvert yfir vatnið, buxnalaus en í úlpu. Á leiðinni til baka tókst ekki betur til en svo að hann lenti í holu í vatninu og sökk upp að geirvörtum og eyðilagði um leið fína símann sinn! Á meðan eiginmaðurinn var að drukkna reyndist ég upptekin við að mynda bráðina í blóðbergsdúlleríi í fagurri laut. Ég man ekki hvað þessi spúnn hét, en ég ákvað að hann væri betri en Svarta reiðin:

 IMG_1143-1

Krúttlegur! Auðvitað sleppti ég honum eftir myndatökuna. Fiskinum, ekki spúninum.

 

Að endingu fóru leikar þannig að Hjörtur fékk tvo fiska....

IMG_1147

Hér er hann með minnsta fisk sem veiðst hefur í Selvallavatni.

....og ég var með sjö fiska: 

 IMG_1149

Jæja, kannski ekkert risastór heldur, en það er bara svo gaman að veiða. Þeim var öllum sleppt, ansi sprækum, svona fyrir næstu veiðimenn.

Hér er ein stemmningsmynd frá Selvallavatni: 

 IMG_1164

Gráakúla í baksýn, urriði í framsýn. Mikið var þetta nú gaman.

Nú tekur við rúm vika í höfuðborginni, nema að okkur detti í hug að fara í tjaldferðalag í millitíðinni. Mér finnst þetta sumarfrí allt of fljótt að líða og legg til að spólað verði til baka um að minnsta kosti einn mánuð. En eftir þessa rúmu viku förum við aftur í Stykkis í örfáa daga, svo í Flatey í viku (jibbýjey!) og svo eina helgi í viðbót í Hólminum. Eftir það er sumarfríið nánast búið. Búhú.

Bless í bili!

Sóla veiðisjúka :)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dætur okkar þyrftu að hittast..krónískir grettarar báðar tvær, hef ekki náð af henni eðlilegri mynd árum saman. Hlýtur að vera ættgengt..

Jófríður (IP-tala skráð) 7.7.2012 kl. 23:15

2 identicon

Neinei, hér verður ekkert spólað til baka. Sumarfríið mitt byrjar eftir viku.

Hættu að hugsa um að fríið sé á enda og njóttu þín í núinu :)

Rannveig Iðunn (IP-tala skráð) 7.7.2012 kl. 23:16

3 identicon

Já Jófríður, þetta grettubull kemur pottþétt úr Svefneyjaættinni! Rannveig mín...þetta eru orð að sönnu! Ég á einmitt dálítið erfitt með þetta, þ.e. að njóta mín í núinu. Framtíðarminni mitt er of sterkt :). En drífðu þig nú að ná þér í kennararéttindi svo að sumarfríið þitt byrji a.m.k. í júní!

Sóla (IP-tala skráð) 7.7.2012 kl. 23:19

4 identicon

Þær hittast kannski aftur í Flatey, sýnist á tímalínunni þinni að við verðum þar á sama tíma og þið.

Jófríður (IP-tala skráð) 7.7.2012 kl. 23:22

5 identicon

Efast um að kennararéttindi sé í minni framtíð...en hvað veit ég svo sem.

Rannveig Iðunn (IP-tala skráð) 7.7.2012 kl. 23:25

6 identicon

Hvaða hvaða...en mikið skil ég þig með þetta nú og framtíð, því ég hugsa eins ! Núna eru 2 vikur liðnar af mínu sumarfríi og það eru bara 5 vikur eftir !!! Þetta er svindl!!!(eldri dóttir mín segir þessi orð mjög oft þessa dagana). En annars er þetta skemmtileg ferðasaga og vonandi líður þér betur í fætinum. Ein pæling...til hvers að veiða fullt af fiski til þess eins að sleppa honum svo aftur ? Aldrei gerir Dóri það!

Svava (IP-tala skráð) 7.7.2012 kl. 23:29

7 identicon

Jófríður...það líst mér vel á! Eru þær ekki á svipuðum aldri? Björg verður nefnilega eini unglingurinn í Bræðraminni í þetta sinn og er algjörlega miður sín yfir því.

Rannveig: Þú ert fædd til þess að vera kennari, sérstaklega  enskukennari ;)

Svava: Þetta er rétt hjá Dóra, en þeir voru bara svo litlir greyin. Það er svo GAMAN að VEIÐA :)

Sóla (IP-tala skráð) 8.7.2012 kl. 09:18

8 identicon

Þær hljóta að vera jafnöldrur..nýfermdar báðar tvær. Við förum mánudaginn 23. og verðum í viku hið minnsta. Hún verður líklega með vinkonu með sér og getur slegist í hópinn, það er bara gaman.

Jófríður (IP-tala skráð) 9.7.2012 kl. 09:34

9 identicon

Jólrún og Jófríður....það verður einn unglingur þarna til viðbótar sem áreiðanlega krefst þess hanga með hinum unglingunum. Óli Geir...þó einungis 7 ára sé..ber öll þess merki að vera með unglingaveiki á háu stigi.....vantar samt einhverja sentimetra...kemur örugglega slagsíða á hópinn! :)

Bjössi bró (IP-tala skráð) 9.7.2012 kl. 12:32

10 identicon

Ég er viss um að þær taka honum fagnandi.. :)

Jófríður (IP-tala skráð) 9.7.2012 kl. 17:44

11 identicon

Já já, Óli Geir er samfastur síðu Bjargar og mun njóta sín vel í kvennafansinum!

Sóla (IP-tala skráð) 9.7.2012 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband