Enginn flóafriður í Hólminum

Komin heim úr Hólminum fagra með manninn minn magra, tvö stykki börn og eina kaffikvörn. Gaman að fá kofann sinn aftur í sumar, en heldur verra að vera bitin af einhverri fló og sitja uppi með rúmlega 30 bit og vera alveg að drepast úr kláða. Sigrún Björk fékk nokkur en allir aðrir sluppu og þá er ég að tala um Bjössa og fjölskyldu, Helgu og kærasta, pabba og svo Hjört og Kiddú. I'm so special. Bjössi og co. voru reyndar bara í húsinu eina nótt og svo komum við með restina af liðinu á laugardaginn. 

IMG_6226

 

Húsið okkar er svo lítið að elsta dóttirin og viðhengið þurftu að dúsa úti í tjaldi! Veðrið var samt alveg fínt framan af. Við fórum fyrsta veiðitúrinn á Sólu á Sjómannadaginn og vorum allt of fljót að fylla kvótann.

 IMG_6251

Steikti þorskurinn bragðaðist jafnvel betur en entre cote grillsteikin með bernaise sósunni og þá er nú mikið sagt. Við kíktum aðeins á hátíðahöldin við bryggjuna en slepptum kaffinu í flóabátnum Baldri. En samt sit ég uppi með kláða og kvalir. Ég er alveg bit!

IMG_6254 

Túrinn rennur svolítið saman í eitt hjá mér núna þegar ég er að reyna að rifja hann upp. Ég sé fyrir mér sól, heitan pott, Bjórlaf með bjór, Hjört að ditta að hinu og þessu, Sigrúnu alsæla með leikfélagana sína og Kiddú á vappi um tún. Svo vel vildi til að leikhópurinn Lotta var á ferðinni í Hólminum, en Sigrún og Hjörtur eru búin að vera fastir áskrifendur að þeirra leikritum síðustu fjögur árin.

 IMG_6271

Núna fórum ég og Kristrún líka með og skemmtum okkur konunglega á Stígvélaða kettinum. Ég mæli eindregið með þessari bráðfyndnu sýningu. Sigrún býður mjög spennt eftir að fá geisladiskinn með lögunum sendan heim,  enda eru hún og Lotta músíkalskt par, sannkallaðir djassgeggjarar.

 IMG_6286

Sigrún Björk var svo upptekin við að leika sér við vinkonur sínar að hún mátti engan veginn vera að því að koma með mér og Kiddú að heimsækja Maj'ömmu. Það er alltaf svo gott að koma til ömmu og spjalla um daginn og veginn og drekka góða kaffið hennar. Kristrún undi sér vel með dótakassann hennar ömmu á meðan. Eftir heimsóknina kíktum við niður í fjöru í Maðkavík og fleyttum skeljum á flóðinu. Við náðum líka að kíkja aðeins á Dísu skvísu áður en við fórum heim í gær og klappa kisunum hennar, Lukku og Lukka. Og klappa Gúnda á kollinn.

IMG_6266 

Svo voru skólaslit í dag og allir á heimilinu voða glaðir með árangur stelpnanna. Nú þarf að fara að sinna millistykkinu á heimilinu vel og sjá til þess að hún fari út að leika með reglulegu millibili. Það er ekki alveg ljóst hvenær við förum næst í Hólminn. Veðurspáin er ekkert sérstök í bili og ýmisleg verkefni framundan hjá fjölskyldumeðlimum hérna heima.

 

Það má eflaust gera sér bloggmat úr því sem gerist á næstu dögum...

 

Sóla fló Grin 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sem var búin að heita því að bjóða Sigrúnu á Stígvélaða köttinn.  Ég hlakka mikið til að sjá þetta.  Flottar myndir, flottar stelpur í sumardressunum :)

Ásta (IP-tala skráð) 12.6.2012 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband