London í gær, Stykkiz á morgun

Það fara að verða

IMG_0518 síðustu forvöð að rifja upp Lundúnaför okkar mæðgna áður en fjölskyldan fer í sína fyrstu Stykkishólmsför á þessu ári. Strax er farið að fenna í sporin og Björg úti á lífinu "as we speak/write" þannig að ég verð að treysta á mitt gamla og "góða" minni. Látum okkur nú sjá....

Dagur 1: Þrælspennt Björg spratt upp eins og fjöður klukkan hálf fimm að morgni (öðru vísi mér áður brá) og við vorum ekki lengi út á völl, hvar við skildum eftir sexpakkann (Honduna) í góðum höndum Icepark (þrif og bón). Björg hefur kvartað sáran undan helv.... kreppunni og fátæktinni sem henni fylgir: Heil FJÖGUR ár síðan hún fór til útlanda!

IMG_0551

Illa farið með ungviðið. Hún naut sín í botn í flugvélinni og horfði á myndir og þætti með ákafa skemmtiglaða unglingsins. Eftir smá bras á flugvellinum (þar sem hún komst að þeirri niðurstöðu að ég væri í raun líkari Susan en Lynette í Despo) náðum við áfangastað með hjálp neðanjarðarlestakerfisins, sem Björg náði tökum á en to tre. Gistingin var þrælfín, í gegnum airbnb eins og svo oft áður. Við köstuðum af okkur töskunum, drifum okkur niður í Regent's Park og ætluðum að ná dýragarðinum fyrir lokun, en vorum aðeins of seinar. Við fórum því bara niður í miðbæ og tjilluðum þar og tjúttuðum, meðal annars í Soho þar sem Björg horfði stóreygð á allar sexbúllurnar og fólkið sem stóð fyrir utan barina í hitanum og svolgraði í sig bjór. Crispy duck afgreidd þetta kvöldið og Björgu líkaði hún ágætlega.

Dagur 2: Allir morgnar hjá Björgu byrjuðu með ristuðu brauði og 20 sentimetra þykku lagi af súkkulaðiáleggi. Það má gera allt í fríi,  er það ekki? Við áttum svo frábæran tíma í dýragarðinum með fiðrildum, mörgæsum, gíröffum og tarantúla köngulóm. 

IMG_0540

Eftir mikið labb í dýragarðinum lögðum við okkur aðeins í Regent's Park, svona rétt til þess að safna kröftum fyrir Oxford Street. Það hafðist, en það var allt of mikið að gera í búðunum. Björgu fannst hún samt vera komin til himnaríkis og naut þess að skoða úrvalið í H&M og Claire's. Við fórum svo á Trafalager Square í kvöldsólinni, þar sem Björg gaf dúfunum brauð í laumi. Þegar ég var þarna með pabba snemma á níunda áratugnum var hægt að kaupa skál með korni fyrir dúfurnar. Það skemmtilegasta sem ég gerði í ferðinni var líklega að hafa 40 dúfur sitjandi á mér, kroppandi af mér kornið. Núna þykja dúfurnar vera plága sem er ver og miður. Ætli við höfum svo ekki endað daginn á að troða í okkur Big Mac, en þar þreytti Björg frumraun sína. Nei, hvernig læt ég? Við flýttum okkur heim óvenju snemma þetta kvöld til þess að horfa á Eurovision. Algjör snilld að hlusta á breska þulinn!

Dagur 3: Við vorum komnar niður í Camden Town á slaginu 10 á sunnudagsmorgni og nutum þess að ganga á milli sölubása, sóla okkur og sjá aðra. 

IMG_0572

 Björg gerði nokkuð góð kaup á Camdeneyrinni og gott ef mamman henti ekki tíu pundum í eina peysulufsu. Boðorð Bjargar í þessari ferð var: "Mamma! Þú verður að kaupa þér einhverja liti!" Það var mjög erfitt. Þó að svartur sé ekki hluti af regnboganum finnst mér hann samt alveg vera litur. Svona rétt eins og fjólugrænn. Frapuccini á Starbucks rataði inn á millri þykkra vara Bjargar og fannst henni ekkert sérstaklega mikið til þess drykks koma. En allt verður hún að prófa, stelpan. En hápunktur dagsins hjá mér voru ekki góðu kaupin í peysudruslunni, heldur grillveislan hjá Palmer fjölskyldunni. Ég var au pair hjá þeim í fjóra mánuði fyrir möööörgum árum og hef haldið góðu sambandi síðan. Við skiptumst enn á sendibréfum og jólagjöfum og nú var kominn tími til þess að sýna Björgu þessa umtöluðu fjölskyldu og vice versa. Við vorum svolítið seinar fyrir þannig að tuttugu mínútna gangurinn frá lestarstöðinni varð að nást á tíu mínútum (ég þooooli ekki að vera of sein) og það hafðist, þrátt fyrir dragbítinn hana dóttur mína (skiptir ekki máli hvað ég segi um hana...hún les ekki bloggið).

IMG_0592

 Móðar og másandi mættum við á slaginu þrjú í þessa líka fínu grillveislu með frábæru fólki. Jennifer var bara rúmlega eins árs þegar ég yfirgaf hana fyrir landið ísakalda (og mastersritgerð sem þurfti að klára) en aldrei hef ég getað gleymt þessu krúttlega krullubarni. Nú er hún orðin 19 að verða 20 og algjört fyrirmyndarbarn. Dásemdardagur sem við enduðum svo niðri á Leicester Square í Haagen-Dazs ísbúðinni. Þar fór hvítan úr augunum.

IMG_0617

Dagur 4: Byrjuðum á dýflissum Lundúnarborgar, sem voru pínulítil vonbrigði. Alls ekkert "scary." Samt gaman og fróðlegt. Björg hafði til dæmis aldrei heyrt um Jack the Ripper, Sweeney Todd, Bloody Mary og fleira gott fólk og var uppfull af spurningum eftir túrinn. Dásamleg lautarferð í Hyde Park á eftir (fullt af goodies úr Marks & Spencer) og síðan ferð til Stratford. Þar börðum við helsta ólympíuleikvanginn augum og duttum svo "óvart" inn í svaka verslunarmiðstöð sem var alveg jafn "busy" og Oxford Street. Eru Lundúnarbúar verslunaróðir? Björgu tókst enn sem fyrr mun betur að gera góð kaup heldur en mér, enda er munurinn á okkur sá að hún veit hvað hún vill. Mér finnst gaman að kaupa á börnin mín en hef verið frekar léleg undanfarið að finna fatatuskur á mig, sérstaklega þegar skær sumartískan er í gangi. Ætli ég sé ekki bara orðin svona praktísk með aldrinum, vitandi það að á Íslandi koma bara þrír dagar á ári max þar sem manni er ekki skítkalt í stuttbuxum og bol um hábjartan dag. Eftir mikinn labbilabb dag var gott að uppgötva óvart rosalega fínan indverskan stað í sínu eigin hverfi. Við gerðum okkur að leik að panta sterkasta réttinn á matseðlinum og fórum létt með að klára hann án teljandi táradala eða horleka. Það fór að vísu einhver söngur af stað í iðrunum daginn eftir á versta stað (klósettlausu H&M) en það leið fljótt hjá. 

Dagur 5: Vaxmyndasafnið var hápunkturinn þennan daginn.

IMG_0642

Það einhvern veginn klikkar aldrei. Björg hafði gaman af því að sjá að hún var með þykkari varir en Angelina Jolie og að mamma hennar er ennþá svolítið skotin í George Clooney, þrátt fyrir að hún sé gift mun fallegri manni en honum (mín orð, ekki hennar). Þvælingur í búðum og National Gallery er það helsta sem ég man frá deginum. Ég varð að sýna henni orginal Sólblóm eftir meistara Van Gogh, fyrst að við vorum sjálf í gistingu sem hét "The Sunflower Room." Ég játa það að ég er Van Gogh aðdáandi. Var einmitt að spá í hvort að ég hefði einhvern spes smekk þegar kemur að listum og...fötum? Hringur Jóhannesson í uppáhaldi á Íslandi....já og Hagkaup í fötum...múahahhaaa. Keep it simple. Anyways, Brökin heimtaði svo að fá að endurupplifa stemmninguna í Chinatown. Við enduðum á "All you can eat buffet" og komumst að endanlegri niðurstöðu: Kínverskur (s.s. vestrænn kínverskur) matur gengur aðallega út á djúpsteikingu og sykur. Yummie (án kaldhæðni - þetta er rosalega gott)!

Dagur 6: Síðasti dagurinn og tregi í hjarta. Litli táningurinn búinn að sofa í sama rúmi og mamma gamla allan tímann og meira að segja halda í hönd aldraðrar móður sinnar flestar stundir. Yndislegur tími saman. 

IMG_0683

Söknuðurinn eftir hinum fjölskyldumeðlimunum braust upp af og til, sérstaklega þegar ég sá krúttleg börn poppa upp í lestum og verslunum. Hvað er betra en að knúsa yngsta krílið? Gremja yfir dýrtíðinni í útlöndum var stundum skammt undan, en ég tók meðvitaða ákvörðun um að láta ekki gengi krónunnar gagnvart breska pundinu hafa áhrif á gleðina. "Pay and smile" var mantra mömmunnar. Við eyddum síðasta deginum í sólskininu endalausa í alls konar hangs. Örlítið meira búðaráp. Lautarferð við London Bridge. Ójá! Sáum einn frægan þar, sjálfan borgarstjórann í London. Við gengum nánast í flasið á honum þar sem hann var að rölta einn í hraðbanka. Eins vel upp aldar og við erum þóttumst við ekkert taka eftir honum en hvísluðumst á í öruggri fjarlægð: "Vá...var þetta ekki borgarstjórinn? Ha jú! Pottþétt...vó!!!" Við vorum nánast með þetta á tæru því að hann er mjög sérstakur í útliti (samsuða af Boris Becker og Donald Trump), auk þess sem hann var á forsíðu ferðabæklings sem ég tók með mér út um allar trissur og við höfðum stúderað ágætlega vaxmynd af honum á Madame Tussaud's. 

IMG_0721

En við vorum ekki 100% vissar fyrr en við fórum inn í fallegt kúlulaga hús við hliðina á hraðbankanum og komumst að því að þetta var "city hall" eða ráðhús Lundúnabúa. Kúl. Björg var alltaf að vonast til þess að sjá Josh Hutcherson eða Hayden Panettiere en þau eru nú bæði Kanar þannig að sénsinn var víst ekki mikill. Ég man þá daga þegar maður djammaði með Damon Albarn og Jarvis Cocker í London. Those were the days my friend.... Jæja, svo var farið heim, troðið ofan í töskur og haldið upp á Heathrow. Frábær ferð að baki og kellurnar tanaðar í drasl. Mikið var svo gaman að hitta krílin og kallinn á ný. Eftir sjö ár fer ég svo í svona fermingarferð með Sigrúnu. Eða pabbi hennar. Helst ég samt. Hef sjö ár til þess að agitera fyrir því. Leita eftir stuðningi...? 

Veðrið hér á Íslandi er nú ekki búið að vera amalegt heldur! Hvað er í gangi? Ég vona bara að þetta haldi áfram svo að koddaslagurinn á sjómannadaginn í Stykkishólmi fari ekki illa með þá sem lenda í sjónum!

Næst verða færðar fréttir frá Stykkishólmi.

Þetta er Sólrún I. Ólafsdóttir sem talar frá Madrid. Eða Kópavogi. Whatever LoL

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólrún Inga Ólafsdóttir

Hmmm....frábært þetta Moggablogg. Lítur ALVEG EINS út og í uppkastinu (áður en það er vistað). Eða þannig. Jæja,myndirnar verða þá bara að tala sínu máli alveg einar :)

Sólrún Inga Ólafsdóttir, 1.6.2012 kl. 23:20

2 identicon

en gaman ! :) augljóslega algör snilldarferð ! Ég fattaði samt alveg sirka hvar myndirnar áttu að vera þegar ég kom að þeim ;) Góða skemmtun í Hólminum, sé ykkur eftir 10 daga ! :*

Harpa (IP-tala skráð) 2.6.2012 kl. 08:31

3 identicon

En Sóla, þú ert auðvitað eins og Gabrielle. Mér sýnist ferðin hafa verið góð og gott að Björg fékk loksins að fara til útlanda.

Sólveig (IP-tala skráð) 2.6.2012 kl. 08:41

4 identicon

Frábært blogg, gaman að heyra um ferðina :)

Ingibjörg (IP-tala skráð) 5.6.2012 kl. 00:27

5 identicon

Þetta hefur verið svaka stuð hjá ykkur! Gaman að þessu og litla Brökin í essinu sínu.

Bjössi bró (IP-tala skráð) 7.6.2012 kl. 02:06

6 identicon

Flott ferðasaga, flott fermingarstúlka, en var hún ein í ferðinni?  Er einhver myndafælin móðir?

Ásta (IP-tala skráð) 12.6.2012 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband