Nýr bloggvettvangur Zola's Zone!

Stórkostlegar breytingar hafa átt sér stað: Ég er flutt af blogcentral á blog.is! Ég var reyndar ekki aaalveg tilbúin til þess að flytja en þegar ég kom engum myndum inn rétt áðan taldi ég að nú væri kerfið hjá þeim að syngja sitt allra síðasta (það er jú búið að loka) þannig að ég svissaði yfir á blog.is. Ég átti reyndar síðu frá 2008 (sjá færsluna á undan) en hafði engin not fyrir hana fyrr en blogcentral ákvað að hætta. Nú er ég aðallega stressuð yfir því að allar færslurnar á gamla blogginu mínu hverfi eins og dögg fyrir mig (Sólu) einn daginn, en vonandi finnst einhver lausn áður en það gerist. Auðvitað skírði ég þessa síðu líka Zola's Zone, þó að þetta heiti sé afskaplega klisjukennt og hallærislegt. Það vita það kannski ekki margir, en ég stofnaði ekki sjálf bloggsíðuna á blogcentral fyrir tæpum átta árum, heldur Bjössi bró hrekkjusvín. Hann byrjaði að blogga í mínu nafni og setti inn fyndnar myndir af mér (og auðvitað þetta kléna heiti) en ég tók svo bara við keflinu og fór smátt og smátt að skrifa af einhverri alvöru. Tja...kannski ekki "alvöru" - en svona...you know what I mean. Fjölskyldublogg Jólrúnar leit dagsins ljós.

Það er margt búið að gerast síðan síðast en ég er auðvitað búin að gleyma helmingnum af því þegar svona langt líður á milli færslna. Vonandi verður nýja Moggabloggið bein innspýting í fingurgómana. Ég hef svo sem alveg haft tíma til þess að skrifa eitthvað, en tíminn hefur farið í aðra hluti. Já, til dæmis farið í að halda upp á brúðkaupsafmælið 30. apríl.

Hjörtur bauð mér á Grillmarkaðinn, sem fær nánast toppeinkunn hjá mér (bæði Hjörtur og staðurinn). Við völdum að fara alla leið með "smakk" matseðli og vínum þannig að við gætum prófað sem flesta rétti. Maturinn var virkilega góður og þjónustan öflug. En franska línan með nös á ketti sem mælikvarða var greinilega ekki í gangi þarna og var ég því hreinlega sprungin þegar komið var að aðalréttunum. Ég er alin upp við það að klára matinn minn og þótti mér því mjög sárt að sjá á eftir ókláruðum gómsætum steikum og sjúklegum eftirréttum. Hefðu verið fjórir um alla þessa rétti hefðu allir orðið mátulega saddir. Nota bene: Ég er ekki kölluð "drottning hlaðborðanna" fyrir ekki neitt þannig að ef ég segi að skammtarnir séu stórir, þá ERU þeir stórir. Hér er Jólrún í fordrykknum, áður en maginn sprakk:

 IMG_0326Bláberja mohito! Mér finnst samt Flahito betri ;)

Hjörtur var enn með smá pláss fyrir eftirréttinn:

 IMG_0337

Eins og sést vonandi eru skammtarnir freeekar stórir!

Eitthvað þarf hölt hæna að gera til þess að ná lýsinu af sér eftir svona risamáltíðir. Hællinn og ilin eru enn í ólagi þannig að ég er búin að vera að hjóla eitthvað smá og svona. Fór 38 km um allt höfuðborgarsvæðið á racernum en fannst brennslan lítil, enda alltaf að bremsa út af fólki, beygjum og umferð. Náði aldrei almennilegu rennsli nema við Sæbrautina. Hvar ætli sé best að æfa sig á svona hjóli? Og ætli verkurinn í hálsi og hnakka venjist vel?

Ég rölti líka ein upp á Esjuna í góða veðrinu í vikunni. Það var eiginlega léttara en mig minnti. Fín brennsla upp, en mikið er leiðinlegt að labba niður. Ég held að ég muni aldrei ná góðum árangri í fjallahlaupum. Fínt að hlaupa upp, en ég er svo lengi niður. Alltaf hrædd við að reka tærnar í og fljúga niður hlíðina. Eymingi með hor. Annars er horið á undanhaldi. Þá stend ég bara uppi sem eymingi:). Ég kældi minn hæl í svölum fjallalæk eftir gönguna:

 IMG_0344

Snjóhvítur leggur í glitrandi læk.

Helgin var fín í sólinni og kuldanum. Við kíktum á Óla Geir Bjössason skora fjölmörg mörk fyrir KR niðri á Víkingsvelli, buðum Sabbó, Krissa og grísunum 3 í mat og fórum svo í sveitaferð á Grjóteyri plús sund í Mosó í dag. Ég set inn myndir af öllu þessu í næsta bloggi. Ó...ég má auðvitað ekki gleyma gubbusögunum. Gubbusögur Sólrúnar eru algjör klassík!

Sko...einhvern tímann í vikunni vöknuðum við upp um miðja nótt við það að Kristrún tveggja ára væri að gubba. Það þurfti að skipta á öllu: Henni, rúmfötum, gólfmottum, you name it. Jæja, aftur að sofa og stuttu seinna: Sami pakkinn. En svo sofnaði krílið og kallinn en ég lá andvaka uppi í rúmi til morguns að bíða eftir næstu gusu. Á föstudagskvöldið fór mér að líða eins og ég hefði étið yfir mig á Grillmarkaðnum, en sannleikurinn var sá að ég hafði bara troðið sextán tommum af pizzu í andlitið á mér. Smátt og smátt fór ég að átta mig á að þetta væri ekki út af ofátinu, heldur væri gubbupest í uppsiglingu. Sú varð raunin og náði ég ekki að festa svefn fyrr en fimm um morguninn, með tóman maga. Allt í lagi með það svo sem. Svo koma braggabúar í mat á laugardagskvöldið, í grillað lambafilé með fiturönd og fleira fínerí. Þegar allir eru sestir til borðs tilkynnir Hjörtur að honum sé hrikalega óglatt og hafi enga lyst á matnum. Stemmning. Hann sat samt áfram til borðs og pikkaði í matinn. Í miðjum klíðum byrjar svo Kristrún eitthvað að emja og áður en hendi er veifað gubbar hún lifur og lungu yfir matarborðið! Huggulegt. Svo kósý. Við hjónin fórum í töluverðar þrifaðgerðir á krílinu, matborðinu og gólfinu á meðan hinir héldu áfram að pína ofan í sig matinn, hugsandi um alla kossana og allt knúsið sem þau hefðu fengið frá smitberunum þegar þau gengu í bæinn. En þetta fór allt vel, þannig lagað. Kristrún var hin hressasta, Hjörtur var hinn óhressasti og allir aðrir bara frekar glaðir og sáttir með sitt. Ekkert hefur frést af veikindum gestanna enn sem komið er, en Hirti varð ekki svefnsamt í nótt. Hann er orðinn hress núna, kallanginn. Sigrún Björk 6 ára kvartaði hins vegar yfir magaverk rétt áður en hún fór að sofa þannig að ég plantaði einni skál við hliðina á koddanum hennar. Betra að hafa þetta snyrtilegt. Correct me if I'm wrong...en var þetta ekki bara fyrsta gubbusaga ársins???

Gefum blogcentral og gubbupestinni langt nef...eða teygðan munn:

IMG_0300

Lifi byltingin!

Zola Moggenbloggen

PS Það er "like" takki og "share" takki hérna og hvaðeina!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólrún Inga Ólafsdóttir

Bara að prófa kommentakerfið:)

Sólrún Inga Ólafsdóttir, 6.5.2012 kl. 22:01

2 identicon

Velkomin á Moggabloggið!

Júlíana (IP-tala skráð) 6.5.2012 kl. 22:01

3 identicon

Danke,danke:)

Sóla (IP-tala skráð) 6.5.2012 kl. 22:02

4 identicon

Yndislegt,loksins fluttirðu!!! Ég var að átta mig á því að ég hef aldrei litið þínar fögru tær augum fyrr!!! En takk fyrir okkur,braggabúarnir kalla sko ekki allt ömmu sína svo að við segjum NEI við gubbum. En þetta var skrautlegt borðhald með blendnum tilfinningum.

Tökum næsta grill hér í mölinni...fljótlega!!!

Svava Björk (IP-tala skráð) 6.5.2012 kl. 22:08

5 identicon

Til hamingju með brúðkaupsafmælið um daginn, stórglæsileg með drykkinn :)

Ég á nú eftir að sakna gömlu síðunnar...en ætli þessi venjist ekki ;)

Rannveig Iðunn (IP-tala skráð) 7.5.2012 kl. 00:38

6 identicon

Alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt sys! Knús og kossar frá Barcelona. Lúlla.

Jóna Lovisa (IP-tala skráð) 7.5.2012 kl. 16:35

7 Smámynd: Sveinbjörg M.

Velkomin í hópinn mín kæra

Kv. Sveinbjörg

Sveinbjörg M., 8.5.2012 kl. 21:31

8 identicon

Frábært blogg, og bara fínt að skipta um svæði. Hef grun um að myndasýslan sé léttari hér en á blogcentral, hún er það allavega á wordpress kerfinu.

Ingibjörg (IP-tala skráð) 19.5.2012 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband