Upp og niður, niður og upp

Það er nú aldeilis margt búið að ganga á síðan síðast. Sumt af því verður ekki tíundað hér á laufléttri bloggsíðunni, en allt er gott sem endar vel. Ég hef hugsað mikið um það síðustu daga, eins og reyndar oft áður, hversu mikilvæg heilsan er. Að mínu mati hlýtur hún að tróna efst á toppi forsendulista hamingjunnar. Alvarleg veikindi eru ekki síður erfið fyrir aðstandendur sjúklingsins og marka eflaust djúp spor í sálu nánustu fjölskyldumeðlima fyrir lífstíð. Ég las reyndar grein um daginn sem skrifuð var frá sjónarhóli móður sem misst hafði unga dóttur sína. Greinin var skrifuð á mjög jákvæðum nótum um hvað lífið væri í raun dásamlegt, þrátt fyrir þessa hræðilegu reynslu sem fjölskyldan þurfti að ganga í gegnum. Ég hef aldrei getað séð fyrir mér að hægt sé yfirleitt að lifa, draga andann, eftir andlát barns. Tilhugsunin er yfirþyrmandi. En þetta verður fólk víst að gera. Falleg grein og vakti eflaust von í hjarta margra. Erfið lífsreynsla kennir fólki oft að meta betur það góða sem lífið hefur upp á að bjóða og að taka ekki öllu sem sjálfsögðum hlut.

IMG_5885[1]Mér varð ítrekað hugsað til foreldra langveikra barna þegar Kristrún litla fékk verstu gubbupest sem knúið hefur dyra í Álfatúni númer eitt. Ef maður sjálfur er búinn á því eftir þrjá sólarhringa, hvernig er líðanin þá hjá foreldrum barna sem eru haldin illvígum sjúkdómum og baráttan stendur í mánuði og ár? Það er erfitt að setja sig í þessi spor. Kiddú litla kría byrjaði að kasta upp aðfaranótt miðvikudags sl. Við erum nú alveg hætt að kippa okkur upp við gubbupest hérna á heimilinu, enda átti Kiddú góða syrpu bara fyrir hálfum mánuði síðan. Ónæmiskerfið virðist ekki vera upp á það besta og ef eitthvað er að ganga á leikskólanum færir hún okkur sýnishorn af því heim. Krílið var nánast í fanginu á okkur allan daginn og þegar líða fór á kvöldið varð alltaf styttra á milli uppkasta. Hún var líka með hita og niðurgang og var orðin ansi máttfarin þannig að okkur var ekki farið að lítast á blikuna. Ég var eiginlega dauðhrædd  um að þetta væri eitthvað annað og verra en bara gubbupest þannig að viðIMG_5899[1] fórum með hana í skyndi á læknavaktina. Hún kastaði upp í bílnum á leiðinni og svo á biðstofunni, þrátt fyrir að biðin væri ekki löng. Læknirinn skoðaði hana og úrskurðaði að Kristrún væri með þessa mjög svo slæmu pest sem væri að herja á börn núna. Við vorum mun rólegri eftir þessa skoðun og Kiddú var mjög ánægð með Gatorade drykkinn sinn sem hún fékk eftir heimsóknina, enda hafði hún aldrei áður fengið að bragða svona góðgæti á sinni löngu ævi. Eftir nokkur upp og niður skipti til viðbótar sofnaði hún værum blundi og foreldrarnir líka.

Daginn eftir voru uppköstin og niðurgangurinn ekki eins tíð, en hún var komin með tæplega fjörutíu stiga hita og mikla kviðverki. Vildi ekkert borða og Gatorade drykkurinn var kominn neðst á vinsældalistann. Dagurinn fór í að liggja við hliðina á henni og strjúka mallakútinn, mjóbakið og ennið til þess að lina sárustu verkina. Litla dúllan var komin í mók seinni partinn og náðum við litlu sem engu sambandi við hana. Hitalækkandi stílar höfðu engin áhrif og sá litli vökvi sem komst upp í hana skilaði sér ekki ofan í maga. Við hringdum niður á barnaspítala og vorum beðin um að koma með hana strax. Þar stóð til að gefa henni næringu í æð, en fyrst vildi læknirinn reyna að koma ofan í hana drykk með elektrólítum. Okkur til mikillar gleði fannst Kiddú hann bragðgóður og í tvo tíma lá hún á læknabekk og fékk 4 ml. af drykknum á 5 mínútna fresti. Við fengum svo að fara með hana heim rétt fyrir miðnætti og Kiddú svaf uppi í rúmi hjá mömmu sinni í fyrsta sinn í rúm tvö ár. Ég sprautaði upp í hana drykknum góða með reglulegu millibili, þangað til hún lokaði litla munninum sínum alveg og var búin að fá sig fullsadda.

IMG_5907[1]Við sváfum alveg þokkalega til hálf fimm, en þá vöknuðum við báðar við drunur úr næsta herbergi. Heimilisfaðirinn hafði verið sendur til þess að sofa í barnaherberginu svo að nægt pláss yrði fyrir litla sjúklinginn hjá mömmu. Ég fór inn til hans og sagði honum að hætta að hrjóta og fór svo aftur inn að sofa. Skömmu síðar kom hann inn í herbergið til okkar, fann á sig föt, fór aftur út úr herberginu og lokaði á eftir sér! Ég skildi ekkert í þessu háttarlagi en okkur mæðgunum tókst eftir nokkurt þóf að festa svefn og vöknuðum við vekjaraklukkuna á slaginu sjö. Þá var Kristrún alveg að drepast í maganum, gjörsamlega engdist sundur og saman og var enn með hita. Mér tókst að græja morgunmatinn fyrir Diddú og Böddey, nesti í skólatöskuna, tagl í hárið og lét svo táningnum eftir að koma millistykkinu í skólann. Sjúklingurinn fór kvalinn í rúmið en sofnaði fyrir rest og mamman með. Dásamlegur aukasvefn! Klukkan 11 vakti ég krílið og þá var hún heldur hressari og vildi fá eitthvað að borða. Hún innbyrti alveg einn fjórða af banana áður en hún fékk mikla kviðverki og niðurgang í kjölfarið. Elsku stelpan. Stúdentskvöldverður Helgu átti að vera um kvöldið og við vorum alveg á báðum áttum með hvort að við ættum að fresta honum til sunnudagskvölds eða láta til skarar skríða. Kristrún skiptist á að vera pínu hress og virkilega óhress en hitinn fór lækkandi og um kvöldið var hún orðin hitalaus. Við ákváðum að halda kvöldverðinn, en Helga stúdent er efni í aðra og glaðlegri færslu. Rétt fyrir kvöldmat fór ég að spyrja Hjört út í undarlegt háttarlag heimilisföður um nóttina. Hann sumsé hélt að ég hefði verið að vekja hann til þess að koma stelpunum í skólann (ég veit ekki hvernig honum datt það í hug - hann er Sleeping Beauty í þessari fjölskyldu og fær að halda þeim titli ævilangt....maður fer ekki illa með eldavélina sína...múahhahaaha). Hann fór því og klæddi sig, lokaði hurðinni hjá okkur, vakti Sigrúnu, græjaði morgunmat fyrir hana og leit svo á klukkuna: 04:44. ÚPS! Sigrún var send aftur inn í rúm og mundi svo nánast ekkert eftir þessari aukavakningu daginn eftir.

Kristrún var enn með magaverki þegar hún fór að sofa seint í gærkvöld, en átti samt góða spretti inn á milli í matarboðinu. Renndi sér meira að segja einu sinni í rennibrautinni! Hún sefur enn á sínu græna, sem er vonandi góðs viti.

Þó að þessi gubbupest hafi verið átakamikil og vakið mikinn ugg í brjóstum foreldranna, kom ýmislegt fyndið upp úr Kristrúnu þegar hún vaknaði upp úr mókinu af og til. Eftir eina gubbhrinuna sagði hún áhyggjufull: "Ég gleymdi að fara í fílarennibrautina!"  Tveimur tímum seinna vaknaði hún aftur og gubbaði. Áður en hún lagðist aftur í mók sagði hún: "Það má ekki stinga sér í þessa sundlaug!" Hugur hennar hefur greinilega verið hjá sundstöðum höfuðborgarinnar í meðvitundarleysinu.

Nú eru komnir tveir nýjir tengdasynir í fjölskylduna, en Kristrún er greinilega ekki að átta sig á tengslunum. Um daginn spurði ég hana hvað stóru systur hennar hétu. Hún taldi þær allar samviskusamlega upp: "Sigrún, Björg, Helga, Harpa og Rasmus." Rasmus er sko kærasti og tilvonandi barnsfaðir Hörpu þannig að ég spurði hana hvort að hún væri viss um að Rasmus væri stóra systir hennar. "Já. Hann var að kitla mig. Hann er mjög fyndinn." Þá vitum við það. Kristrún á fyndna, sænska stóru systur sem heitir Rasmus.

IMG_5942[1]Annað gullkorn kom frá henni rétt áður en veislan byrjaði í gær þegar hún sagðist eiga átta afa. Svo byrjaði hún að telja upp: "Eiríkur, Óli, Ásgeir...." sem var allt rétt hjá henni, en líka alveg upptalið. En hún var ekki hætt: "Hvað heitir hinn afinn? Ég man ekki hvað hann heitir! Jú, hann heitir Jón Grétar!" Elsku tveggja ára trítillinn hélt að nýji kærastinn hennar Helgu væri líka afi hennar. Mjög skiljanlegt þar sem að undanfarið hefur hún nánast bara umgengist afa sína og stóru systurnar. Ég þarf að kynna hana fyrir hugtakinu "kærasti"  við gott tækifæri.

En eins og ég sagði í upphafi: Allt er gott sem endar vel. Kristrún er enn sofandi þó að klukkan sé orðin tíu. Það er eflaust góðs viti og stelpan vaknar eldhress með mikla matarlyst, enda lítið búin að nærast í rúma þrjá sólarhringa. Eins og sést á síðustu myndinni er mikill merkisdagur í dag því að stórasta systirin, hún Helga okkar Rún, er að útskrifast sem stúdent! Kristrún fékk að prófa húfuna í gær og líkaði vel. En afrek Helgu krefjast sér færslu sem kemur á næstu dögum, vel myndskreytt og skemmtileg. Núna er Kristrún vöknuð og pabbi vindur sér beint í að skipta á kúkableyju. Það þýðir að enn er verið að skila rétti gærdagsins en ég vona að hún sé að hressast. Hvernig er annars hægt að fylla fimm koppa á dag þegar lítið sem ekkert fer ofan í magann? Er þetta svona sem detoxið virkar?

Nú þarf ég að reyna að huga að því að finna sokkabuxur með engu gati og einhverja kjóldruslu við svo að ég verði mér ekki til skammar á mínum eigin vinnustað. Útskrift í Borgó kl. 14:00 í dag! Til hamingju Helga mín!

Sóla glaða Grin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æji litla músin :( Gott að hún sé farin að hressast ! en HAAHAHAHAHA vá hvað ég grenjaði úr hlátri yfir systrunum og afa Jón Grétari !! :'D Hún er algjört gull :*

Hafið það alveg ofboðslega gott í dag ! ég er með í anda :) Lovjúúú <3

Harpa (IP-tala skráð) 19.5.2012 kl. 10:47

2 Smámynd: Sólrún Inga Ólafsdóttir

Lovjútúúú!

Sólrún Inga Ólafsdóttir, 19.5.2012 kl. 11:03

3 identicon

Mikið lagt á lítinn kropp,en hún er seig sú stutta ! Vonandi er gubbupestartímabilinu lokið þetta árið Sóla mín.

Pabbi (IP-tala skráð) 19.5.2012 kl. 14:03

4 identicon

Úff ferlegt að heyra en gott að hún er að jafna sig. Ég man enn eins og gerst hefði í gær þegar Jóhanna var svo aðframkomin af magapest að ég þurfti með hana á sjúkrahúsið á Akureyri þar sem hún fékk næringu í æð og við meira að segja gistum þar um nóttina. Hún þurfti svo að fara aftur til að fá "áfyllingu" eftir að við höfðum farið heim. Ekki skemmtileg reynsla og eins og þú segir vekur mann til umhugsunar um það hversu hræðilega erfitt það hlýtur að vera að eiga langveikt barn.

Ingibjörg (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband