Hjólrún þrautakóngur

Nú er "hjólað í vinnuna" hafið og hjólaumferðin aldrei meiri eftir stígum borgarinnar. Ég hef verið nokkuð iðin við að hjóla í vinnuna undanfarið, sérstaklega af því að ég get lítið hlaupið og vantar einhverja hælvæna brennslu í staðinn. Ásta hefur yfirumsjón með átakinu í Borgó eins og ávallt. Hún sendi öllum starfsmönnum skólans tölvupóst með með skemmtilegu tvisti sem vakti áhuga minn: 

"Við ætlum svo að hafa smáaukakeppni fyrir ykkur. Allir sem fara örlítinn aukarúnt komast í pott og fá verðlaun í lok átaksins. Þeir sem koma við á einhverjum af eftirfarandi stöðum fá punkt í kladdann (takið krúttulega mynd af ykkur á hjólinu eða göngunni og sendið mér, máli ykkar til sönnunar). Því fleiri staðir sem þið farið á, því meiri möguleikar á vinningi. Staðirnir eru: 1. Rauðavatn 2. Elliðaárdalur 3. Nauthólsvík 4. Höggmyndirnar rétt við Gufunes 5. Korpugolfvöllur 6. Geldinganes 7. Laugardalur 8. Skerjafjörður 9. Höfðabakki 10. Kópavogsdalur."

Svo mörg voru þau orð. Vinningur? Keppni? Áskorun? Hjólrún tekur auðvitað þátt. Ég ákvað því að slaufa áformum mínum um að hjóla að Esjunni og ganga upp og niður hana í dag. Í staðinn mundaði ég  i-phone-inn og myndaði ferðalagið á alla staðina sem Ásta nefndi hér á undan. Myndirnar eru alls ekki við hæfi barna eða viðkvæmra fullorðinna (ég er á þeim öllum).

Ég ákvað að taka þetta ekki alveg í sömu röð. Fyrst hjólaði ég úr Álfatúninu í Kópavogi niður í Kópavogsdal. Fannst rétt að hafa hús sem kennileiti á flestum myndum og varð Kópavogskirkja fyrir valinu: IMG_0365 

Það var mjög erfitt að hitta á fésið á sjálfri sér og svo húsið fyrir aftan, sérstaklega þegar ég sá illa á skjáinn í þokkabót. En það hafðist. Sólgleraugun fela vel maskaralaus augun og eru frábær vörn gegn vindi og flugum! 

Svo lá leiðin áfram inn dalinn og út eftir Kársnesinu, alveg niður að Nauthólsvík. Hér er ströndin í baksýn:

IMG_0368 

Þarna er ég einstaklega opinmynnt, sérlega áhugasöm um að ná bæði ströndinni og sjálfri mér á myndina.

 

Næsta stopp var Skerjafjörður. Ég hjólaði áfram meðfram sjávarsíðunni og hugsaði stíft um hvert helsta kennileiti Skerjafjarðar væri. Flugvöllurinn er kannski sjálfgefinn, en falleg uppgerð hús komu líka upp í hugann. Svo datt ég niður á það eina rétta:

IMG_0369 

Ég var mjög fegin að ná "Skerjaver" þarna í baksýn. Það sést reyndar aðeins of mikið af fésinu á mér í þetta sinn, en vonandi eru lesendur með sterkar taugar.

Eftir Skerjafjörðinn þurfti ég að komast í Laugardalinn. Ég var aðeins í vafa með hvernig best væri að komast þangað.  Eftir eitthvað dingl og hringl beygði ég inn á Snorrabrautina. Það reyndist vera alveg þrælsniðug ákvörðun því að þar rak ég augun í Blóðbankann. Gamalt samviskubit reif sig upp og ég ákvað að kíkja við og athuga hvort þeir vildu ekki tappa af mér smá blóði. Jú jú, alveg til í það, jafnvel þó að ég hefði gleymt veskinu heima og væri ekki með skilríki. Blóðsugan mælti reyndar ekki með löngum hjólatúr eftir blóðgjöf en mér tókst að sannfæra hana um að lítil átök fælust í túrnum, sem var alveg dagsatt. Eftir blóðgjöf fékk ég svo fullt að borða: Köku, rúgbrauð, djús og tvo kaffibolla. Jú, og einn bol en ég át hann ekki.

Ég puðaði mér í Laugardalinn og tók mynd af afgreiðslunni í Húsdýragarðinum:

IMG_0370 

Sko, gamla hafði vit á að brosa á þessari mynd!

 

Af þessum fornu slóðum lá leið mín á enn fornari slóðir. Elliðaárdalurinn var næstur og eftir smá umhugsun ákvað ég að mynda mig fyrir framan umdeilda starfsemi, a.m.k. í augum Vinstri grænna:

IMG_0371 

Topptennur utan um toppvettlinga fyrir utan Toppstöðina.

 

Næst þurfti ég að nálgast Rauðavatn á einhvern hátt. Ég hjólaði því upp Elliðaárdalinn (tók hálfan Poweradehring) og sikksakkaði í gegnum Árbæinn þar til Rauðavatn blasti við mér í allri sinni dýrð:

IMG_0371

 Nei nei, þetta er ekki Rauðavatn. Ég get hins vegar ekki eytt myndinni!?! Jæja, hér kemur rétta myndin:

IMG_0372 

Höllin í baksýn!

 

Ég fór svo eftir einhverjum hættulegum krókaleiðum upp á Höfðabakka. Þetta hús er nú algjört "landmark":

IMG_0373 

Skemmtilegur arkitektúr.

 

Leið mín lá upp í Grafarvog og listaverkin við Gufunes voru næsta viðfang:

IMG_0374 

Myndatakan hafði gengið vel fram að þessu, en við næsta stopp, rétt fyrir neðan, klikkaði eitthvað:

IMG_0379-1 

Eins og sést kom ég við á Geldinganesi. Þessi mynd gæti heitið "Geldingurinn í grasinu" (eftir Sólrúnu Salinger). Þessi mynd átti að vera með Geldinganesið og Esjuna í baksýn. Fail.

 

En ég hjólaði áfram með sjávarsíðunni, alveg hringinn í kringum Korpúlfsstaðavöll. Mér fannst samt flottara að taka mynd af Korpúlfsstöðum heldur en vellinum sjálfum:

IMG_0376 

Mér gekk svolítið illa að hitta á húsið og sjálfa mig í leiðinni en það hafðist.

 

Nú var ég búin með allar þrautirnar og loksins kominn tími til þess að fara í vinnuna:

IMG_0377 

Good old Borgó! Ég gerði nú ekki mikið í vinnunni sko. Fór bara á klósettið og snýtti mér! 

Svo var bara brunað heim, beint í bað. 49 kílómetrar lágu í valnum. Þú skráir þetta Ásta mín.

 Ef myndin af Geldinganesi verður ekki tekin gild, finnst mér að ég ætti að fá aukastig fyrir að koma við í Blóðbankanum. Hér er sönnunin:

IMG_0381 

Kunni ekki við að taka mynd á meðan verið væri að dæla. En ég heyrði á tal blóðbankafólks og komst að því að það vantar sárlega blóð, sérstaklega O mínus. Endilega drífa sig ef þið hafið tök á.

Það er gaman að hjóla í vinnuna.

Hjólrún Armstrong :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dúggadúgg.... :)

Erna (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 15:49

2 identicon

VÓ þú ert ekkert smá dugleg og það var mega gaman að fara í smá ''hjólatúr'' með þér :D

Harpa (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 15:55

3 identicon

Sólrún Aparass!  Þetta átti að dreifast yfir tvær vikur.  Hvað ætlarðu að gera afganginn af átakinu?  Þú ert ótrúleg!

Ásta (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 16:29

4 identicon

Þetta var eini tíminn til þess að standa í þessu þannig að hina dagana hjóla ég bara beint upp í skóla:)

Sóla (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 16:50

5 identicon

Svona á að gera þetta! Bara drífa þetta af, ekkert hangs ;)

Rannveig Iðunn (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 19:02

6 identicon

Nákvæmlega. Ekkert hangs!

Sóla (IP-tala skráð) 10.5.2012 kl. 19:42

7 identicon

Sóla það vantar dagsetningu og tíma á myndirnar... er viss um að þetta er tekið yfir vikutímabil...muhahahha

Kristrún (IP-tala skráð) 13.5.2012 kl. 16:40

8 identicon

Þetta er reyndar tekið yfir tveggja ára tímabil...en þú varst fyrst að fatta:)

Sóla (IP-tala skráð) 19.5.2012 kl. 08:46

9 identicon

Þú ert ótrúleg! Ég hefði aldrei þorað að hjóla svona langt eftir að gefa blóð!

Ingibjörg (IP-tala skráð) 19.5.2012 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband