Aprílrausið

Ég ætlaði víst ekkert að blogga fyrr en baðherbergið væri tilbúið, en í tilefni þess að það er aaaaaaaalveg að verða klárt ætla ég að koma með einhverjar stiklur frá páskum.

Í fljótu bragði virðist páskafríið hafa verið óvenju tíðindalaust, en þegar kíkt er á myndirnar rifjast ýmislegt upp. Þessi sæti gaur flaug til dæmis til Íslands fyrir páska og ætlar að skemmta okkur með sinni þægilegu nærveru til 15. apríl:

IMG_2813_zps5a0bb599

Hann er alveg ótrúlega gott og þægilegt barn. Vaknar smá ennþá á  nóttunni en brosir og hjalar daginn út og daginn inn. Draumur í dós, hann Jakob Ari okkar. Hann átti 7 mánaða afmæli 2. apríl og hélt upp á það með mjólk í pela og brokkóli í skál. Skál!

Kisi Jackson og Ásta Einstein áttu afmæli 1. apríl. Kisi varð 4ra ára og Ásta eitthvað örlítið eldri. Hér er hún klukkan 6 að morgni fyrir utan Egilshöllina, búin að bera út Fréttatímann, Moggann, Kópavogsblaðið og Búnaðarblaðið, hlaupa 10 kílómetra og skella köku í ofninn.

IMG_2818_zpsc9847791

Við tókum létt skokk fyrir utan á meðan við biðum eftir að manneskjan sem átti að opna World Class fyrir tabatasjúklingana mætti á staðinn. Hún svaf yfir sig og það er því henni að kenna að mér er mjög illt í ilinni ennþá - eftir 1-2ja kílómetra skokk. Lækning óskast. En Ásta er ólæknandi, sem betur fer! Takið eftir fína hlaupajakkanum sem stelpan fékk frá fínu enskudeildinni.

Í tilefni af páskunum þvoði Hjörtur bílinn minn:

IMG_2809_zps1d6bc126

Getraun dagsins: Hvar er þessi mynd tekin?

Allt var auðvitað vaðandi í súkkulaði á páskadag. Hér er ömurlega illa tekin mynd af minnstu grísunum í súkkulaðivímu:

IMG_2791_zps8f8ab67d

Jakob fékk reyndar bara súkkulaðimjólk...í gegnum mömmu sína.

En súkkulaðibrúna fólkið keypti ekki sjálft sín páskaegg, heldur vann það risastór egg í Íslandsmeistarkeppninni í fitness. Lúlla sys, Siddi bis og Irma glys urðu sem sagt öll Íslandsmeistarar í sínum flokkum - geri aðrir betur! Eftir stranga þjálfun og kórrétt matarræði uppskáru þau nákvæmlega eins og þau sáðu. Ég mátti til með að bjóða þeim í kolvetnaríkan "brunch" eftir mótið sem þau þáðu auðvitað með þökkum áður en þau brunuðu norður aftur. 

IMG_2777_zpsad345d7a

Frá vinstri: Örri kaldi, Irma svala, Helga cool, Siddi napri, Lúlla frostrós, pabbi hrím, Björg brunagaddur og Sigrún svellkalda. Úff, það er erfitt að byrja með einhver uppnefni og þurfa svo að halda sig við þemað!

Tengdamamma Hörpu, mágur og svilkona, að ógleymdum ektamanni, voru svo í dinner hjá okkur alveg þrisvar, en ég steingleymdi að taka mynd af þeim. Harpa sýndi þeim land og þjóð og mér skilst að þeim hafi bara litist stórvel á móðurland litla Jakobs Ara.

Stefnan hafði verið að fara oft á skíði, svona til þess að sanna að maður þurfi ekkert að vera á Akureyri um páskana til þess að stunda skíðaíþróttina. Við lentum í fínu veðri fyrir páska og buðum Halldóri Ásgeiri litla frænda með okkur. Sjö ára frændsystkinin voru að fíla sig alveg í botn í Bláfjöllum:

IMG_2750_zps841b8019

 

 

Úje!

Kristrún Eir kom líka mjög á óvart þegar hún steig í fyrsta sinn á skíði og bara lét eins og hún hefði gert þetta oft áður. Hjörtur setti hana í taum til þess að hún færi ekki of hratt og hélt auðvitað utan um hana í toglyftunni, en að öðru leyti sá hún um sig sjálf:

IMG_2743_zpsd91782dd

Born to ski!

Veðurspáin var mjög góð fyrir föstudaginn langa þannig að við vorum mætt snemma í Bláfjöll þann dag með nesti og nýja skó. Reyndar kom í ljós að skíðaskórnir hennar Bjargar voru orðnir of litlir á hana þannig að hún fékk mína lánaða. Ég ákvað að leigja á mig skó og fór aftast í mjög langa röð. Þar stóð ég í klukkutíma og hreyfðist áfram um tæpa 3 metra. Þá fór kona að reikna (og var snögg að því). Ég sá að með þessu áframhaldi væri ég ekki komin með skó fyrr en eftir 2 tíma og þyrfti svo að standa í röð aðra 2 tíma til þess að skila skónum. Svo var veðrið að versna, komið él og leiðindavindur, þannig að ég fór úr röðinni og upp í bíl að lesa bók á meðan Hjörtur og stelpurnar renndu sér áfram. Þau entust ekkert voðalega lengi þannig að það tók því víst ekki að bera sólaráburð á allt liðið! Ekki varð meira úr skíðaferðum því að Kristrún tók varð veik um blápáskana og því var að mestu leyti hangið inni, glápt á sjónvarp og lesið. Það er líka næs. Meganæs.

Lokafréttin er svo sú að við lékum í auglýsingu fyrir endurskinsmerki um páskana:

IMG_2710_zps8792c60d

 

Ekki fá ofbirtu í augun! Tyrkland og tan, við erum á leiðinni!

Åžimdilik hoÅŸçakalın

Þetta var "bless í bili" á tyrknesku. Við förum reyndar ekki fyrr en í  lok maí þannig að næsta blogg verður um fullklárað baðherbergi. Ó, en merkilegt. Sorrý, svona er líf mitt.

Have a good one!

GüneÅŸrune (Sólrún...á tyrknesku)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið eruð þið öll sæt og fín elsku fjölskylda :) Og kærar þakkir fyrir ótrúlega flottu og rausnarlegu gjafirnar, þið eruð frábær!

Ásta (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband