Stykkiz, Verzló og Kópoz

Núna eru "allir" að fara eitthvað í ferðalag á meðan ég og mín fjölskylda húkum eftir í túninum heima. Að vísu er ég eiginlega alveg dauðfegin og finnst gott að vera líka heima í fríinu og njóta þess sem að höfuðborgin hefur upp á að bjóða í góða veðrinu (og það er nú ekki lítið!). Núna er líka kominn tími til þess að fara að spá í kennsluna á ný og hef ég notað kvöldin til þess að huga að þeim málum. Dagarnir fara auðvitað í að skemmta sér með litlu grísunum. Um miðja næstu viku kíkir Kristrún aftur á leikskólann og þá ætlar Sóla hans Óla að hjóla upp í skóla að funda með samkennurum. Mig dreymdi týpískan "sumarfríið-er-að-verða-búið" draum fyrir skemmstu. Ég var nýbúin að fá stundatöfluna mína og sá, mér til mikillar skelfingar, að ég átti líka að kenna dönsku og EÐLISFRÆÐI. Ég samþykkti dönskuna með semingi en taldi enga von til þess að ég gæti klórað mig fram úr eðlisfræðinni. Ég æddi um skólann að reyna að redda þessu en kom alls staðar að lokuðum dyrum. Þvílíkt stress og kvíði! Eins gott að ég er ekki berdreymin.

Talandi um ber...við fórum æi bláberjamó rétt við Stykkiz og veiddum vel (ég mismælti mig í sífellu og sagði "komum að veiða ber" - gjörsamlega veiðisjúk!). Lítið af berjunum skilaði sér þó heim í hús en það var allt í lagi því að Hjörturinn fagri hafði fleira góðgæti í bakhöndinni: 

IMG_1442Endalaus huggulegheit á drengnum. Við erum heppnar, stelpurnar í heita pottinum!

Önnur stelpa á Skólastígnum datt líka í lukkupottinn og fékk sér smá smakk: 

IMG_1452

Dísa skvísa, fallegasta konan norðan Drápuhlíðar og þó víðar væri leitað!

Þetta blogg er greinilega tileinkað fallegu fólki:IMG_1459

Bjössi bró og Erna hró (og hló) kíktu í krækling hjá okkur eitt kvöldið, svona rétt fyrir setningu Ólympíuleikanna. Hver var annars setning Ólympíuleikanna? Veni, vidi, vici? Mér skilst að það sé ekki fínt lengur að kalla þennan herramannsmat krækling (ég sá það í bækling) þannig að ég ætla að leiðrétta mig hér og nú og segja að bró og hró hafi borðað hjá okkur bláskel, sem rímar einmitt við hnjáskel.

Stuttu síðar bættist enn í hóp fallega fólksins á Skólastígnum, þegar Geir kite og Sissa sæt(a) mættu á túnkantinn með grísina sína þrjá. Úr þessu varð ein hin fallegasta krakkasúpa sem flotið hefur í heita pottinum:

IMG_1465

Kristrún, Erna, Óli, Sigrún, Helgi, Gunnhildur og Heiðrún, ofurkrútt öllsömul!

Fallega fólkið leit við í Pakkhúsinu aðfaranótt sunnudags þannig að það má alveg segja að djammstuðullinn hafi hækkað alveg svakalega þetta sumarið (klukkutímadjamm í Flatey og klukkutímadjamm í Stykkishólmi). Herregud! Rea!

Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir í Kópoz á ný hefur leið okkar stelpnanna legið í allar áttir. "Stelpurnar" eru yfirleitt ég og hinar Rúnurnar (Kristrún og Sigrún) því að Björg er búin að vera upptekin við að sinna vanræktu vinunum. Hjörtur situr við tölvuna alla daga og selur fisk en sem betur fer er alltaf hægt að treysta á flottasta járnsmið Íslands, sjálfan Ólaf Geir senior. Við hjóluðum í Nauthólsvíkina í góða veðrinu í fyrradag og sleiktum ísinn og sólina: 

IMG_1508

Pabbi er greinilega orðinn tanaður í drasl eftir að hann hætti að vinna. Hann afþakkaði meira að segja ferð í Húsdýragarðinn í gær því að skallinn var orðinn rauðglóandi og þurfti sína hvíld. Þess í stað hjólaði hann með okkur upp í Árbæjarlaug í dag, hvar við nutum þess að fáir voru í sundi, bæði vegna sólarleysis og þeirrar skemmtilegu staðreyndar að margir eru farnir eða á leiðinni í ferðalag. Á leiðinni upp í laug stoppuðum við hjá kanínunum í Elliðaárdal og fóðruðum þær og flennistórar gæsir á Bónus brauði. Svo fórum við upp að stíflu og gáfum öndunum og löxunum þar. Mig langaði mikið til þess að gerast veiðiþjófur þegar ég fylgdist með löxunum stela brauði frá öndunum. Það eina sem þarf er smá girni, öngull og brauðmoli og...búið að redda kvöldmatnum! En auðvitað harðbannað.

Ég elska þessa góðu daga sem bjóða upp á ný og gömul ævintýri. Hjóla í Elliðaárdalinn og skoða dýrin og vaða í ánni, hjóla í Húsdýragarðinn (sem klikkar aldrei), fara í sund, finna nýjan róló, hjóla í Perluna og fá sér ís, hjóla jafnvel í miðbæinn... Skyldi maður verða leiður á því til lengdar að vera til? Nei, það held ég bara ekki. Frelsið er yndislegt. Hér er mín yngsta, ánægð í sjónum í Nauthólsvík:

IMG_1504

 

Hér er svo mín næstyngsta, synd sem selur í sjó:IMG_1498

Alltaf með sundgleraugun á nefinu!

Framundan eru góðir dagar í höfuðborginni við leik og störf. Kannski maður kíki í Westurbæinn eða Dalinn og sníki kaffi, nema að Hjörtur bjóði okkur í bíltúr út fyrir bæinn? Ég sé að hann er með lambafilé í ísskápnum. Það er spurning hvenær það fer á grillið? Verst að geta ekki hlaupið af sér spikið. Það hlýtur þó að koma allt með kalda vatninu. Ég vildi óska þess að tabatatímarnir væru oftar en bara tvisvar í viku. Þá væri ég nánast orðin jafn vöðvastælt og hún systir mín (djók). Smá auglýsing í lokin: Vonast til þess að sjá alla sem vetttlingi geta valdið í tabata í Laugum kl. 10:30 á þriðjudögum og fimmtudögum. Byrjendur munu ekki geta valdið vettlingi eftir fyrsta tímann. Svo lagast það.

Njótið Verzlunarmannahelgarinnar í botn en gangið hægt um gleðinnar dyr.

 Zola verzlunaróða :) 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

:)

Rannveig Iðunn (IP-tala skráð) 4.8.2012 kl. 13:06

2 identicon

Takk kærlega fyrir okkur og skál fyrir rauðglóandi skallandi e-ð Geirum. Þetta var algjör snilld.... Algjörlega tímabær heimsókn og frábær dvöl. Takk takk, kveðja, Geir og Co.

Geir Kite (IP-tala skráð) 5.8.2012 kl. 02:29

3 identicon

Herregud ! gaman hjá ykkur ! :)

Harpa (IP-tala skráð) 5.8.2012 kl. 10:44

4 identicon

Bláskel hljómar líka miklu meira girnó heldur en kræklingur ! Ég held að eina ástæðan fyrir því að ég beið svona lengi með að smakka krækling, var útaf því að hann heitir kræklingur..

Harpa (IP-tala skráð) 5.8.2012 kl. 10:48

5 identicon

Hélstu að þú yrðir kræklóttur sjúklingur?

Sóla (IP-tala skráð) 5.8.2012 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband