Túristar í Tyrklandi

Mætt á svæðið eftir langt og strangt ferðalag! Við gistum í Kaupmannahöfn í eina nótt og svo ætluðum við að vera mætt til Tyrklands seinni partinn daginn eftir. Það klikkaði eitthvað því að vélinni til Istanbul seinkaði töluvert og þar af leiðandi misstum við af vélinni til Dalaman. Þolinmóða fjölskyldan þraukaði á flugvellinum í Istanbul í átta tíma og fékk svo vél rétt eftir miðnætti. Á flugvellinum í Dalaman kom í ljós að taskan hans Rasmus hafði orðið eftir í Istanbul, þannig að við töfðumst heilmikið út af því. Við tók svo klukkutíma ferðalag með bíl til Akyaka um miðja nótt og þá fyrst duttu börnin út af (líka Björg Steinunn). Það var mjög fallegt að horfa á landslagið út um bílrúðuna um miðja nótt. Fullur máni og skógi vaxin fjöll. Svo komumst við loksins í hús, örþreytt. Húsið leit miklu betur út en ég þorði að vona, mun rýmra og bara miklu stærra en á myndunum. Hér er það frá einu sjónarhorni:

 DSC_0033_zps93297d8f

Við reyndar rétt náðum að skanna svæðið áður en rafmagnið fór af öllum bænum! Sem betur fer fundum við eitt kerti og gátum þreifað okkur áfram í gegnum húsið. Svo kom rafmagnið á aftur hálftíma seinna og þá gátu allir farið í háttinn. Á þeim tíma var reyndar orðið stutt í sólarupprás og ég var rétt að festa svefn þegar bænakall múslima byrjaði í hátalarakerfinu í bænum. Þar sem ég hef bara heyrt svona gaul sem forleik að ægilegum skothríðum í Hollywood myndum (þar sem aumingja múslimarnir eru alltaf ljóti kallinn...ekki bænakallinn þó), þá rann mér kalt vatn á milli skins og hörunds. Ég glaðvaknaði því og náði ekki að festa svefn fyrr en sólin var farin að skína glatt inn um glataðar gardínurnar. Birta og engar sængur, bara örþunn lök. Smá breyting en þetta reddaðist svo allt næstu nótt og nú er ég orðin alvön því að Allah sé lofaður klukkan fimm á morgnana. Þetta er samt líklega eini gallinn sem ég sé á því að múslimar byggi mosku í Reykjavík, þ.e. hávaðinn á morgnana/nóttunni. Nú er búið að leyfa hænsnahald í Reykjavík, en án hana, einfaldlega vegna þess að ekki má raska svefnfriði borgarbúa. En áfram með ferðasöguna...

Daginn eftir var náttúrulega yndislegt veður og allt leit svo vel út, nema reyndar flugan í stofunni. Hún var á stærð við þumalfingurinn á pabba, en þeir sem hann þekkja vita að hann er æði fingralangur. Hjörtur hetja skellti yfir hana glasi og færði hana út í frelsið. Hér er dúllan:

IMG_8288_zps292f13f5

Þetta er algjörlega sauðmeinlaust kríli, en við köllum þessa flugu alltaf "óperuflugu" núna af því að Harpa syngur heilu aríurnar þegar flugan flýgur yfir sólbaðssvæðið. Dýralífið hér er skemmtilega frábrugðið því sem að við eigum að venjast heima. Oft spyrjum við: "Var þetta fugl eða fluga?" þegar einhver kvikindi fljúga yfir og erum í alvörunni ekki viss. Kristrún litla var búin að rífast mikið yfir því að fiðrildi væru ekki til í alvörunni (ekki frekar en Dóra og Klossi), en var "pleasantly surprised" þegar hún sá þau fyrst í runnunum, gul og rauð og blá. Hún er búin að vera með krúttlega maura sem gæludýr (skírði einn Dúllu og annan Núma) og svo þykir henni mjög vænt um drekaflugurnar sem hafa gert sig heimakomnar. Björg Steinunn fann loksins eðlu og Harpa og co. fundu skjaldböku þegar þau voru að skutla Hirti í mardrekaflugið.

Anyways, fyrsti dagurinn fór í að skanna svæðið aðeins. Við löbbuðum niður að strönd, sem á víst að vera 10 mínútna labb en tekur að minnsta kosti hálftíma þegar sú stuttfætta er með. Sem betur fer er afi "gamli" oft tilbúinn að skella henni á háhest:

DSC_0066_zps99b2bafd

Eins og sést fer faðir minn létt með þetta, enda ofurmassaður og stundar upphífingar að minnsta kosti tuttugu sinnum á dag. Geri aðrir betur.

Við erum búin að fara þrisvar á einkaströndina okkar og stelpurnar hafa haft mjög gaman af. Ég kalla þetta einkaströnd af því að það er aldrei neinn þarna nema við. Við fundum reyndar aðra strönd í dag sem er aðeins túristalegri og ætlum að prófa hana næst. En okkar strönd er fín. Hér eru litlurnar mínar, ægilega ánægðar með ströndina sína:

DSC_0101_zpsa1d175ad

Sigrún er í síðerma bol þarna af því að hún brann smá fyrsta daginn. Þessar stelpur eru bleiknefjar miklir eins og hálf föðurættin og því dugar ekkert minna en sólarvörn með 50 stuðli. Brökin er hins vegar ekki af bleiknefjakyni og þolir því aðeins meiri sól. Hún og við öll erum líka alveg að fíla sundlaugina sem fylgir húsinu: 

 IMG_8336_zps0a53c5d9

Fullkomin slökun hjá unglingnum! Hmmm...á meðan allir vinir hennar eru í vorprófum!

Já, ungir jafnt sem aldnir eru að fíla sig í þessu notalega loftslagi. Frekar heitt en alltaf vindur þannig að öllum líður vel. Hér er hann Jakob okkar að sulla í sundlauginni með mömmu sinni:

IMG_8305_zps2ac91058Svo sæt bæði tvö! 

Þessir fyrstu dagar hafa aðallega farið í að átta sig á umhverfinu. Þetta er sem sagt lítill bær, ekki mikið stærri en Stykkishólmur, en íbúafjöldinn margfaldast á sumrin þegar ferðamennirnir mæta á svæðið. Jú, minnir mjög á Hólminn minn fagra. Ferðamannatímabilið er bara ekki byrjað þannig að hér er frekar rólegt og notalegt. Þessi staður er þekktur fyrir "innlögnina" (svo ég tali nú eins og Flateyringurinn sem ég er), þ.e. vindinn sem kemur hér yfir daginn og blæs "kitesurfing" sjúklingum byr í væng. Þannig að þegar Hjörtur er ekki að vinna í tölvunni svífur hann seglum þöndum eftir volgum sænum, alsæll á svip. Það er ekki að sjá að þessi hrausti og glæsilegi eiginmaður minn sé að verða fimmtugur. En þetta er hans afmælisgjöf: Að láta dreka draga sig um allan sjó í þrjár vikur. Mastercard er fyrir allt annað. Held reyndar að American Express kortið hljóti að vera sjóðheitt núna. Það er ekkert rosalega ódýrt að lifa í útlöndum á meðan krónan er svona heima. En við reynum oftast nær að elda heima.

Well well, það rennur mjög falleg og ísköld á í gegnum þorpið. Hún er full af fiski sem ég má víst ekki veiða, en ég er búin að kaupa veiðigræjur til þess að nota í sjónum næstu daga. Kristrún er alveg sjúk í að veiða alla fiskana sem hún sér í ánni og elda þá heima. Ætli það þurfi ekki að bíða þangað til við förum í Hólminn okkar fagra? En falleg er áin og fuglarnir sem þar synda:

DSC_0128_zpscd78afda

Þessa póstkortamynd tók faðir minn í gær þegar við fórum með stelpurnar að vaða í ánni og búa til litla seglbáta úr pappa og fjöðrum sem við létum sigla niður ána. Hann er flottur myndasmiður og ég verð því að láta fljóta með eina rómantíska mynd af goðsögninni:

IMG_8345_zpsae46c69f

Alveg bjútífúl! En nú heyri ég ekkert nema hrotur í kringum mig því að í Tyrklandi er klukkan að fara að nálgast miðnætti. Vonandi bætast ekki fleiri moskítóbit við í nótt. Ég er reyndar bara komin með þrjú, en sum þeirra eru stór...eins og "fóstur" sagði Harpa. Við bíðum bara eftir því að eitthvað kvikt og komi skríðandi út úr graftarkýlunum á næstunni. Harpa er samt að toppa mig því að hún er komin með heil sex bit á sinn litla kropp! Ég held áfram að smyrja á mig eitrinu ógurlega og fæli þar með frá mér flestar moskítoflugur og eiginmanninn sjálfan. Við fórum út að borða í kvöld alveg við ána og ég er dauðhrædd um að það eigi eftir að draga dilk á eftir sér. Stay tuned!

Fleiri fréttir og myndir af fjölskyldumeðlimum (já já, það vantar Helgu, Hjört og Rasmus) koma von bráðar.

Venlig hilsen

Sóla kalkúnn (turkey) Grin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að vita af ykkur í góðu yfirlæti. Bestu kveðjur til allra og njótið dvalarinnar ;o)  Kv. Kristbjörg

Kristbjörg Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 28.5.2013 kl. 21:07

2 identicon

Yndisleg saga og frábærar myndir. Mikið væri ég til í að vera með ykkur þarna :)

Ásta (IP-tala skráð) 30.5.2013 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband