Ó MÆ það er kominn MAÍ!

Næstum miður maí og það er miður. Tíminn líður allt of hratt. En samt ekki. Margt að hlakka til og fátt að kvíða, alla vega í bili. Ég var skráð í aðgerð á il þann 8. maí sl. og hafði sú dagsetning hvílt á mér sem mara. Ég hafði lesið mér meira til um aðgerðina og komist að því að ég væri varla að fara að rölta mikið um eða sulla í söltum sjó fljótlega eftir þessi inngrip. Tyrklandsferðin (aka fimmtugsafmælisfjölskylduföðursferðin) sem við höfðum safnað fyrir í nokkur ár, var orðin að stórri hindrun í stað þess að vera tilhlökkunarefni. Læknirinn hafði ætlað sér að hafa samband við mig fyrir aðgerðina til þess að athuga hvort ég ætlaði ekki örugglega að láta vaða, en þegar ég hafði ekkert heyrt frá honum síðasta mánudag gerði ég boð til hans um að hringja í gömlu og höltu. Þegar kvölda tók hringdi hann loksins (brjálað að gera hjá aumingja kallinum greinilega) og var hann þá alveg á því að ég ætti að fresta aðgerð ef ég ætlaði á annað borð að fara í þessa Tyrklandsferð. Ættmóðirin mikla hefur því ákveðið að vera stórskorin en óskorin um óákveðinn tíma svo hægt sé að skakklappast á eftir 9 mánaða, 3ja ára, 7 ára, 14 ára, 21 árs og 25 ára börnunum um allar tyrkneskar trissur. Það er í rauninni voðalega erfitt að finna tíma til þess að vera óvirk. Á sumrin þarf að sinna litlu börnunum (mínum), á veturna þarf að sinna stóru börnunum (nemendunum). Annars var ég bara að vona að mér batnaði í sólinni og sjónum í Tyrklandi og þyrfti ekki á neinu svona veseni að halda. Kraftaverkin gerast enn!

Talandi um kraftaverk, þá héldum við Hjörtur upp á 9 ára vera-saman-afmæli 30. apríl sl. Woah! Ég held að þetta sé heimsmet. Minn ástkæri bauð mér út að borða á MAR, sem er nýr staður við höfnina. Hinn þokkalegasti matur en eitthvað þarf að slípa þjónustuna til. Hér er eftirrétturinn:

IMG_2949_zps93d1d65f

Gamla settið fer náttúrulega bara einu sinni út að borða saman á ári þannig að það bara verður að blogga um það!

 

Heilmikill tími hefur farið í litla krílið síðasta mánuðinn eða svo. Það kemur reyndar ekki til af góðu. Hún er búin að vera þrisvar sinnum veik í lengri tíma, með stuttu millibili. Sem betur fer gat ég verið mikið með henni núna í maí þegar hún var veik í viku, en þetta varð frekar erfitt á tímabili þegar verið var að pússa og sparsla á aðalhæðinni og meira að segja búið að plasta yfir eldhúsið. Þegar ekki er hægt að drekkja sorgum sínum með mat eru mér allar bjargir bannaðar. Nema Björg, auðvitað. Hana dreg ég bara í bú ef svo ber undir. Það var alveg svona fínt á neðri hæðinni:

IMG_2969_zpsa7a1e404

 

 

Ég húkti því heilmikið á efri hæðinni og reyndi að vinna eitthvað í tölvunni á meðan kjúklingurinn horfði á Dóru landkönnuð. Bananar, hnetur, súkkulaðitré! Þegar krúttlan var orðin næstum því hitalaus (en alls ekki hóstalaus) fékk hún að fara með mömmu í vinnuna og kíkja á fund og smakka á eftirréttum úr mötuneytinu. Það þótti henni gaman!

IMG_2966_zpsf5d1d7f4

DELICIOUS...(eins og Dóra og vinir hefðu orðað það).

En nú eru allir hressir og svei mér þá ef að kvefið er ekki líka að losna úr undirritaðri! Svona gamalt fólk eins og ég er auðvitað löngu hætt að fá hita, en lufsast í gegnum dagana með kvefpest og reynir að halda haus. Stefnan er sett á að hjóla í vinnuna daglega og reyna að mæta í tabata eins oft og líkaminn leyfir. Jú...og láta sig dreyma um að geta hlaupið aftur einn daginn :).

Hvað er annars að frétta af öllum hinum Daltúnunum? Hjörtur er alltaf á kafi í vinnu, en sér fram á rólegri daga í sumar eins og ávallt. Þó ekki eins rólega og hann er vanur. Hann verður að vinna fyrir Tyrklandsferðinni í Tyrklandi. Sá eini sem verður að vinna og samt er ferðin til heiðurs honum. Pínu kaldhæðnislegt. Við gefum honum kannski klukkutíma pásu á afmælisdaginn. Hana getur hann notað til þess að grilla eitthvað gott ofan í mannskapinn (múahahaha). Helga Rún er á fullu í prófum í HR. Stærðfræði og efnafræði. Búin með tvö, two to go. Held að hún sé að rúlla þessu upp, stelpan. Harpa nýtur veðurblíðunnar í Stokkhólmi með Jakob og Rasmus. Það verður lítið sjokk fyrir þau að fara í hlýrra loftslag í Tyrklandi. Mikið sjokk fyrir okkur hin, kannski. Brökin er bara hress, voða ánægð með sína vini og lífið almennt. Hún getur ekki verið með okkur úti allan tímann af því að hún er að fara til Þýzkalands með skólahljómsveitinni. Aumingja stelpan. First world problems...  Diddú er líka ánægð með lífið. Situr löngum stundum og spilar "Ég á líf" og fleiri góða smelli á blokkflautuna (góður undirbúningur fyrir Skólahljómsveit Kópavogs) og fékk svo tvo góða vini í næturheimsókn í fyrrinótt: Stefaníu og Aðalstein. Kiddú fékk líka að vera með í partýinu og njóta þess að vera litla krúttið. Hún er svo heppin með að vinir Sigrúnar eru dæmalaust barngóðir og vilja alltaf vera að knúsa og kjassa litlu systur og leyfa henni að vera með í leikjunum. Þær eru nú líka oft ágætar saman, litlu systurnar:

IMG_2983_zpsbff11086

Þessi mynd var tekin í fimleikatíma hjá Kristrúnu síðasta sunnudag. Sigrún nýtur þess að taka þátt og miðla af sinni reynslu. Svo góðar systur (oftast...).

 

Kristrún er sem sagt alveg búin að ná sér af öllum sínum pestum núna og ég yrði því mjög hissa (og vonsvikin) ef hún fengi eina í viðbót á næstunni. Þetta er komið gott. Þessi mynd var tekin síðasta mánudag, í tilefni þess að hún var að fara í leikskólann í fyrsta sinn í heila viku:

IMG_2994_zpsfae600be

 

Svo sæt og glöð með nýju regnhlífina sína. Ef vel er að gáð speglast gleði móðurinnar í augum barnsins. Gleði yfir því að vera frjáls: Komast út úr húsi í stað þess að þreyja þorrann með veiku barni! Úps...nei ég meina gleði yfir því að barninu skyldi líða vel og geta aftur komist út á meðal fólks. Ég veit ekki af hverju ég varð svona sjálfmiðuð um stund.

Bæ maí...eða djók...blogga pottþétt aftur fljótlega.

 

Sóla sjúklega Halo


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband