Flutningar framundan!

Skjótt skipast veður í lofti! Í gærmorgun tróð elskulegur eiginmaður minn kauptilboði upp í andlitið á mér og sagði að ég fengi ekkert latté nema að ég skrifaði undir. Kona þarf sinn tvöfalda espresso í freyðandi gémjólk til þess að geta hjólað upp í skóla (svona er að vera dóttir hans Óla og hafa alltaf nærst á njóla) þannig að ég krassaði kennitölu og krotaði nafn mitt á viðeigandi staði. Hjörtur stakk í framhaldinu af austur á Djúpavog í hreindýraveiði og hringdi seint um kvöld til þess að óska mér til hamingju með að tilboðið hefði verið samþykkt! Ég veit sumsé að ég dansa ekki í Álfatúninu um næstu jól, nema auðvitað að eitthvað klikki (sem er ekkert víst að gerist). Hjörtur þykist eiga fyrir þessum tæplega 300 fermetrum og 3 hæðum af timbri og steypu, svo fremi að íbúðin okkar seljist einhvern tímann á næstunni. Höfuðverkurinn verður sem sagt ekki bara að flytja, heldur líka að hreinsa til í okkar íbúð og gera hana girnilega fyrir næsta kaupanda. Úffpúff...engin miskunn!

Svo skemmtilega vill til að þegar við Hjörtur ákváðum að flytja saman í Álfatún eitt þurfti ég að selja íbúðina mína í Seljalandi eitt. Núna erum við að festa kaup á Daltúni eitt...sem kostar eiginlega ekki neitt.  Tja...þetta síðasta er reyndar lygi. Áhættufælna vogin með rísandi sporðdreka og krabba í þriðja tungli væri alveg til í að hafa sitt sparifé inni á banka áfram, en svo er manni reyndar sagt að fasteignaviðskipti á þessum síðustu og verstu séu ekki endilega það heimskulegasta sem hægt er að gera. Fyrst og fremst er þó farið út í þessa vitleysu svo að vel fari um alla fjölskylduna. Sigrún þráir heitt að fá sitt eigið herbergi og hlusta á tónlist, lesa bækur og vera með vini inni að leika í friði fyrir litla dýrinu. Að vísu finnst Kristrúnu ekkert mikilvægara en það að sofna með Sigrúnu fyrir ofan sig í efri kojunni. En það eldist nú líklega af henni. Þær hafa haft gott af því að deila herberginu, en núna er kominn tími til þess að bjóða Sigrúnu upp á herbergi með skrifborði þar sem hægt er að læra í friði og spekt. Einn af helstu kostum þessa húss er svo sá að neðsta hæðin er aukaíbúð í útleigu sem er ein aðalforsenda þess að við höfum efni á að fara út í þessi stórkaup. Svo má nefna aðra kosti eins og þá að örstutt er í skólann, ekkert gras eða blómavesen á lóðinni, herbergi barnanna eru á efri hæðinni þannig að dótið verður (vonandi) ekki úti um alla stofu, o.s.frv... Það er líklega of seint að velta sér meira upp úr göllunum þannig að þeir verða ekki tíundaðir frekar hér. Það er ljóst að það þarf að taka eldhúsið alveg í nefið svo að það henti okkar ört stækkandi fjölskyldu (nei, ég er ekki ólétt...ég er bara að vísa í ömmubarnið mitt yndislega og alla framtíðartengdasynina og framtíðarbarnabörnin) en það fær kannski að bíða þangað til að Hjörtur hefur selt eilítið meiri fisk til úgglanda. Anyways, hérna er slotið:

 e585655_1A

Að sofa undir súð hefur alltaf verið minn draumur og nú ætlar hann loksins að rætast. Svo er bara að vona að Kisi Jackson verði ekki of ruglaður á þessum flutningum og haldi áfram að hoppa inn um stofugluggann á Álfatúni eitt og heimta rækjur og rjóma.

Þannig var nú það. Mig svíður í magann þegar ég hugsa um allt það sem framundan er. Kannski er það bara kallað verkkvíði.

Svo er nú það.

Sóla Dalton :)

PS Húsið var byggt af Hólmara. Það hlýtur að vera gæðastimpill!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

TIL HAMINGJU !! :D Er ennþá að venjast tilhugsuninni að ég kem ekkert í álfatúnið aftur !

Harpa (IP-tala skráð) 16.9.2012 kl. 09:42

2 identicon

Frábært!  Innilega til hamingju .....láttu mig vita ef þig vantar aðstoð við þrif, pökkun eða flutninga.....Þetta er bara hamingja ....gleði gleði ;o)

Knús í hús

Kristbjörg 

Kristbjörg Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 16.9.2012 kl. 11:29

3 identicon

Til hamingju! Puð og púl framundan en líka heilmikið pláss.

Guðrún (IP-tala skráð) 16.9.2012 kl. 15:02

4 identicon

Til hamingju með nýja heimilið! Klárlega besti tíminn núna til að kaupa húsnæði áður en fasteignaverð hækkar. Hvenær á svo að bjóða mér í kaffi?

Júlíana (IP-tala skráð) 16.9.2012 kl. 16:08

5 identicon

Ég er ekki sátt við að þið séuð að flytja frá mér en í ljósi þess að þetta er ekki nema 600 metrum fjær mér og þýðir væntanlega að þá er Hjörtur hættur með þessi plön að fara úr hverfinu og þið verðið því hjá mér til frambúðar, ætla ég mér að sætta mig við þessa niðurstöðu en mun jafnframt mæta í heimsókn í hvert skipti sem ég á erindi niður í skóla, Fagralund eða Snæland:)  Innilegar hamingjuóskir, ég hlakka til að hjálpa til við flutningana.

Ásta (IP-tala skráð) 16.9.2012 kl. 22:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband