Brúðkaup Tinnu og Marius

Öfföff...hvað maður er þreyttur eftir þessa brúðkaupshelgi! Samt var ég farin að sofa fyrir klukkan eitt báðar nætur, en svo þarf reyndar að taka inn í myndina að það var vaknað snemma báða morgna. Það er skemmst frá því að segja að allt gekk þetta ljómandi vel og Tinna og Marius eru núna gengin í heilagt hjónaband.

Samhristingurinn á Sjávarpakkhúsinu var fjörugur á föstudaginn. Siggi Björns trúbador (bróðir mömmu) og Bjössi bró tóku meðal annars lagið og gerðu það vel að vanda. 

Athöfnin í Stykkishólmskirkju var falleg og blátt áfram. Pabbi leiddi fallegu brúðina inn kirkjugólfið og Marius tók svo við henni við altarið. Þar beið hún stóra systir mín og snakkaði á norsku nánast allan tímann. Geri aðrir betur! Hér sést ættarsvipurinn greinilega, sposkur prestur og enn sposkari (norskari) brúður:

IMG_7116Sætar eru þær, systur mínar!

Eftir athöfnina voru brúðhjónin hreinlega grýtt með hrísgrjónum:

IMG_7132

Haglél?

 

Í lobbýinu var boðið upp á brennivín og hákarl, ásamt kampavíni og gosi. Kristrún smakkaði gos í fyrsta sinn (það má ekki líta af barninu í eina sekúndu!) og verður líklega goshólisti fyrir lífstíð. Maj'amma var bara í sprætinu enda þarf hún ekkert sterkara til þess að vera hressasta konan á staðnum. Hér erum við systurnar að knúsa ömmu:

IMG_7156

 Amma sín er best!

Nokkur afkvæmi okkar systranna stóðu sig með prýði í veislunni, alveg hreint til fyrirmyndar: 

IMG_7168

Irma "Massi" Lúlludóttir, Örvar "Bieber" Lúlluson og Björg "Básúna" Sóludóttir.

 

Litlu ungarnir mínir voru líka til fyrirmyndar, bæði í kirkjunni og í veislunni. Kristrún var greinilega mjög hrifin af brúðinni því að hún sagði eftir athöfnina: "Prinsessan talaði ekkert í kirkjunni. Hún sat bara og hlustaði." Hún hafði aldrei séð alvöru prinsessu áður þannig að við leyfðum henni að heilsa upp á hana í veislunni. Kristrún var algjörlega "starstruck" og er búin að tala mikið um þessa upplifun síðan: 

IMG_7179

Stóra prinsessan og litla prinsessan. Kristrún fékk að halda á brúðarvendinum í smástund og þótti það ekki leiðinlegt. Bleikur er sko uppáhaldsliturinn hennar. Tinna prinsessa ákvað að kasta ekki brúðarvendinum til ógiftra kvenna á svæðinu, heldur sendi hún Gumba vin okkar með hann til Flateyrar til þess að leggja á leiði mömmu okkar og Ingu ömmu, sem hvíla hlið við hlið. Alveg yndislegt.

Veislustjórnin gekk ágætlega hjá mér og Bjössa bró þó að við fyndum fyrir því að Norðmenn væru heldur formlegri en við Íslendingar þegar kemur að veislusiðum. Norðmenn halda ræður (helst margar) en Íslendingar fara oftast nær aðra leið ( =láta eins og vitleysingar). Við systkinin sungum frumsaminn texta á google translate norsku við lagið "La det swinge", Bjössi tók lagið með Óla Geir og vídeóið mitt um ævi Tinnu féll í góðan jarðveg. Maturinn var góður, brúðhjónin glöð og falleg og þessir kappar í stuði:

IMG_7189

Óli Geir Bjössason, Siggi Björns mömmubróðir og Magnús litli, sonur Sigga. Þeir feðgarnir eiga heima í Berlín þannig að við sjáum þá ekki mjög oft, ekki frekar en norsku prinsessuna hana Tinnu og hennar fögru familíu.

Frábært og jafnframt mjög dýrmætt að fá að eyða þessari helgi með móðurfjölskyldunni sem býr úti um allar trissur og hittist allt of sjaldan. Ég vil því þakka brúðhjónunum fyrir að fá þá snilldarhugmynd að gifta sig í Stykkishólmi, fegursta bæ Íslands og fæðingarbæ Tinnu (og Sólu...og mömmu).

Takk fyrir okkur, herra Marius og frú Tinna Kúld Husby!

 

Sóla Kúld :) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott blogg og flottar myndir að vanda Jólrún!

Bjössi bró (IP-tala skráð) 14.9.2012 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband