Handahófskenndur þvættingur - annar hluti

Fyrst að nemendur mínir í 3 hópum voru að fara að skrifa rökfærsluritgerð í tíma hjá mér á morgun sá ég fram á að ég yrði að eiga mér smá líf í kvöld. Næstu kvöld fara nefnilega í yfirferð. Ég ákvað að horfa á vinsæla mynd heima með honum Hirti mínum, en byrjaði fljótt að geispa þegar ég sá kalla með kúrekahatta plaffa niður mann og annan. Fór að fikta eitthvað við facebook á símanum sem leiddi mig svo út í það að fara yfir nokkrar stuttar nemendadagbækur á netinu. Að endingu ákvað ég að henda inn random rugli. Nota kvöldið vel!

Helst í fréttum er að Jakob Ari og mammans flugu til Stokkhólms í morgun eftir eins og hálfs mánaðar ánægjulega dvöl hér á landi. Sigrún fagnaði því mjög að fá að sofna ein í kvöld, enda langþreytt á mun hressari yngri systur sem er alltaf til í að spjalla örlítið fyrir svefninn. Kristrún fær nefnilega að blunda í hádeginu á meðan Sigrún þarf að þreyja Þorrann allan daginn, langt fram í Góu jafnvel. "Góa nótt" virkar ekki alltaf á Kristrúnu klukkan korter í átta pí-emm. Kristrún var líka mjög ánægð að endurheimta herbergið sitt bleika, en var örlítið efins um það að hún gæti sofið ein í herbergi. Bangsímon og félagar réðu ráðum sínum og ákváðu að veita henni ást og umhyggju. Ekki heyrðist frá henni múkk eftir að mamma hafði lesið fyrir hana sögu, beðið bænirnar og sungið "Leiddu mína litlu..." Gekk eins og í sögu.

Sprengidagur í dag, bolludagur í gær og öskudagur á morgun. Þetta eru aldeilis nýjar fréttir. Við vorum með smá bollukaffi á sunnudaginn sem tókst ljómandi vel. Ég lofa ekki að þetta sé komið til þess að vera, sem þýðir að ég er alveg til í að mæta í bollukaffi eitthvert annað næsta ár. Betra að vera ekki að skapa of margar hefðir sem binda fólk á klafa. Rjómabolluklafa. Múahahha. Annars reyndi ég að sannfæra Hjört um að hann þyrfti ekki að elda saltkjöt og baunir af því að allir snæddu þetta í skólunum sínum í hádeginu nema hann - af því að hann er ekki í skóla. Hann lét ekki sannfærast og töfraði fram túkallsmáltíð á nótæm. Pabbi arkaði yfir Fossvogsdalinn á tíu mínútum sléttum og úðaði í sig salpétri og meðððí. Það var óvenju fátt í kotinu þetta kvöld: Bara ég, Hjörtur, papa, Sigrún og Kristrún. Helga og Jón Grétar í mat í Sunny Kef, Harpa með Djeikob í snowy Stock og Björgin ráðagóða í skólabúðum á Laugum í Sælingsdal. Kisi stóð hljóðlátur við borðsendann og mændi á okkur borða með borða í hárinu. Ég friðaði hann með því að henda í hann restinni af fiskibollunum frá kvöldinu áður. A lá Hjörtur, bien sur. Á morgun ætlar stelpurnar að vera prinsessa og norn, sem þýðir að sú eldri er loksins vaxin upp úr prinsessublætinu. Jæja, og þó. Kannski orðin meðvituð um að það þykir ekki svalt að vera prinsessa á almannafæri þegar maður er sjö ára.

Heyrðu...já...pabbi fór að tala um einhvern snjóskúlptúr í Laugardalnum. Þá áttaði ég mig á því að skemmtilegi skaflinn sem stelpurnar og Halldór Ásgeir fundu eftir að okkur var hent út úr Húsdýragarðinum um síðustu helgi (ekki fyrir slæma hegðun...klukkan var bara orðin fimm) var líklega fyrrverandi listaverk. Mér finnst þessi skúlptúr reyndar mjög flottur líka:

IMG_2511_zpsf93f6ae3

 

Snillingarnir og frændsystkinin Halldór Ásgeir og Sigrún Björk elskuðu þennan óvænta skafl! Kristrún Eir er á bak við skaflinn að reyna að moka sig í gegn. Ótrúlegt hvað það er hægt að dunda sér lengi úti við þegar allir eru vel klæddir. Yfirleitt er það mamman sem gefst upp fyrst.

Nú er ég einmitt að gefast upp, orðin alveg kasúldin og grútsyfjuð (ég vann greinilega mikið í fiski í gamla daga). Ég gæti spjallað og fjallað um svo margt annað hérna, sem segir mér bara að ég þurfi að detta inn mun oftar. Styttra og oftar í einu. Lofa engu, að vísu.

Takk fyrir að lesa!

Sólrún Django LoL


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband