Der Blog ist nicht tot.

Nei, bloggið mitt er ekki dautt. Kannski í dauðateygjunum, þökk sé facebook og röð endalausra annarra afsakana. En ég vil halda lífinu í því sem lengst. Facebook tímalínan skilur eftir sig myndir, misgáfulega "statusa", slatta af "share" dóti, helling af brosköllum og enskuskotið móðurmál. Hér er oft meira kjöt á beinum og minna þarf að fylla inn í eyðurnar þegar fram líða stundir. Hér mæti ég með hugann fullan af hetjudraumum en hjartað lamað af sorg, eins og segir í laginu. 

Ég hef reyndar fátt fram að færa eins og er. Man bara líðandi stund og varla það. Tíminn líður svo hratt að það eru jól annan hvorn dag og páskar og áramót þess á milli. Reyndar er allt í einu komið sumar, gleðjist gumar, grillum humar. Starfsdagar á morgun og hinn, vorferð starfsfólksins og svo langþráð sumarfrí. Önnin var fín að frátöldu 3ja vikna verkfalli. Kosturinn við verkfallið var þó sá að töluverður hluti af sumarvinnunni er að baki, þ.e. námsbókagerðin. Þar með skapaðist ákveðið rými  og tími til þess að fara á endurmenntunarnámskeið í sumar. Enskudeildin ætlar öll að skella sér til Norwich (University of East Anglia) í ágúst. Ég er strax farin að sakna barnanna minna en þetta verða nú einungis sjö dagar af fróðleik og skemmtun.

Hvernig var annars helgin hjá mér? Fín, bara nokkuð annasöm. Við hjónakornin förum í bíó á fimm ára fresti og á föstudagskvöldið var það hin margrómaða Vonarstræti. Nei, ég fór ekki grátandi út úr bíó. Ég fór í bíóið með þann staðfasta ásetning að gráta ekki yfir myndinni. Það tókst hjá mér en ekki Hirti. Ég ætti kannski að gráta meira því að þyngslin fyrir brjóstinu leiddu alveg upp í vélinda og ég mátti vart mæla fyrir sviða í kokinu. Mér varð mikið hugsað til systur minnar alla myndina. Þeir sem til þekkja og hafa séð myndina vita eflaust hvað ég er að tala um. Ef þessi mynd fær ekki miklar viðurkenningar á alþjóðavísu verð ég illa svikin. 

Myndin sat enn í mér á laugardaginn en hluti af henni smaug út um svitaholurnar í sjóðheitum yoga salnum. Restin af deginum fór í að græja og gera fyrir matarboð handa Starhólmapakkinu, eins og Ásta og fjölskylda vill gjarnan kalla sig. Síams eru að fara í sína hvora áttina bráðlega og þá þarf að hafa formlega kveðjustund. Gott kvöld með góðu fólki.

Þetta laugardagskvöld var nú reyndar ekki lokakveðjustundin því að við hittumst í Húsdýragarðinum morguninn eftir með börnum og foreldrum af leikskólanum í hreint út sagt yndislegri rigningu. Eftir það prógram fórum við sem leið lá upp í Hvarfahverfið til Guðrúnar í mömmuklúbbinn góða sem stofnaður var árið 2005 af fjórum óléttum Borgókellingum. Já, hann lifir enn, rétt eins og bloggið mitt. Skemmtilegur félagsskapur skarpgreindra samstarfskvenna og afleggjara þeirra.

Svo var Ástan kvödd, kallinn kvaddur til og skundað upp í Mosfellsdal að knúsa Víðigerðistvíburana og þeirra fólk. Fleiri kökur, meira kaffi og notalegt spjall. Þau eru komin með yndislegan lítinn kettling (mig langar í fleiri kisur!) en ég fékk að kveðja krabbameinssjúka hundinn þeirra sem verður líklega sendur í Sumarlandið í vikunni. Það er ekki svo langt síðan ég kvaddi annan hund sem var mér svo kær. Endalausar kveðjustundir.

Svo er Björgin mín að kveðja grunnskólann. Ekki mun hún sitja fleiri kennslustundir í Snælandsskóla því að á morgun fer hún í 10. bekkjar ferðalagið (óvissuferðina miklu) og á fimmtudaginn fer hún til útlanda með fjölskyldunni. Hún er núna á fullu að baka fyrir ferðina og pakka niður. Á miðvikudagskvöldið verður svo útskrift frá skólahljómsveitinni. Vonandi er Björg samt ekki að syngja (blása) sitt síðasta þar.

Við hjónin erum sem sagt að fara með yngstu dæturnar þrjár og föður minn sjötugan til Dóminíkanska Lýðveldisins (stórt nafn fyrir lítið land) á fimmtudaginn n.k. Við fljúgum reyndar fyrst til New York og gistum þar eina nótt, en fljúgum svo þaðan til DL. Þar ætlar fjölskyldan að eiga tvær hlýjar vikur saman á meðan bossinn (aka Hjörtur) þeysist um hafflötinn með brimbretti undir iljum og mardreka yfir höfði sér. Ekki leiðinlegt. Á meðan ætlar Helga að passa húsið og kisurnar og Harpa klárar stúdentinn í Stokkhólmi. 

Við verðum auðvitað nettengd af því að Hjörtur á aldrei frí í vinnunni þannig að ég lofa að senda póstkort frá DL og lífga þar með örlítið upp á zolubloggið.

Stay tuned.

Zola Bloggmaster :)

 


Norge og páskar 2014

Ég er búin að hafa ágætis tíma núna undanfarið til þess að gera næstum ekki neitt (á minn upptekna mælikvarða) og þá sérstaklega í Noregsferðinni góðu um síðastliðna helgi. Ég hefði getað klárað þrjár til fjórar skáldsögur á þessum lausa tíma, en sem hinn dæmigerði nútímafangi alnetsins verður mér lítið úr verki. Fésbókin og frænkur hennar sjá um afþreyinguna, auk auðvitað fjölskyldu og vina. "Maður er manns gaman" segir máltækið og það eru orð að sönnu.
 
Það var gott að fara með systkinunum út og hitta frumburð Litlu-Túdd, sjálfa Kristínu horsku. Hún er með eindæmum rólegt ungabarn og þótti okkur öllum það stór stund þegar hún lét svo lítið að opna augun og gefa frá sér hljóð. Svona var mamma hennar og þótti alveg afskaplega stillt í samanburði við óþekktarangana sem á undan komu: Lúllu, Sólu og Bjössa. En það rættist nú bærilega úr okkur öllum, eins og sést á þessari mynd (vonandi):
blogg1_zpsfa0dc04c
Lúlla prestur, Tinna hjúkrunarfræðingur, Bjössi viðskiptafræðingur, Kristín forsætisráðherra og Sóla kennari: Góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar.
 
Þegar heim var komið á mánudeginum tók ég upp úr töskunum og setti í aðrar stærri í staðinn. Nú var stefnan sett á Akureyri daginn eftir í langa páskaferð með fjölskyldunni á meðan fitness presturinn og hennar fjölskylda dveldu í Daltúni með Gunna og Kisa. Keppnin gekk ljómandi vel: Siddi lenti í fyrsta sæti og Irma og Lúlla fengu báðar silfur í sínum flokkum. Það munaði víst bara einu stigi hjá báðum og ég giska á að þær hafi bara verið of massaðar fyrir módelfitnessið. Ég stakk upp á að þær myndu EKKERT lyfta fyrir næstu keppni og treysta bara á náttúrulegu genin og þær hafa lofað því að taka það til athugunar.
 
Skíðafríið okkar á Akureyri byrjaði ljómandi vel. Við skíðuðum í Hlíðarfjalli bæði á miðvikudag og fimmtudag, en svo kom rok og leiðindaveður á föstudaginn langa og allt lokað. Í gær var líka lokað og fattlausa ég áttaði mig ekki á því að rándýri skíðapassinn gilti líka á skíðasvæðunum í kring, þ.e. á Dalvík og Sigló, fyrr en Hjörtur var farinn út í buskann með allt draslið. Hann notar sko hverja stund sem gefst til þess að kite-a á snjónum. En í dag, páskadag, var fjallið aftur lokað þannig að við skruppum til Dalvíkur. Þar er ekkert töfrateppi fyrir Kristrúnu en ég ákvað í einhverju bjartsýniskasti að ég gæti bara hjálpað eða dregið Kristrúnu upp litla brekku þarna á svæðinu og leyft henni að renna niður. Greyið entist í einhverjar fjórar ferðir en var svo komin með leið á þessari vitleysu. Færið var mjög blautt og hinar stelpurnar ekkert rosalega stemmdar fyrir þessu ævintýri þannig að við ákváðum bara að fara heim eftir tæplega tvo tíma á svæðinu. Þá kom í ljós að búið var að opna Hlíðarfjall, reyndar með fyrirvara um að loka þyrfti lyftum í vindhviðum. Þá voru allir orðnir þreyttir (nema Hjörtur kite-ari) þannig að við erum bara heima núna í algjörri slökun að borða páskaegg og spila tölvuleiki. Helga er reyndar að læra fyrir próf í HR, en tekur sér facebook pásur inn á milli.
 
En þó að skíðaplönin hafi farið aðeins fyrir ofan garð og neðan er þetta búið að vera ágætis frí. Alltaf svo gaman saman. Ég er búin að fá mér latté á Eymundsson, Björg fann sér einhverja fatalarfa í tuskubúðunum, stelpurnar komust í jólahúsið, á leikfangasafnið og í sund og alltaf var eitthvað gott í gogginn í lok dags. Hér eru litlustu pitlustu í jólahúsinu:
blogg3_zpsfa81c62c
 
 
Ég hefði reyndar viljað fara í sund á hverjum degi en þar sem fóturinn minn er vafinn í eitthvað drasl (nýjasta tilraunin) má ég ekki fara í sund í 6 vikur. Því var Helga send með liðið á föstudaginn langa. Svo má ekki gleyma því að við Hjörtur fórum á tónleika með Mannakornum í gærkvöld. Við höfðum hvorug farið á Græna hattinn áður og tónleikarnir voru æðislegir. Ég rifjaði upp fyrir sjálfri mér og Hirti hvernig ég sat löngum stundum í ruggustólnum heima með heyrnartólin yfir eyrunum og stúderaði Mannakornsplöturnar hans pabba. Þar var vandað til verka: Heil opna með öllum textunum og myndum af hljómsveitarmeðlimum. Lengi býr að fyrstu gerð og ég hef verið aðdáandi númer eitt síðan. Svo skemmtilega vill til að Lúlla á ruggustól barnæsku minnar enn og mátti ég því til með að smella mynd af honum:
blogg4_zpse3edf130
 
Forláta ruggustóll þar sem ég hlustaði á Mannakorn og Harald í Skríplalandi til skiptis!
 
Ég var að kíkja á vefmyndavélina í Hlíðarfjalli rétt í þessu og sá þá að veðrið var ömurlegt! Þess vegna var kannski ekki svo vitlaust að anda að sér ferska loftinu á Dalvík fyrr um daginn. Hér er ein af brettastelpunum Helgu og Björgu (stórustu) á Dalvík:
 
blogg2_zpsfe92880f
 
Best að fara að kíkja í bók...fésbók?
 
Heimferð á morgun og kennsla á þriðjudag. Góðar stundir allir saman :)
 
Sóla páskahæna
  

Verkfallsbloggið

Ég ætti að hafa allan tímann í heiminum til þess að blogga núna þar sem ég er komin langleiðina með viku tvö í kennaraverkfalli. Það er samt búið að vera alveg nóg að gera hjá mér og tíminn hefur flogið hratt í átt að páskum. Ég er samt ekki frá því að lífið sé aðeins afslappaðra en þegar kennslan er á fullu, líklega vegna þess að ég vinn ekki á kvöldin þegar ég er í verkfalli. Það er lúxus sem ég gæti alveg vanist.

Hvernig hef ég svo varið þessu blessaða kennaraverkfalli? Markmið eitt var að þrífa eldhúsinnréttinguna að innan, henda og endurskipuleggja. Ég veit að ég hljóma eins og móðir mín, en eru það ekki örlög okkar allra? Þetta markmið náðist á tveim dögum með nokkrum aðhlynningarhléum, því að Kristrún krílulína var heima vegna kvefpestar og hita í síðustu viku. Síðan fundaði ég með kærum samstarfskonum um uppfærslu á námsbókum fyrir næsta vetur. Það sem eftir lifir verkfalls mun ég vera á kafi í námsefnisgerð (hef nú þegar lagt töluvert af mörkum) og hugsanlega eiga meira frí í sumar í staðinn. Það fer vanalega drjúgur hluti af sumrinu í þessa vinnu, þannig að fátt er svo með öllu illt.

Á þessari stundu vitum við hins vegar ekkert um það hversu langt verkfallið verður og hvenær nemendum og kennurum tekst að ljúka þessari önn. Ég sem var orðin svo bjartsýn um að það yrði ekkert verkfall! Ég vona að samningar náist sem allra, allra fyrst. Ég hef ekkert kíkt í verkfallsmiðstöðina, enda tíminn á milli 9 og 16 (engin-börn-heima-tíminn) fljótur að líða þegar heimilisstörf, líkamsrækt og námsefnisgerð eru á dagskrá. Að ég tali nú ekki um tíðar ferðir í ísskápinn og heimsóknir á facebook. Ég hitti Ástu ofur og Guðrúnu gáfuðu, verkfallsvinkonur mínar, nánast á hverjum degi (ræktin maður, ræktin) þannig að þörfinni fyrir félagsskap er fullnægt. Mér verður þó oft hugsað til nemenda minna og velti því fyrir mér hvað þeir eru að brasa. Eru þeir ekki örugglega að læra? Leiðist þeim? Hvernig líður útskriftarnemendum? Nemendur Borgó hafa verið duglegir að senda stórvel skrifaða pistla í fjölmiðla til stuðnings kennurum og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Ég ætla að skauta snyrtilega fram hjá dýpri umræðu um launamun og óréttlæti á þessum vettvangi. Mér finnst leitt að til verkfallsins kom, ég vona að málin leysist sem fyrst, en ég bíð þolinmóð eftir því að samninganefndin bjargi málunum...með haug af fyrirliggjandi verkefnum í tölvunni minni. Amen.

Yfir í aðra sálma. Ég talaði um myndavesen í síðasta bloggi og var nánast búin að ákveða að hafa bloggið myndalaust héðan í frá. En í gær hugkvæmdist mér að prófa að nota annan vafra og hviss búmm bang! Málið leyst. Því er ekki úr vegi að kíkja á nokkrar myndir úr albúminu. 

Við höfum ekki verið neitt afskaplega duglega að halda matarboð það sem af er þessu ári, þrátt fyrir fyrirheit um annað, en höfðum það af að bjóða Doktor Ingibjörgu og hennar fjölskyldu heim fyrir nokkrum vikum. Þau buðu okkur reyndar í mat en ég sneri hlutunum við þegar samviskan beit mig í afturendann því að við vorum faktískt í matarboðsskuld við þau. Boðið heppnaðist vel og mér tókst meðal annars að kveikja í puttunum á mér og brjóta í leiðinni forláta disk úr stellinu hans Hjartar. Ég á náttúrlega ekkert stell, enda Rúmfatalagersmanneskja fram í fingurgóma. Hjörtur bauð upp á bjórsmökkun og það dæmdist á Má, eiginmann Ingibjargar, að smakka allan lagerinn. Samt var þetta ekki lager bjór sko.

2014-03-09195027_zps146cc570

Eru þetta ekki krúttlegir menn? Hjörtur og Már vita allt upp á hár. Már og Hjörtur eru hvorugir með vörtur. Gat ekki valið á milli rím-myndatexta þannig að ég setti þá báða inn.

Einhvern tíma í fyrndinni, sem sagt fyrir verkfall, tók hún Sigrún mín þátt í sínu fyrsta blakmóti. Henni fannst það "ágætt." Er það ekki betra en "mjög gott"? 

2014-03-09134114_zpse71e9dbc

Hér er hún með vinum sínum, blakmeisturunum og HK-ingunum (f.v.) Isabellu, Elsu Lóu, Aðalsteini (Ástusyni) og...sjálfri sér. Já, þarna er hún alveg með sjálfri sér. Ég veit ekki nákvæmlega hvað þau eru að gera þarna, enda var ég ekki viðstödd. Kannski var ég með Kristrúnu í fimleikum? Svei mér þá, ég er svo fljót að gleyma. Blogga oftar, blogga oftar.

En ég man vel að Hjörtur fór til hennar Ameríku einhvern tímann fyrir verkfall (Anno Domini) og fórst það nokkuð vel úr hendi. Helga var honum til halds og trausts og þau skíðuðu, versluðu og sömdu um kaupverð á fiski. Mér skilst að kallinn sé aftur að fara til úgglanda eftir tæpan mánuð, en þá í týpíska "kite" ferð með vinum sínum. Þá verður hann mun lengur í burtu,  alveg fram í maí. Í millitíðinni verð ég samt búin að fara í helgarferð til Osló til að vera viðstödd skírn Kristínar Husby og svo ætlum við líka að vera viku á Akureyri í kringum páskana. Maður veit samt aldrei hvaða strik verkfallið setur í reikninginn. Den tid den sorg. En heyrðu...já...að gamni ætlaði ég að setja inn mynd af því sem við vorum að gera á meðan pabbi gamli vorum í útlöndum. Ég stóð mig eins og hetja í eldhúsinu og galdraði fram bráðholla rétti, en varð þó við heitri ósk unganna um að fara einu sinni á Supersub. Það er náttúrulega besti fjölskyldustaðurinn í bænum. Frábært boltaland og krakkarnir fá að búa til sínar eigin pizzur á kr 590 stykkið! Hér eru Diddú og Kiddú að græja matinn sinn:

mars1_zps893664a5

Mæli með Supersub á Nýbýlaveginum, sérstaklega þegar það er brjálað haglél úti og ekki séns að viðra börnin. Hamagangur í boltalandinu er ágætis hreyfing!

Núbb...síðasta helgi var ágæt líka. Aðalsteinn Ástuson gisti á föstudagskvöldið og skilaði sér ekki heim fyrr en rétt fyrir kvöldmat á laugardaginn. Veðrið á laugardeginum var alveg ágætt þannig að við kíktum niður í miðbæ í borg óttans. Diddú og Addú fundu þar fáka fráa og bárust á þeim um allan Grandagarð.

mars2_zpsc286f847

Annar staður sem ég verð að mæla með fyrir fjölskyldur um helgar er Sjóminjasafnið og Kaffihúsið Víkin (beint á móti ísbúðinni Valdísi). Þar er til dæmis hægt að fara í ratleik á safninu, fara á hlaðborð fyrir lítinn pening og leika sér á mjög skemmtilegum útiróló skammt frá. Eins og sést berlega er ég farin að selja auglýsingar hérna til þess að eiga í mig og á.

Sigrún átti stórleik í hlutverki bangsamömmu í Dýrunum í Hálsaskógi fyrir ekki svo löngu. Henni fannst svo ótrúlega gaman að æfa leikritið með bekkjarfélögum sínum og það var hrein unun að fylgjast með ferlinu. Hér er Sigrún bangsamamma með ungum aðdáanda eftir sýningu:

2014-03-18174032_zps828cef37

 Diddú og Kiddú, alltaf hressar!

Við vorum með stórt matarboð síðasta sunnudagskvöld og gerðum okkur upp það tilefni að Gunni Hjartarbróðir ætti afmæli. Þar var mætt öll fjölskylda Gunna en ekki sjálft afmælisbarnið. Svolítið spes, en kallinn á heima í Kína og getur ekki spanderað tvöföldum mánaðarlaunum í að fljúga heim til Íslands til þess að halda upp á afmælið sitt. Gunni á reyndar afmæli í dag og hér er afmælistertan: 

IMG_9083_zpsf66b0ef3

Til hamingju með afmælið!

 Hér glittir svo í flesta gestina, þ.e. foreldra Hjartar, systkini, maka og afkomendur (mömmumegin):

IMG_9054_zpsaf40d122

 Fullt af litlum grísum!

Vegna veisluhalda komst ég ekki á úrslitaathöfn Nótunnar 2014, sem haldin var í Eldborg. Ég mætti hins vegar fyrr um daginn og hlustaði og horfði á Björgu mína spila, ásamt hinum stelpunum í Brasssextett SK (hvað eru mörg s í því?). Það er skemmst frá því að segja að þær unnu sinn flokk og tóku við verðlaunum úr hendi hæstvirts menntamálaráðherra. Ég er auðvitað gífurlega stolt af þessum frábæru tónlistarmönnum og jafnframt þakklát fyrir að barnið mitt fái að vera hluti af þessu metnaðarfulla starfi sem að Skólahljómsveit Kópavogs býður upp á.

10152021_10202552837014163_1649559871_n_zps1043e296

Sextettinn sigursæli með Nótuverðlaun 2014. 

Svo er margt jákvætt búið að vera í gangi í Borgó (fyrir verkfall og svo pottþétt eftir verkfall líka). Gettu betur lið skólans komst í úrslit og stóð sig ótrúlega vel gagnvart þrælsterku liði MH. Þýskunemendur skólans rúlluðu upp forkeppni fyrir ólympíuleikana og röðuðu sér í efstu sætin. Glæsilegur árangur.

Að lokum vil ég nota tækifærið og hrósa henni Ástu minni, sem hefur rutt brautina í forvarnarmálum framhaldsskóla. Hún er á góðri leið með að breyta drykkjumenningu ungmenna í framhaldsskólum (Borgarholtsskóli er flaggskipið) og framlengja með því hið góða starf sem unnið hefur verið í forvarnarmálum í grunnskólum. ACTIONS SPEAK LOUDER THAN WORDS er hennar uppáhalds málsháttur. Þjóðarskútan kæmist örugglega aftur á kjölinn ef hún yrði kallinn í brúnni, þ.e. forsætisráðherra landsins. Hugur hennar stefnir víst ekki í þá áttina (ég skil hana vel!). Hér er mynd af henni sem tekin var í morgun í tabata í Kringlunni, ásamt fríðu föruneyti:

tabata_zps9453aebf

Kennarar í verkfalli (Ásta til vinstri, Guðrún til hægri) með ketilbjöllur fremst á mynd. Glöggir kannast kannski við dóttur mína þarna fyrir aftan. Svona er best að byrja daginn (kl. 6:10 á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum í WC, Kringlunni). Enn meiri auglýsingatekjur í kassann!

Bye for now (vá...næstum því búin að gleyma hvernig átti að skrifa þetta, enda búin að vera allt of lengi í verkfalli!).

Zoulroon verkfallna :) 

 


Marsering

Vó! Time flies like a sparrow with an arrow...eða eitthvað. Og ég sem hefði getað bloggað um svo margt í svo ótal mörgum orðum og endalausum færslum.

Febrúar var flottur mánuður og það sem stendur helst upp úr er afmæli pabba og fæðing Kristínar krúttsprengju.

Kristín verður skírð í höfuðið á henni móður minni sálugu þann 12. apríl n.k. af ekki minni spámanni en Séra Jónu Lovísu Jónsdóttur, systur minni. Í Noregi. Að mér og Bjössa viðstöddum. Akkuru? Af því að móðirin er engin önnur en uppeldissystir okkar, hún Tinna litla Túdd. Hún var mikið hjá okkur fyrstu árin og kallaði alltaf mömmu mömmu (Kiddý mömmu...en svo á hún auðvitað sína Svölu mömmu...sem er mjög svöl). Mamma var þekkt fyrir að vera mjög stjórnsöm og birtist því systur sinni í draumi (sem dýrðlegt ævintýr) og heimtaði sitt nafn á stúlkuna, sem þá var varla komin undir. Barnið átti svo að koma á afmælisdegi Óla pabba og Svölu mömmu en kom akkúrat deginum á undan, sem er nú barasta í fínasta lagi. Hún býr í Noregi og á að heita Kristín Husby Mariusdóttir. Mér finnst að það mætti líka troða Kúld nafninu þarna inn eeen...kannski er það of mikið?

Sjötugsafmæli pabba var stórmerkilegt líka, sérstaklega af því að hann ætlaði að hafa það lítið og lágstemmt en svo breyttist það óvænt í svaka partý. Tja...óvænt fyrir hann en allir aðrir vissu að þeir ættu að mæta klukkan hálf níu fyrir utan íbúðina hans, syngjandi afmælissönginn við raust. Bjössi bró skemmtanastjóri átti nú mestan heiðurinn af því að þetta heppnaðist svona vel, en við systur vorum ágætar á kantinum. Pabbi fékk svo mjög nytsama gjöf frá börnum og barnabörnum, nefnilega plasmasjónvarp. Nú horfir hann á Liverpool vinna alla sína leiki í háskerpu. Það munar um minna! 

Börnin dafna vel, jafnvel of vel á köflum. Hvað eru mörg vel í því? Kiddú klára átti tvo afleita sundtíma eftir síðasta dýrðarblogg en síðan hefur leiðin legið upp á við. Köfun og hegðun til fyrirmyndar! Diddú fór á sitt fyrsta blakmót á sunnudaginn og þótti það nokkuð gaman. Hún er að æfa hlutverk bangsamömmu í Dýrunum í Hálsaskógi og er voðalega spennt fyrir því. Böddey spilaði á vortónleikum Skólahljómsveitar Kópavogs í gær og gekk ljómandi vel, rétt eins og öllum hinum 150 krökkunum. Alveg frábær hann Össur og allir hans kennarar. Björg tók líka þátt í Nótunni um daginn með Sextett SK. Þeim gekk svo vel að þær eru komnar í úrslitakeppnina í Eldborg. Vel gert!

Er ekki kominn tími á greinarskil? Harpsí er skilin að skiptum við barnsföðurinn og flutt í aðra íbúð en er bara mjög ánægð með lífið. Forræðið með litla pjakk er sameiginlegt og hefur gengið þokkalega enn sem komið er. Jakobus er bara alltaf jafn hress og iðjusamur, gengur vel í leikskólanum og brosir út í eitt. Helga er á kafi í hugbúnaðarverkfræðinni og er á svo lafandi lausu að það er ekki fyndið. Henni virðist líka það vel, enda lítill tími fyrir annað en lærdóm í hennar lífi. Fyrst klárar hún námið og fær milljón á mánuði. Síðan velur hún sér maka og eignast tvær stelpur með honum. Freknóttar með þykkan hárlubba. 

Hjörtur og Helga eru að fara til BNA á miðvikudaginn og verða í tæpa viku. Business and pleasure, þ.e. fiskur og skíði. Ég ver virkið á meðan.

Nú styttist í að Kisi Jackson verði 5 ára. Þá verður eflaust eitthvað húllumhæ...freðnar rækjur og froðurjómi. Gunni Bowie verður sjö mánaða á morgun og er orðinn stærri en Kisi, svei mér þá. Þessi börn stækka allt of fljótt! Hann er ennþá að fara í taugarnar á Kisa með því að hoppa á hann, en það hefur samt aðeins minnkað, enda slæst Gunni helst ekki við minnimáttar. Þegar Gunni er þreyttur geta þeir alveg kúrt saman (eða svona næstum því), en þegar Gunni er í stuði fer Kisi út og lætur ekki sjá sig tímunum saman. Þeir eru báðir algjörir dúllurassar.

Ég sjálf er bara nokkuð hress. Get ekkert hlaupið frekar en fyrri daginn (fyrri árin...mehehe) en reyni að dröslast af og til í jóga og tabata, my lifesavers. Vinnan gengur vel og ég er sérstaklega stolt af Gettu betur liði skólans um þessar mundir. Það eru fáránlega margir flottir nemendur í Borgó!

Þessi færsla er orðin frekar myndarleg en verður samt myndalaus. Á fimmtudag og föstudag hellast inn ritgerðirnar og mun ég ekki eiga mér mikið líf um helgina. Ég geri ráð fyrir því að skila þeim af mér næsta mánudag, nema að til verkfalls komi. Ég leyfi mér að vera bjartsýn því að ég hef ekki tíma fyrir neitt slíkt og hvað þá skjólstæðingar mínir. Við sjáum hvað setur.

Adios

Jólrún :)

 


Káta mamman

Hvað er svo að frétta í febrúar? Samstarfsmaður minn sagði mér í gær að febrúar yrði óvenju stuttur mánuður. Hann skyldi þó ekki verða sannspár?

Hér á heimilinu gengur lífið að mestu leyti sinn vanagang, fyrir utan nýbökuð mjóbaksvandamál Jólrúnar sem komu upp á yfirborðið um síðustu helgi. Ekki það þægilegasta í þessum heimi en ég vona að þetta líði hjá. Ég var reyndar farin að skána alveg heilmikið en fékk bakslag (pun intended) í tabata í morgun. En á meðan elskulegur eiginmaður minn gerir fyrir mig latté á hverjum degi er lífið bara yndislegt.

Mesta gleðiefni þessa árs (hingað til) er kannski ósköp hversdagslegt í hugum margra, en fyrir mömmuna mig er um stórsigur að ræða. Þannig er mál með vexti að Kiddú mín klára hefur ekki viljað fara í kaf í sundi þrátt fyrir ítrekaðar áeggjanir móður sinnar. Sem ungabarn hjá Lóló sundkennara var þetta auðvitað hið minnsta mál, en svo hvekktist hún eitthvað á öðru ári og þá varð ekki aftur snúið. Hún varð mjög háð mér í sundi og hver einasti vatnsdropi sem skvettist á hana kallaði fram tár á hvarmi. Við eyddum heilum síðasta vetri hjá Lóló í sundkennslu en árangurinn varð ekki mikill af því að Kristrún vildi ekki fara í kaf. 

Sömu sögu var reyndar að segja um hana Sigrúnu systur hennar á sama aldri. Fín í ungbarnasundinu en þegar aðeins meira vit var komið í kollinn þýddi vatn í vitum bara óþægindi. Ég fór með hana 3ja ára í sundkennslu í Grafarvogslaug þar sem hún var eini krakkinn sem gerði ekki það sem kennarinn var að segja krökkunum að gera. Aðeins þeir sem þekkja til og hafa lent í þannig aðstæðum vita hversu frústrerandi það er. Þá er ég að tala um að gnísta tönnum og reyna að telja upp á hundrað afturábak til þess að hafa stjórn á taugunum og segja ekki eitthvað óviðeigandi sem yrði greipt í barnssálina alla ævi og myndi kosta marga þúsundkalla hjá sálfræðingi og fleira bleh. Þegar ég fór svo með hana fjögurra ára í sundkennslu í Kópavogslauginni tók hún strax upp á því í öðrum tíma að fara í kaf og var innan tíðar farin að synda skriðsund betur en mamma hennar (það þarf reyndar ekki mikið til). 

Ég hafði því nákvæmlega sömu væntingar til Kiddú þegar við skráðum hana til leiks í Kópavogslauginni fyrir nokkrum vikum. Því miður gekk þetta ferli ekki eins hratt fyrir sig og hjá Sigrúnu. Við urðum því aftur örvæntingarfullu foreldrarnir sem horfðu á hina krakkana synda og kafa eins og höfrunga á meðan okkar litli grís þrjóskaðist við og vildi stundum ekki taka þátt. Það var því mikill sigur unninn síðasta miðvikudag, eftir sundtíma, þegar Kristrún stakk höfðinu ofan í heita pottinn til þess að sýna mömmu sinni að hún kynni að fara í kaf. Ég held að ég geti ekki fært í orð fögnuðinn yfir þessu risaskrefi í rétta átt! Hefði ég ekki verið bakveik belja hefði ég tekið krílið í fangið og dansað með hana um sundlaugargarðinn. Lítið skref fyrir Kristrúnu en risaskref fyrir mömmuna. Ég veit samt að Kristrún var líka glöð og stolt, enda endurtók hún leikinn aftur og aftur, brosti út að eyrum og sagði: "Mamma, er ég ekki flink að fara í kaf?" Ég ætti að vera farin að læra af langri reynslu að allt hefur sinn tíma. Þarna var tíminn hjá yndislega örverpinu mínu greinilega runninn upp. Við fórum svo í Útilíf í dag og Kristrún fékk að velja sér nýjan sundbol í staðinn fyrir þann gamla sem var að verða of lítill. Auðvitað stökk hún beint á þann bleika. Hér er litla stolta stelpan mín í nýja sundbolnum:

  photo c8882afe-b6f5-4e39-a653-5a5cd2503ecd_zpsb6a94d01.jpg

 Ég er aðeins búin að bæta nokkrum aukahlutum á myndina en ég veit að Kristrún verður ánægð með það.

Auðvitað fékk hún að sofa í sundbolnum í nótt og er alveg hörð á því að við séum að fara að prófa hann í sundi á morgun.

Já, svona eru það litlu hlutirnir sem gleðja mann. Nemandinn sem hagaði sér kjánalega í gær, var til fyrirmyndar í dag. Það gladdi mig. Nemendur sýndu kennurum stuðning á Austurvelli í dag. Það gladdi mig. Sigrúnu fannst rosalega gaman á skautum með vinkonu sinni í dag. Það gladdi mig. Mér tókst loksins að setja mynd aftur inn á þetta blogg. Það kætti mig. Það er föstudagur á morgun. Geðveikt!

Góða helgi

Sóla káta :)

 


Gleðilegt ár!

Já já, gleðilegt ár daginn fyrir afmælið hans Paul Young! Svolítið seint í rassinn gripið en betra er smá blogg en ekkert...vonandi. Ég set engin nýársheit en datt nú í hug í minni fullkomnu tilveru að kannski væri ekkert vitlaust að fara að blogga oftar. Það liggur við að hver einasta færsla á síðasta ári hafi byrjað á afsökunarbeiðnum og skömmum í eigin garð út af lítilli virkni á síðunni. Ekkert virðist ætla að breytast á nýju ári. 

Ég ætla að hafa þetta stutt og laggott þó að ég eigi tonn af óskrifuðum minningum úr jólafríinu sem gott hefði verið að koma á prent, bæði fyrir mig og aðra fjölskyldumeðlimi að eiga. En við verðum bara að treysta á myndir og eigin minningar. Ég get þó sagt frá því að aðfangadagskvöld var það fjörugasta og hávaðasamasta í manna minnum, enda aldrei svo margir samankomnir áður. Allt fór þetta vel, allir fengu fallegar og fínar gjafir og fóru sáttir í svefn, nema kannski Sigrún sem varð eitthvað pirruð þegar líða fór á kvöldið, líklega yfirspennt. Áramótin voru aftur á móti róleg og þægileg, skaupið með betra móti (sérstaklega IKEA maðurinn) og allir sofnaðir fyrir tvö. 

Ég nýtti jólafríið líka ágætlega í kennsluundirbúning og mætti glöð og galvösk á fyrsta kennarafundinn fyrir 2 vikum síðan. Jæja, þetta síðara er kannski lygi því að það venst ótrúlega vel að vera heimavinnandi húsmóðir eingöngu. Ég gæti alveg tekið það upp sem lífsstíl - kannski með einn huggulegan bókmenntaáfanga á kantinum. En aldraða kennslukonan var fljót að detta í gírinn og lítur björtum augum á vorönnina. Ég er enn á ný með stóra hópa (28-31 í hverjum bekk) en fékk mun betri stundatöflu en oft áður og ég held að það muni heilmikið um það, svei mér þá. Þetta verður reyndar löng önn með fáum fríum fyrir nemendur, allur febrúar eftir (febrúarkrísurnar maður!), en svo fer að birta til. Nú er eitthvað verið að spá verkfalli, en ég vona að það komi ekki til þess. Ég vil helst ekki láta drulla yfir mig og mína stétt á kommentakerfi DV.

Af Gunna litla Bowie og Kisa stóra Jackson er það annars helst að frétta að þeir eru orðnir örlítið nánari. Gunni er orðinn vaskari í framgöngu en áður og á það til að stökkva á Kisa til þess að mana hann upp í slagsmál. Kisi tuskar hann þá aðeins til og svo er þetta bara búið. Kisi hegðar sér samt allt öðruvísi en áður. Hann lá vanalega á gólfinu í miðrýminu (eins og Vala matt hefði orðað það svo smekklega) og naut þess að hanga með okkur. Núna reynir hann að vera sem mest úti svo að hann fái frið fyrir krakkaskrattanum (Gunna). Gunni er ekki enn farinn að fá að fara út á eftir honum, enda er hann óviti mikill og ískalt úti í þokkabót. Eini ókosturinn við Gunna er að hann fær niðurgang af öllu öðru en þurrmat enn sem komið er. Því þurfum við að fara varlega í að gefa Kisa eitthvað góðgæti, því að ef Gunni kemst líka í það stinkar húsið eins og rotþróin í Öldu í Elliðaárdal í þá gömlu góðu daga. Það var ekki góð lykt. En við erum búin að læra á þetta þannig að allt gengur í rauninni mjög vel. Gunni veitir stelpunum mikla gleði, alltaf til í að leika sér og er mesta krútt í heimi, ásamt Kisa auðvitað og Jakob Ara.

Ég ætlaði að setja hér inn einhverjar myndir en eitthvað er ekki að virka. Ég hef einsett mér að láta ekki myndavesenið á þessari síðu fæla mig frá því að skrifa eitthvað (stundum fer meiri tími í það en skrifin sem er alveg glatað) en auðvitað er miklu skemmtilegra að hafa einhverjar myndir með. Kannski finn ég aðra síðu þar sem allt svínvirkar á einfaldan hátt. 

Næsta markmið er að byrja ekki bloggið á því að minnast á hvað það var langt síðan ég bloggaði síðast. I can do it!

Sóla súperbloggari :)


4ra ára afmæli hjá Kiddú biddú!

Jú jú, akkúrat vika síðan afmælið hennar Kristrúnar var og ég ekki enn búin að gera því skil. Myndirnar hjálpa mér samt að rifja þetta aðeins upp...Tja...já, látum okkur sjá. Elsku stelpan okkar var búin að telja niður dagana fram að afmælinu. Hún er mjög upptekin af tölum þessa dagana og spurningahríðin dynur á okkur alla daga. Það er bara yndislegt því að það er ekki nóg að geta eingöngu tengt saman bókstafi. Miðað við spenninginn kvöldinu áður var hún óvenju lengi að taka við sér þegar við sungum fyrir hana afmælissönginn að morgni 28. nóvember. Hún rétti þó að lokum úr kútnum með bros á vör, búin að meðtaka í gegnum svefnrofin að stóri dagurinn var runninn upp. Við tók mikið pakkaflóð frá fjölskyldunni og Svölu frænku. Jú, og svo fengu stelpurnar Heimilisjógúrt út á morgunkornið en það þótti toppurinn á tilverunni! Kristrún rölti svo á leikskólann með pabba sínum og fékk góðar viðtökur þar, kórónu und alles.

Um kvöldið var haldin smá veisla með nánustu fjölskyldu. Eins og árið áður valdi afmælisstelpan sushi í matinn. Rétt fyrir kvöldmat kom Óli afi með þennan fína pakka:

IMG_0171_zpsb18f4b27

Pabbi er alltaf svo sniðugur með að velja góða mynd af litlu grísunum til þess að nota sem afmæliskort. Afmælismaturinn var ljómandi fínn og kakan sem kom á eftir líka. Hún er til sýnis á síðustu myndinni í þessu bloggloggi.

Daginn eftir, þ.e. frá 17-20, komu aðeins fleiri í heimsókn því að þá héldu Sigrún og Kristrún sameiginlega upp á afmælið sitt fyrir stórfjölskylduna og nokkra fjölskylduvini. Yfir 50 manns mættu á svæðið og fullt af pökkum bættust í safnið. Kristrún bleika klæddist auðvitað afmæliskjólnum og kórónu í stíl. Hér er hún alsæl að taka upp pakka:

IMG_0199_zps97b5a19d

 

Sigrún átti afmæli í október en naut þess samt að fá fullt af pökkum núna. Margar myndir voru teknar af góðu gestunum en það er ekki hægt að gera upp á milli þeirra þannig að engar verða birtar hér á þessum vettvangi. En auðvitað þarf að birta mynd af vinnu húsmóðurinnar til þess að tryggja það að börnin finni að þau skuldi mér eitthvað seinna meir og taki mig jafnvel inn á heimili þeirra þar sem ég get legið í kör eða róið fram í gráðið, tautandi: "6 eggjahvítur, 6 dl púðursykur, hálfur lítri rjómi...."

IMG_0200_zps70d4961d

Já já, en það eru seinni tíma vandamál. Hér er afmælisstelpan mín að skoða afmæliskökuna sem mamma hennar gerði af alúð og ánægju:

IMG_0210_zpsbe7a03f5

Hún heldur fast um hvítan kisukjól sem Ásta tengdamóðir hennar gaf henni í afmælisgjöf. Hún veit sem er að kjóllinn verður ekki lengi kjóll af því að það má ekki setja hann í þurrkarann. Mamma setur allt í þurrkarann og núna er kjóllinn orðinn að peysu. Baby born peysu.

Þó að það sé enn svolítil prinsessa í henni litlustu minni leynast nú smá Jólrúnargen þar líka, sem gera móður hennar svo stolta. Myndin hér fyrir neðan er alveg fullkomin:

IMG_0195_zps08ccb823

Helga sæta, afmælisbarnið, Hjörtur sæti. Þessi gretta sýnir að hér er upprennandi fagmaður á ferð!

Ég kveð með stolti

Jólrún grettudrottning :)


Nýr fjölskyldumeðlimur á leiðinni!

Nei nei, ég er ekki ólétt. Við erum hætt, gömlu hjónin. Hins vegar má alltaf á sig köttum bæta. Eftir langa umhugsun og mikið hik af hálfu óákveðnu vogarinnar ákváðum við (eða nýjungagjarni tvíburinn sem ég er gift) að festa okkur einn Maine Coon kettling. Við heyrðum fyrst af einum slíkum fyrir nokkrum árum og fannst tegundin spennandi. Krílið fæddist 11. september og við erum bara búin að sjá hann á mynd af því að hann býr úti á landi. Við féllum fyrir hvítum feldinum og mislitum augunum:

gunnibowie_zpsebd22336

Þetta er sem sagt "oddeye" Maine Coon. Það gefur auga leið að pilturinn mun fá nafnið Gunni Bowie. Gunni eftir bróður Hjartar sem er einmitt með mislit augu, jú og auðvitað líka eftir Gunna sem passar alltaf Kisa Jackson á sumrin. Bowie nafnið kemur frá David Bowie sem er líka "oddeye" gaur og flottur tónlistarmaður, rétt eins og Gunni...jú og Jackson. En af hverju var ég svona lengi að ákveða mig? Tja...eftir 1-2 ár verður Gunni litli orðinn svona:

gunni2_zps5ad6bef7

Stóóóór strákur!

Fyrstu áhyggjur mínar voru af því að hann yrði fyrir áreiti á götum úti. Aldrei hef ég séð svona stóran kött á flandri. Líklega væri heldur ekki gott ef hann yrði ljón á veginum fyrir aðra. En þessi tegund er víst ekki kölluð "gentle giant" fyrir ekki neitt (vonum við). Svo hef ég líka áhyggjur af því að hann fari mikið úr hárum. Ég hef ekkert ofsalega gaman af því að ryksuga sko. Stærstu áhyggjurnar eru þó þær að Kisi Jackson fíli ekki Gunna Bowie. Því höfum við slegið þann varnagla að ef þeim kemur alls ekki saman fáum við að skila aumingja Gunna. Kisi hefur fyrsta búseturétt og ekki sanngjarnt að hann verði að lúta í lægra haldi fyrir einhverjum kettlingi, jafnvel þó að hann sé ættbókarfærður og þar að auki helmingi stærri! Við vonum bara að þetta fari allt saman vel og að gamanið verði ekki stutt. 

Við eigum von á Bowie í kotið um miðjan desember þannig að hann er jólagjöfin okkar í ár. Wish me luck!

Sóla Bowie Grin


8 ára afmæli Sigrúnar

Nú er bara bloggað á tyllidögum sko. Það eru tvær vikur á milli afmælisdaga hjá okkur vogastúlkum, Jólrúnu og Diddú Bödd. Ég man ekkert eftir 8 ára afmælisdegi mínum, að því er ég best veit. Afmælisdagar æsku minnar eru eins og slitrótt minningabrot héðan og þaðan og erfitt að henda reiður á hversu gömul ég var þegar stóru krakkarnir í götunni bjuggu til bóndabæ úr mosa fyrir mig úti á lóð eða hvenær vinkona mín gaf mér bókina sem mig vantaði til þess að fullkomna safn mitt af þjóðsögum Jóns Árnasonar (já, ég var nörd...en alveg svakalega kúl núna, döhöhö).

Með því að halda þessu bloggi lifandi get ég stjórnað minningum dætra minna. Héðan í frá verða sagðar sögur af því hvernig ég dekraði við dætur mínar alla daga og sleit mér út við þvotta og þrif, bara fyrir hamingju þeirra. Þær eiga eftir að vera mér svo þakklátar í ellinni (minni elli sko) að þær munu slást um að þjóna mér á alla lund. Helga á mánudögum, Harpa á þriðjudögum, Björg á miðvikudögum, Sigrún á fimmtudögum, Kristrún á föstudögum og frjálst um helgar. Allt klappað og klárt. Hér kemur stutt frásögn af áttunda afmælisdegi Sigrúnar og að sjálfsögðu sönn:  

Ég vaknaði eldsnemma til þess að komast í sturtu og vera hrein og fín fyrir afmælisbarnið. Svo var þessi elska (og hinar elskurnar) vakin með kossi og knúsi. Hún var heldur fljótari á fætur en aðra daga, enda búin að hlakka mikið til afmælisins. Forláta afmælisterta, sem móðir hennar hafði staðið sveitt og þreytt við að baka kvöldið áður (smá lygi, keypti hana í Iceland) beið hennar ásamt fullt af fínum pökkum. Hér eru Diddú og Kiddú að hjálpast að við að opna gjöfina frá Noregi:

1391605_10152041114150579_3079367_n_zps1e5079ad

Í þeim pakka leyndist meðal annars þessi dásamlega dúnúlpa sem féll svo sannarlega í kramið hjá Sigrúnu:

1382814_10152042250490579_1428338124_n_zps08ba3494

 Svo fín! Takk elsku Svala, Gunni, Madelen, Tinna og Marius!

 Svo þurfti ég að rjúka í stressi í vinnuna en Björg og Tinna Túdd (hún er í heimsókn) sáu um að koma stelpunum í skóla og leikskóla. Dagurinn var bara fínn hjá Sigrúnu. Það var sungið fyrir hana hjá umsjónarkennaranum, í tónmennt og í gítartímanum. Ekki slæmt! By the way, Sigrún hafði verið í foreldraviðtali daginn áður og fékk þar mjög góða umsögn. Hún er fljót að vinna verkefnin og fer þá út í að föndra heil ósköp af alls konar hlutum. Það er gott að geta fundið sér eitthvað til dundurs í skólanum. Hún er mikill dundari eins og systur hennar. Dunder thunder, eins og maðurinn sagði. 

Þegar hún kom heim úr skólanum beið Afi Connery eftir henni með sniðugan pakka úr LeikföngRumvið, sem var fullur af flottu föndurdóti. Afi er líka föndrari og býr alltaf til skemmtileg kort handa barnabörnunum sínum, eins og sést á pakkanum:

1377232_10152042251945579_656363755_n_zpsf91fb59b

Ossafín mynd af Diddú síðan hún var tveggja ára, en afi föndraði kórónuna.

Stuttu síðar mættu norsku konungshjónin í Daltúnið með aukapakka handa afmælisbarninu. Hér á formleg afhending sér stað:

1377449_10152042251145579_1283512001_n_zpsfbe5a126

Voða formleg á svipinn alltaf, hún Tinna Túdd. Bók eftir meistara Ole Lund Kirkegaard komin í bókasafnið, toppeintak, rétt eins og afmælisbarnið og gestirnir.

Rétt áður en við lögðum af stað niður í Borgartún til þess að snæða hammara mætti Gunni Jackson á svæðið með sérlega viðeigandi gjöf handa stjúpdóttur sinni:

1379566_10152042250020579_245004790_n_zps7df32e7d

The Famous Grouse - eðalwhiskey, beint frá framleiðanda! Sigrún gaf afa sínum hana af því að hún er svo góð og hann er svo góður (og í whiskey alveg óður).

Núbb...við fengum þetta fína borð á Hamborgarafabrikkunni og byrjuðum að lesa yfir langan matseðilinn. Sigrún var ekki lengi að velja sér uppáhaldsréttinn: Hakk og spagettí. Hún vissi að hún fengi afmælisís á eftir og fengi að velja sér lag. Þetta síðara olli henni reyndar mikilli sálarkvöl og voru allar uppástungur okkar vita gagnslausar. Þegar ég bað um Prumpulagið fyrir hennar hönd langaði hana mest til þess að skríða undir borð af skömm. Að lokum sættist hún á Glaðasta hund í heimi en fór samt aftur algjörlega í kerfi þegar hennar nafn var lesið upp og allir veitingahússgestir klöppuðu afmælisbarninu lof í lófa. Ekki of mikið fyrir athyglina, litla hógværa Sigrúnin mín. 

Helga stóra systir bætti einum pakkanum enn í pakkaflóruna og var henni aldeilis tekið fagnandi:

1383859_10152042249390579_1777577321_n_zps5d41146f

Í pakkanum var Vísindabók Villa (fyrir litlu raunvísindakonuna okkar), dót og ýmislegt annað fallegt. Ég vil nota tækifærið og þakka sænsku konungshjónunum, Hörpu og Rasmus, fyrir þessa eðal gjöf. Jú, Jakob, litli prinsinn þeirra, fær kossa og knús, kram og...lús...bús...ææææ...bara annað knús!  

Hamborgararnir runnu ljúflega niður og norska drottningin hélt fyrirlestur um borðsiði hirðarinnar. Hér er hún í miðjum klíðum:

1378016_10152042248755579_1426193464_n_zpsb87dc7aa

Penir og prúðir þessir Norðmenn :)

Afmælisísinn birtist fljótlega eftir að síðasta uxahalanum var sporðrennt og Böddey og Diddú sýndu örlítið leikræna tilburði:

1382026_10152041979045579_1972395933_n_zps53d98101

Vóóó! Þvílíkur afmælisís í boði hússins!!!

Almúginn (þessir sem ekki áttu afmæli en sátu við sama borð) pantaði sér svo grand eftirrétti sem hafði þær afleiðingar að helsta umræðuefnið við borðið voru uppsölur eftir mat. Huggulegt bara.

Ég held að Sigrún hafi bara verið þokkalega sátt við daginn. Hún er svo sem ekki alltaf að flíka sínum tilfinningum en hugsar eflaust þess meira, rétt eins og móðir hennar í æsku. Djúp vötn eru lygnust (still waters run deep). Hvað hún er að hugsa á þessari mynd veit ég ekki, en eflaust er það eitthvað fallegt og skynsamlegt og eilítið út í fjólubláan draumaheim:

1382115_10152042248055579_695068324_n_zps90c6e089

Hún fékk að föndra aðeins meira eftir að hún kom heim en svo lagðist hún örþreytt upp í rúm með Mary Poppins textabókina og söng allt leikritið ofurlágt í gegn áður en hún fór að sofa. Nú er fimm daga haustfrí framundan, pabbi hennar kemur heim frá Boston á morgun og svo ætlar fjölskyldan að kíkja eitthvert í bústað. Gott að fá smá tilbreytingu frá hversdagsleikanum og gera eitthvað notalegt saman.

Svona var áttundi afmælisdagurinn þinn, elsku Sigrún mín, að minnsta kosti frá bæjardyrum móður þinnar séð. Ég hlakka til að sjá þig vaxa og dafna á níunda aldursárinu þínu, stóra stelpan mín.

Sóla Sigrúnarmamma Smile


Ammmælið mitt!

Afmælisdagurinn minn þetta árið var einn af þeim betri og nú bara verð ég að skrifa nokkur orð um þennan góða dag áður en óminnishegrinn tekur öll völd. Í stuttu máli...

Vaknaði 6:40 á fimmtudagsmorgni, sem er kallað að sofa út á mínu heimili, því vanalega vakna ég þá í tabata kl. 5:40. Sturta og spasl (til þess að viðhalda 25 ára ímyndaðri ímynd minni) og semi-sparikjóllinn sem rétt náði utan um skutinn (af því að ég sleppti tabata sko). Ilmandi latté (eins og alltaf reyndar), spari-múslí frá Björgu og fullt af pökkum:

1380290_10152010328230579_646521545_n_zpsa9929535

 Geðveik lopapeysa frá Lúllu sys og fjölskyldu sem hún prjónaði auðvitað sjálf. Ég verð að taka mynd af mér í henni fljótlega svo að allir geti fengið að sjá snilldina. Golla frá Hirti, English biscuits frá Kiddú, perlurammar frá Diddú (homemade!) og nýja bókin hans Pálma ædols frá Biddú. Við Pálmi eigum það sameiginlegt (fyrir utan það að vera miklir þorparar) að elska að veiða, þannig að ég hlakka mikið til þess að lesa bókina. Hefði samt viljað fá smá tíma í afmælisgjöf líka (til þess að lesa bókina).

Ekki tók verra við þegar ég mætti upp í vinnuna rétt fyrir átta: Gól og hól, hopp og dans, allt í boði Ástu og félaga! Svona var skrifborðið mitt:

1382415_10152010604435579_293142514_n_zps8567998a

Clean desk, sick mind! Algjörlega óvinnufært við borðið þennan morguninn og ég þurfti að éta mér leið að ritunarverkefnum nemenda. Í pökkunum voru jógamotta, jógahandklæði, jógabuxur, jóg...úrt (múahaha), fyrir utan þrettán kókosbollur og þúsund Nóa kropp. Guðrún gaf mér köku og geðveikt kort með mynd af Stykkis og vísunni um Eggert frænda Ólafsson og hans hinstu bátsferð (Þrútið var loft...). Þóra kom með handgert konfekt og svona mætti lengi telja. Hvað er hægt að eiga gott samstarfsfólk, ha? Auðvitað var Ásta búin að hrúga Nóa kroppi á öll borð í kennslustofunni minni og nývaknaðir nemendur tóku því fegins hendi að geta japlað á súkkulaði í morgunsárið. Hressi nýnemahópurinnn tók svo við og söng fyrir mig afmælissönginn (auðvitað á ensku) djúpri röddu (25 strákar og 5 stelpur)! Gerist ekki betra!

Ég var svo heppin að eiga afmæli á besta deginum í stundaskránni og gat því yfirgefið svæðið upp úr hádegi. Auðvitað miðaði ég skipulagið í upphafi annar við það að ég væri ekki með fullt af verkefnum í gangi á sjálfan afmælisdaginn (alltaf séð hún Jólrún). Hjörtur var á kafi í því að sinna kanadískum viðskiptavinum og hafði því ekki tíma til þess að redda hvítvíni með sushi-inu um kvöldið. Ég keyrði því með bros á vör í Smáralindina, vitandi það að ég hefði þarna nokkra klukkutíma fyrir mig sjálfa á afmælisdaginn (það er einstök og hreint út sagt ómetanleg tilfinning!!). Ég þurfti auðvitað að rekast inn í eina búð eða svo og máta smávegis af fötum. Maður á allt skilið á afmælisdaginn. Svo gleymdi ég mér og byrjaði að kaupa afmælisgjafir handa börnum hinna og þessara og þá var klukkan allt í einu orðin hálf þrjú og ég ekki byrjuð að baka! Ég rauk heim og byrjaði að henda í kökur en rölti svo og sótti Kiddú mína í leikskólann, alveg í skínandi skapi. Ég var búin að vera slæm í hálsi og þung í höfði vikurnar á undan, en þarna fagnaði ég því svo innilega að vera alveg búin að ná mér og vera ekki dauðvona með krabbamein í vélinda eins og ein google leitin var búinn að sannfæra mig um.

Diddú og Kiddú voru ansi kröfuharðar á athygli móður sem var að reyna að undirbúa veislu sem byrjaði klukkan sex, þannig að ég kveikti á sjónvarpinu og plantaði þeim þar. Ah, friður og ró. Allt gekk samkvæmt áætlun: Klukkan 6 mætti pabbi á slaginu, reffilegur að vanda, með flottan pakka handa litlu stelpunni sinni:

2013-10-03182715_zpsdd2cc019

 Ég hélt að þetta væri tækni legó en komst að því, mér til mikillar gleði, að þarna færi "step" pallur fyrir heimaleikfimina! Það þorir enginn að gefa mér hlaupadót núorðið, enda mikil hætta á bráðaþunglyndi þegar hlaup eru nefnd á nafn. Nema auðvitað Haribo. Ég gleymdi að geta þess að Helga var auðvitað mætt fyrr á staðinn með tonn af sushi í farteskinu og flottan pakka frá henni og Svíunum. Mögnuð peysa alveg sem ég hlakka til að skarta í vinnunni (takk Harpa, Rasmus og Jakob!). Bjössi bró og öll hans hró mættu svo galvösk með Marc Jacobs gullhálsmen og hring. Erna mágkona hafði verið í Boston nýverið og keypti auðvitað það allra flottasta handa uppáhalds mágkonu sinni! Hér er liðið alveg aaaalsælt í sushi vímu:

2013-10-03184723_zps578c74b8

Kæti og gleði til rúmlega 8, en þá fóru börnin að hátta og ég gerði klárt fyrir næsta holl. Glennurnar Ásta ofur, Agga æði (og fimmta afsprengið hún Elsa litla) og Lady Sigrún nörtuðu í afganga og leystu mig út með enn einni gjöfinni: Svaðalegri inneign í TRI! Takk líka hinar Glennurnar sem ekki komust á staðinn!  

Þegar þær voru farnar var loksins tími til þess að setjast á dolluna. Sú stund teygðist í næstum því klukkutíma þar sem ég renndi brosandi í gegnum allar kveðjurnar á facebook og lækaði á alla kanta, hægri og vinstri, lárétt og lóðrétt. Þvílík gleði! Þreytt en glöð og alveg árinu eldri fór gamla í rúmið og sofnaði værum svefni, alla vega fyrst í stað. Vaknaði reyndar klukkan þrjú um nóttina, afskaplega þyrst eftir hvítvínið og sojasósuna og með köggul í maganum eftir átta kíló af hrísgrjónum og sjávarafurðum. Ég var svolítið þreytt í vinnunni í dag og hausinn er við það að síga niður á bringu núna. Fannst samt að ég yrði að skrifa smá um þennan sérlega fína dag og þakka öllum sem gerðu hann svona frábæran. Þar eiga nú stærstan hlut minn yndislegi eiginmaður og mín alltumlykjandi ofurvinkona, ungfrú Ásta Laufey.

Áður en ég dett í það að verða væmin og eitthvað rugl ætla ég að enda þetta pár með því að sýna ykkur fínu myndina af mér og Bjössa sem tekin var á afmælinu mínu fyrir akkúrat 10 árum. Mér finnst ég líta betur út í dag:

1380534_10202282122513749_1946844784_n_zps758c4d6e

Ég er þessi hægra megin, Bjössi bróðir til vinstri. Þarna bjó ég ein í lítilli íbúð með litlu Brök og Bjössi og Erna voru músíkalskt par, sannkallaðir gleðigjafar...og barnlaus þar að auki. Núna, 10 árum seinna, eiga þau tvö æðisleg börn sem ég elska út af lífinu. Ég sjálf bý í "höll" (kannski ekki mjög stórri...þetta er sko myndlíking) með kónginum mínum og búin að eignast fjórar prinsessur og einn prins í viðbót við fjársjóðinn sem ég átti fyrir. Ég get svo svarið það, ég er bládedrú. Enda var þetta bara djók, ég er alls ekki væmin! Bottom line: Frábær afmælisdagur með yndislegu fólki. Takk fyrir mig. Eimen.

Sóla síkáta Grin

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband