Blogg ársins!

Kannski ekki besta blogg ársins, en að minnsta kosti það fyrsta þetta árið hjá undirritaðri. En þegar Venus skín skært í vestri og rosabaugur sést í kringum tunglið myndast réttu aðstæðurnar til þess að rifja upp helstu atburði frá janúar til mars.

Janúar janúar janúar....hvað gerðist í janúar árið 2015? Þá lauk jólafríinu og ég kynntist 76 nýjum nemendum og fékk 18 gamla. Allt reyndist þetta vera eðalfólk. Sigrún litla miðjubarn dansaði líka á sinni fyrstu danssýningu í Laugardagshöllinni ásamt vinkonum sínum og fékk medalíu fyrir.

sigrundans_zpskunxdwdc

Framtíð Íslands!

Í janúar kviknaði líka lítið líf en ég fjalla nánar um það síðar þegar ég hef fengið leyfi til þess. Nei, ég er ekki ólétt. Gamla er hætt.

Febrúar febrúar febrúar var óvenju stuttur mánuður, bara 28 dagar að mig minnir. Þá bar helst til tíðinda að Gunni horski kom í heimsókn. Af því tilefni var blásið til veislu og Granskælingum boðið til Daltúna.

familyblogg_zpsbmfeknju

Framtíð Íslands!

Bolludagur, sprengidagur og öskudagur tóku upp á því að vera í febrúar og var haldið upp á bræðurna þrjá með pompi og pragt. Eiginmaðurinn var aldrei þessu vant í útlöndum svo að ég þurfti að kaupa bollurnar sjálf, sleppa því að elda saltkjöt og panta pizzu á öskudaginn. Öskudagurinn var auðvitað langskemmtilegastur af þeim öllum af því að nú er kominn sá góði siður í hverfið að börnin ganga á milli húsa og syngja fyrir nammi. Sigrún og vinir voru gerð út af örkinni til þess að fylla nammiskápinn á heimilum sínum og báru þau vel úr býtum.

sigrunblogg_zpslgcp1tdm

Framtíð Íslands!

Á meðan tókum ég og Kristrún litla á móti öðrum börnum og skiptum á gotti og góli. Meganæs. Ætli ég hafi svo ekki endað á því að fella eitthvert vinnumat þarna rétt í lok mánaðarins. 

Marsmánuður var vindasamur og aldrei þessu vant var eiginmaður minn í útlöndum þegar stærsti stormur aldarinnar reið yfir höfuðborgarsvæðið. Ég lá í fósturstellingu og saug olnbogann á meðan vindurinn þeytti skjólveggjum nágrannanna yfir til nágrannanna. Mestar áhyggjur hafði ég af sumargjöf dætra okkar sem hafði staðið af sér storma stríða í allan vetur en virtist hvað úr hverju ætla að slitna úr festingum sínum og marka djúpt far í 89 bifreiðar á Stór-Kópavogssvæðinu. Faðir minn aldraður mætti á svæðið og fauk undir trampolínið ásamt Webernum og öðru lauslegu. Eftir að hafa skriðið í skjól tilkynnti hann mér andstuttur að trampolínið myndi líklega halda, sem það og gerði. 

Í mars urðu svo þau stórtíðindi að frumburðurinn og miðjubarnið spiluðu í fyrsta sinn saman á tónleikum Skólahljómsveitar Kópavogs í Háskólabíó, önnur með A-sveit og hin með C-sveit. Mér leiddist því bara um miðbik tónleikanna. Djóóók...B-sveitin var fín líka. Hér má sjá Björgu spila á hljóðfærið sitt ásamt bestu básúnuvinunum og einu horni (úti í horni):

bjorgblogg_zpsyubxm8qh

Framtíð Íslands!

Hvað skal svo segja meira? Jú, það var sólmyrkvi, einhvers staðar liggur ást unga fólksins í loftinu, einhvers staðar er háskólastúlka ólétt, einhvers staðar slást tveir geldir kettir, einhvers staðar er allt við það sama og allir glaðir. Fraktin til Flórída hefur reyndar verið að taka Hjört á taugum, efnafræðin er ekki lengur uppáhaldsfag frumburðarins, miðjubarnið hefur yfir engu að kvarta en litla krílinu finnst birta of snemma á morgnana. Hún kann ráð við því:

kristrunblogg_zpsdrgzmin4

Framtíð Íslands!

Ég sjálf hef alltaf "örlítið" of mikið nóg að gera í vinnunni en ætla að taka mér frí yfir blápáskana og skella mér með fjölskyldunni norður til Akureyrar á skíði eins og undanfarin páskafrí. Svo verð ég að segja frá því að ég er byrjuð á námskeiði hjá Endurmenntun sem heitir "Skáldleg skrif" þannig að næstu blogg verða hugsanlega mjög skáldleg og skapandi. Hey...ég er alla vega farin að blogga aftur!

Gleðilega páska kæru landsmenn!

Zola in da Zone ;)


Afmæli hjá litlustu, kennslulok og Orlando baby yeah!

Ég veit að ég blogga allt of ört en ég hef bara svo mikinn tíma aflögu að ég veit ekkert hvað ég á að gera af mér annað en að sitja við tölvuna og skrifa. Ókey...ég átti afmæli 3. október sl. og hef ekkert skrifað hér síðan, enda rosa busy og bla bla. Síðasti kennsludagur var í dag, ljúfur og þægilegur og allir mættu í rauðu, nema þeir sem mættu í svörtu því að þeir voru bláklæddir. Önnin er búin að vera annasöm eins og alltaf en samt í góðu jafnvægi; álagi ágætlega dreyft, þökk sé góðu skipulagi og skorti á frestunaráráttu hjá undirritaðri. Hér kem ég strax auga á mótsögn í frásögn, agnarögn. Ég fresta endalaust að blogga en þykist svo aldrei fresta neinu. Raupið rekið ofan í kok.

Þetta verður snögga bloggið, uppkastið. Heppin er ég að hafa sloppið við gubbupestina sem er að ganga allt í kringum mig. Minn stærsti ótti er þó að fá upp og niður pest í átta tíma flugi til Florida á morgun. Betra að hafa með sér föt til skiptanna, just in case (suitcase). Pampers jafnvel.

Anyhow, hér hafa verið afmælisveislur daginn út og daginn inn. Diddú aka Sigrún varð 9 ára þann 17. október sl. og bauð í öfugt partý. Allir voru hýrir á brá, enda var talað afturábak, gestir mættu í úthverfum fötum, kakan var borin fram á undan aðalréttinum, borðað var undir borðum og ég veit ekki hvað. Ég var jafnvel að hugsa um að hafa kökuna á hvolfi, en þá hefði myndin ekki notið sín:

DSC_0005_zpsb965df39

Bekkjarmynd af 4.RG. Hausarnir sem svífa fyrir ofan hópinn eru af 3 stelpum sem bættust við bekkinn eftir að myndin var tekin. Ég held að stelpurnar séu 16 og strákanir 7. Þetta var því stórt partý þó að stelpunum væri bara boðið.

Í byrjun nóvember gisti hér líka hún séra systir mín, sem skrapp frá Noregi til Íslands til þess að aðstoða dóttur sína á Norðurlandamótinu í fitness. 2 vikum seinna kepptu báðar dætur hennar á Íslandsmeistaramótinu og komu, sáu og sigruðu næstum því. Irma lenti í 2. sæti á eftir Evrópumeistaranum sjálfum og Kiddý lenti í 6. sæti af 18 keppendum á sínu fyrsta móti. Geri aðrir betur! Þær voru duglegar að gúffa í sig góðgæti daginn eftir keppnina í afmælisboði Kristrúnar og Sigrúnar. Hér eru þær, flottu frænkurnar mínar, Kiddý og Irma:

blogg2_zps0fd6f843

Þær eru báðar mjög líkar systur minni í útliti. Kiddý er líkari Lúllu eins og hún er núna, en Irma er líkari henni eins og hún var á táningsaldri.

Í afmælisveisluna kom líka góður gestur sem aldrei hefur stigið fæti inn um dyr Daltúnsins fyrr: Sjálfur Björgvin bróðir! Hann er reyndar ekki bróðir minn (Bjössi á Bensó er bróðir minn), heldur bróðir hans pabba. Hann er 78 ára og hálfum metra hærri en pabbi, eins og margt föðurfólk mitt. Báðir eru þeir bræður miklir völundarsmiðir, Björgvin í viðnum og pabbi í málminum. Björgvin er að smíða æðislega flott jólatré og auðvitað keypti ég eitt slíkt af honum. Konan hans, Sigrún Lár, heklar skrautið við og ég verð að segja að tréið er hið mesta stofustáss og verður það eflaust um ókomna tíð. Hér er Björgvin að setja saman tréið fyrir mig og pabbi fylgist áhugasamur með stóra bróður:

blogg4_zps704717c5

Kristrún mín litla varð 5 ára 28. nóvember eftir afskaplega langa bið. Ég hef aldrei upplifað aðra eins niðurtalningu og var orðin þvílíkt spennt fyrir hennar hönd. Hún varð alls ekki fyrir vonbrigðum með daginn, enda lítillát og ljúf. Hún fékk meðal annars þennan fína Frozen kjól og fléttu við og leiddist ekki að vera Elsa í einn dag.

blogg5_zpse832e045

Elsa litla pantaði spaghetti með kjötbollum í afmælismatinn sem varð að svo mikilli gourmet máltíð í höndum pabba hennar að ég er að hugsa um að hafa þennan rétt á áramótunum. Hver er ekki kominn með leið á fois gras og hreindýrapaté hvort sem er?

Nú er fókusinn kominn á jólin. Ég er reyndar ekki búin að kaupa eina einustu jólagjöf, aldrei þessu vant. Það kemur nú líklegast til af því að við hjónin erum að fara í langa helgarferð til Florida (Orlando og Petersburg nánar tiltekið) og ég var að vonast til þess að redda einhverjum gjöfum þar og græja svo restina í bókabúðum hérlendis. Ég er vel undirbúin fyrir fríið, búin að semja prófin, ljósrita, lesa inn og skipta á prófayfirsetum við aðra kennara. Mér skilst að veðrið verði með besta móti, sólríkt og 20-25 gráður. Enda þetta blogg með orðum Lay Low: Please don't hate me.

Sóla sucker :)


Að eiga smáafmæli

Alla mína afmælisdaga (einu sinni á ári altso) er ég spurð að því hvort að ég eigi stórafmæli og ég get bara svarað játandi á tíu ára fresti. Samt tekst Ástu og öðru eðalfólki alltaf að láta mér líða eins og verið sé að fagna fæðingu frelsarans, en ekki afmæli kiðfættrar kennslukonu. Hósanna dóttur Bjórlafs! Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég vaknaði á afmælisdaginn minn var að búið var að skreyta asnann sem ég ætlaði að ríða á inn í Jerúsalem:

afmali4_zps2bb28048

Þar var auðvitað að verki hún Drottins dýrðar Ásta Laufey, ofurvinkona og skemmtanastjóri Kópavogs eystri. Á faratækinu hékk líka fallegur pakki sem innihélt hvít silkiklæði og silfri skreytt talnaband.

Fjölskyldan mín fagra var búin að undirbúa morgunverðarhlaðborð úr bakaríinu og hefði með því tekist að metta að minnsta kosti fimm þúsund:

afmali3_zps32a15db8

Á borðinu má sjá glitta í fallegan sælgætis íkona af afmælisbarninu. Lærisveinarnir sitja glaðir hjá. Við morgunverðarborðið biðu mínu fleiri gjafir, til að mynda heil ósköp frá Séra Lúllu systur í Noregi og ný bók eftir Soffíu Bjarnadóttur sem gerist í Flatey (ég klára hana í kvöld!). Fjölskyldan var áður búin að gefa mér forláta ferðatösku svo að nú get ég farið að pakka niður.

Eftir sykurát, lattéþamb, gönguferð upp í leikskóla og smá kennsluundirbúning heima fyrir, hætti ég mér loks til Jerúsalem höfuðborgarsvæðisins: Borgarholtsskóla í Grafarvogi. Það er alltaf óþægilegt að eiga afmæli á virkum degi þegar Ásta er annars vegar. Oftar en ekki hefur hún skreytt stofuna mína svo illa að nemendur eru enn að týna upp í sig Nóakropp af borðunum hálfum mánuði seinna. Ég vonaði að ég væri óhult af því að ég var ekki að fara að kenna klukkan átta og því ekkert hægt að undirbúa kennslustofuna.

Eftir að hafa lagt brúðarbílnum skakkt (rýmisgreind fyrir neðan sjávarmál) í stæðið tölti ég með hnút í maganum (eða magasár síðan á "reunion") upp stigann og inn á kennarastofu. Þar var allt með kyrrum kjörum nema að borðið mitt var í rúst, eins og alltaf á afmælisdaginn minn. Ókey, það er í rúst flesta aðra daga en það er bara af því að ég vinn svo mikið. Clean desk, sick mind. Það sást ekki í lakkaða furuna fyrir Nóakroppi, rommkúlum, kókosbollum og pökkum! Enskudeildin hlóð á mig fötum í ræktina og nánir samstarfsmenn pökkuðu inn öllum mögulegum tegundum af sælgæti sem þeir gátu fundið úti í Bónus og gáfu Sólu sweet-tooth. Ég var varla búin að þakka fyrir mig og knúsa Ástu þegar hún sagðist þurfa að tala við mig í einrúmi. Hún var svo alvarleg á svipinn að magaopið herptist saman og kramdi litla Nóakroppið sem ætlaði að smeygja sér þar í gegn. Við strunsuðum beint inn í stofu 310 og þar var....SURPRISE! Ég á svolítið erfitt með eitthvað óvænt og þess vegna gerir Ásta sér far um að koma mér á óvart...og alltaf tekst það! Að sjá þessa krakka...

afmali5_zpsc3e9a7da

 ...ekki átti ég von á þessum elskum! Þau blöstuðu "Desperado" með Eagles (eitt af mínum uppáhalds), voru búin að skrifa falleg orð til mín á töfluna, baka og blása upp blöðrur! Svo sungu þau afmælissönginn og enduðu á því að syngja "Hafið eða fjöllin" - annað uppáhalds og virkilega "meaningful" lag fyrir mig á svo margan hátt. Lagið lærðu þau á youtube daginn áður og sungu svo listavel að jafnvel Siggi Björns hefði roðnað, hefði hann verið sú týpa sko. Já, þarna hefði Jóla farið að grenja ef hún væri ekki komin af breiðfirzkumslashvestfirzkum harðjöxlum langt aftur í ættir. Ég grét innan í mér, sem var ekki gott fyrir magasárið.

Eftir að hafa verið sett algjörlega úr jafnvægi tókst mér þó nokkurn veginn að leyna afmælinu fyrir "venjulegu" nemendunum (afmælisnemendurnir eru elítan okkar), halda haus, kenna eins og manneskja og sleppa úr skólanum nokkuð snemma (engir fundir, aldrei þessu vant).

 Sigrún sæta fór með mér í búð að redda efni í eftirrétt en auðvitað notuðum við tækifærið og fengum okkur sushi. Það er enginn afmælisdagur án sushi. Að venju er ég ekki með stórveislu (þó að um stórafmæli sé að ræða), heldur býð bara þeim allra nánustu í mat. Að óvenju var ég ekki með sushi í matinn, heldur HANGIKJÖT. Mér finnst hangikjet óhemju gott en fæ það bara í mesta lagi tvisvar á ári, þ.e. á jólum og páskum. Þar sem bróðir minn kallar mig oft Jólu fannst mér tilvalið að vera með jólaþema (samanber fæðingu frelsarans og allt það) og kom því gestum á óvart með hangikjöti og tilbehör í október. Ég fann falleg jólalög á youtube og þetta þurfti fólkið mitt að hlusta á yfir matnum. Allir komust í hátíðarskap og ekki skemmdi fyrir þegar fyrsti snjór vetrarins fór að falla seinna um kvöldið. Ég er greinilega beintengd, eins og ég hef alltaf haldið fram.

Gjafirnar héldu áfram að streyma inn og gestirnir með (tók minna eftir þeim síðarnefndu, ho ho). Þessi stelpa kom færandi hendi:

afmali2_zpsd3b2d09f

Fullt af dökku súkkulaði og forláta rauðvín frá krútturössunum Helgu, Hörpu og Jakob. Helga drakk reyndar allt rauðvínið um kvöldið en ég mun sitja næstum því ein að súkkulaðinu. Fríðskeggjaði faðir minn fyrir aftan Felgu fínu færði mér fagran blómvönd, bók, súkkulaði (hvað annað) og rauðvín. Tengdaforeldrar mínir komu líka færandi hendi og síðastur kom bróðir minn og fjölskyldan hans fagra með endalaust bland í poka, eins og þeirra er siður. Bjössi bró hélt uppi stuðinu með gítarleik, á meðan Erna mágkona sms-aði í allar áttir í leit að betra partý:

afmali_zps2e89a001

 

Fullkomni afmælisdagurinn endaði svo á því að ég sofnaði með nefið ofan í nýrri bók, eftir að hafa like-að allar fallegu afmæliskveðjurnar á facebook. Takk allir fyrir að hafa gert daginn minn góðan. Ég hlakka til þess að eiga aftur stórafmæli á næsta ári (engin pressa Ásta mín).

Sóla Jóla :)


Fimm mínútur!

Er ekki kominn tími á fimm mínútna færslu á ný? Skrifa í fimm mínútur og hætta svo? Það held ég nú.

Kennslan gengur vel, allt fullt af kennaranemum og þeir eru hæstánægðir með enskudeildina. Alltaf gaman að fá jákvæða endurgjöf á starfið frá öðrum en nemendum.

Ég er með bólgur við magaopið eftir skemmtilegt "reunion" í Stykkishólmi. Við hittumst alltaf á fimm ára fresti eins og frægt er og gerum eitthvað skemmtilegt yfir daginn, borðum saman um kvöldið og djúsum fram á nótt. Sumir taka alla helgina í þetta, en gamla hróið heldur greinilega ekki út einn dag. Fyrst fengum við fræðslu hjá Haraldi snillingi eldfjallafræðingi í safninu flotta, svo fórum við upp á Þingvelli í súpu og brauð hjá Summa og Hrafnhildi, þar á eftir í kirkju og hákarl hjá Hildibrandi í Bjarnarhöfn, því næst í Leir 7 að borða krækling og drekka hvítvín og að lokum til Heiðrúnar í Bókabúð Breiðafjarðar í meira nasl og vín. Flottur pakki! Klukkutími var gefinn í að græja sig fyrir kvöldið og svo var mætt í glæsilega forrétti og drykk hjá Grétu á Hótel Egilsen. Því næst skundað á næsta veitingastað, Plássið, þar sem var etið, drekkið og skemmt sér eitthvað fram eftir nóttu. Ætli brennivínið með hákarlinum, nokkrir snafsar og vínglös hafi ekki komið meltingunni í eitthvað uppnám? Samt var ekkert tekið mikið á því þannig lagað, enda dreyfðist þetta yfir langan tíma og ég var komin nokkuð snemma í koju. Ég gisti í Galdrahúsi bróður míns og fjölskyldu og átti góða nótt.

Ein mínúta eftir til þess að tala um fjölskylduna. Hjörtur er ánægður með rokið því að þá getur hann kite-að, Helga er á kafi í hugbúnaðarverkfræði í HR, Harpa er að flytja í nýja íbúð á Lidingö í Stokkhólmi (og Jakob auðvitað með henni), Björg stendur sig vel í MH og vinnu, Sigrún var í fyrstu samræmdu prófunum og fannst það gaman, Kristrún er seig í sundinu, Kisi var úti í nótt og Gunni sleikti á mér tærnar í morgun.

Time is up!

Sóla magasýra :)

 


Stormur og eldgos en annars ekkert að frétta

 Síðasta sunnudag byrjaði ég á bloggi sem ég náði svo ekki að klára. Svo krassaði tölvan hans Hjartar þannig að myndirnar sem áttu að skreyta bloggið eru ekki í boði í augnablikunu. Hendi inn því sem ég var búin að skrifa og sé hvort að eitthvað nýtt komi fram um helgina:

Hann Cristobal fellibylur leyfir okkur að njóta leifa sinna á sunnudegi og ég er að fílaða. Veðrið er svo leiðinlegt að börnin fá leyfi til þess að hanga fyrir framan sjónvarpið og mamman reynir á meðan að koma reiðu á óreiðuna sem alltaf er í hausnum í skólabyrjun. Undirbúningur kennslu, púsla saman tómstundum barnanna, spá í þetta og spá í hitt. Ég vaknaði snemma í morgun og núna rétt fyrir hádegi er ég nokkurn veginn búinn að átta mig á hvernig kennslunni verður hagað alla næstu viku, hvaða daga Kristrún verður í sundi og í fimleikum og að þriðjudagar verða uppteknir dagar fyrir Sigrúnu af því að klukkan hálftvö fer hún í básúnu, klukkan hálfþrjú færi hún í Leynileikhúsið ef það stangaðist ekki á við blakið sem byrjar klukkan þrjú og svo held ég byrjar dansinn klukkan fjögur (eða var það fimm?) sem gæti þá verið vesen af því að skátarnir eru klukkan sex. Þurfum eitthvað að endurskoða þessa þriðjudaga greinilega.  

Fyrsta haustpestin stakk sér niður í vikunni og með fyrstu kennsludögum og tveimur afmælisboðum hérna heima var prógrammið alveg massað og sveitt. Nú er logn á bænum en stormur og eldgos úti. Ég, Kristrún, Harpa og Jakob fengum hálsbólgu, höfuðverk og hor en sá pakki allur er á hröðu undanhaldi. Frumburður minn hélt upp á 16 ára afmælið sitt síðasta miðvikudag með því að bjóða sínum nánastu upp á sushi og hvítt og súkkulaðiköku og marengs í eftirrétt. Hún kom reyndar varla nálægt veisluundirbúningi en var hinn huggulegasti gestgjafi í hvítum kjól með bros á vör.

Það lítur út fyrir að hún haldi upp á 17 ára afmælið sitt í Suður-Ameríku því að áætluð AFS brottför er 5. eða 6. ágúst 2015! Mér finnst hræðilegt að hugsa til þess að ég eigi ekki eftir að hitta barnið mitt í heilt ár. Þess vegna reyni ég að hugsa ekki of mikið um það. Ég held að pabba hennar líði jafnvel verr en mér af því að hann á jú bara þetta eina barn á meðan ég get þó knúsað aðrar litlar stelpur þegar söknuðurinn er við það að bera mig ofurliði. Björgin mín, ég sakna þín nú þegar!

Ég sé reyndar ekki mikið af stúlkunni þessa dagana því að hún er mjög upptekin við það að vera MH busi. Hún fór til dæmis í busaferð til Stokkseyrar á föstudaginn og eftir tveggja tíma svefn þar var henni ekið rakleiðis til RÚV í Reykjavík til þess að taka þátt í Gettu betur búðum fyrir stelpur. Þar var hún alveg til átta í gærkvöld og var svo mætt klukkan níu í morgun aftur. Hún fór á sitt fyrsta framhaldsskólaball á afmælisdaginn sinn og svo eru tvö böll plönuð í næstu viku. Skilin á milli grunnskóla og framhaldsskóla ætla því að verða ansi skörp.

Anyways...daginn eftir afmæli Bjargar hélt Harpa upp á tveggja ára afmæli Jakobs. Ég gerði nú ekki mikið fyrir það afmæli nema að kaupa nokkrar kökur og auðvitað hjálpa til við að gera klárt, taka á móti gestum og ganga frá. Allt telur þetta í þreytubankann en á þeim tímapunkti var kvefið að ná sínum hápunkti. Enda fór það svo að gamla sofnaði klukkan 11 um kvöldið og svaf yfir sig til 8 um morguninn! Vekjaraklukkan var still á hálf sjö en hvorugt okkar hjónanna vaknaði við hana, þökk sé Bosch heyrnartólum sem við settum á okkur til þess að losna við hroturnar í hvoru öðru. 

Lengra komst ég ekki á sunnudegi enda þurfti ég að sinna krílunum mínum eitthvað líka. Birti þetta ekki á facebook enda var þetta bara nokkurs konar uppkast. Nenni þó ekki að skrifa nýtt.

Sóla sjaldanbloggari :) 


NÁMSKEIÐ Í NORWICH OG DANSKIR DAGAR

Færslurnar fátíðu markast af ferðalögum sumarsins - eins og svo oft áður. Helst hefði ég viljað gera Norwich ferðinni sérstök skil, enda merkileg ferð fyrir margar sakir, en sökum ferðaþreytu, andvaraleysis, kennsluundirbúnings, þvottafjalls og annarra hversdagslegra afsakana skeyti ég þessum tveimur tímamótaferðum saman í eina frásögn áður en minningarnar hverfa alveg í sortann.

Norwich ferðin var eiginlega farin að tilstuðlan Lilju enskukennara, sem þótti tími til þess komin að fá fleiri kollega sína í enskudeild Borgó til lags við sig og aðra námskeiðsfúsa framhaldsskólakennara landsins. Ég, Ásta og Íris erum búnar að vera á kafi í barneignum og fjölskyldustússi undanfarin 10-15 ár eða svo og höfum ekki tímt að fara langt frá skyldum eða teygja of mikið á óslítanlegum naflastrengjum. Þar sem yngsta barnið mitt var komið hátt á fimmta ár var ég orðin langtilkippilegust af mæðraþríeykinu heilaga. Ásta er sérskipuð strengjabrúða mín og þegar hún var komin um borð með sinn þrautseiga sannfæringarkraft var auðsótt mál að fá Írisi og Palla sem áhafnarmeðlimi. Seinni hluta sumars fór ég þó að fá aðskilnaðarkvíðakast og samviskubit (the female guilt) gagnvart börnunum og hlakkaði lítið til ferðarinnar.

Í stuttu máli tók það mig alveg þrjá til fjóra daga (af sjö) að læra að njóta þess að vera í burtu frá mínu venjubundna lífi og vera dálítið ég sjálf, hver svo sem ég sjálf er (þegar stórt er spurt....?). Það er ekki eins og ég hafi skilið þau eftir hjá ósjálfbjarga föður. Hann getur allt sem ég get gert og rúmlega það, þó að hann þykist reyndar ekki kunna að segja börnunum góðar sögur. Þær voru ósköp glaðar þegar ég kom til baka og sögðu að best væri að knúsa mig af því að ég væri með heitustu og mýkstu húðina í heimi (ekki eins kafloðin og pabbinn greinilega), en að öðru leyti liðu þær engan skort. Hjörtur fór í sitt kitesurfing þegar vindar blésu hagstætt og Helga stóra systir passaði. Mér leið vel að vita að mín var ekki of sárt saknað, enda er víst fullt af ómissandi fólki í kirkjugarðinum. Kannski pínu misheppnað hjá mér að gera mig ekki ómissandi á heimilinu, en á sama tíma hughreystandi og hvetur mig til frekari dáða.

Stefnan var að hvíla sig frá amstri dagsins með því að liggja uppi í rúmi með góða bók á kvöldin og að sjálfsögðu fara yfir glósur námskeiðsins. Já, fara snemma að sofa og vakna úthvíld. Ég gleymdi að í breytunni var Ásta sósíómeiníak sem sá til þess að við vorum alltaf saman og blönduðum meira að segja góðu geði við aðra þátttakendur. Við stelpurnar í enskudeildinni vorum saman frá morgni til kvölds en Palli tók sér ósjaldan hlé yfir daginn til þess að vera í svokallaðri "núvitund" - sem hann útfærði með því að fara einn í göngutúr og taka myndir eða liggja inni á herbergi með einn kaldan á kantinum. Að endingu saknaði hann okkar ávallt "mjög, mjög mikið" (quote) og snæddi með okkur kvöldverð á hinum og þessum stöðum í Norwich.  

Ég var ekki vel undirbúin fyrir námskeiðið sjálft. Ég vissi ca. að það héti "Bringing literature alive in the classroom" og leist vel á það, enda eru bókmenntir og líflegar kennsluaðferðir mitt helsta áhugasvið í starfinu. Nokkrum dögum áður en námskeiðið átti að hefjast spurði Lilja mig hvort að ég væri búin að lesa King Lear eftir Shakespeare. I came off mountains og hafði sem sagt ekki hugmynd um að námskeiðið krefðist einhvers undirbúnings. Ekki komst ég höndum yfir leikritið og því varð ég mér út um BBC útfærslu af leikritinu á myndrænu formi sem ég kíkti aðeins á í flugvélinni á leiðinni út. Ekki kom að sök að vera illa lesin því að í ljós kom að við áttum að vera búin að lesa As You Like It, A Midsummer Night's Dream og Jerusalem fyrir námskeiðið. Fyrir mistök láðist að geta þess og því vorum við öll jafn ólesin. Hjúkkit.

Námskeiðið var þannig sett upp að á morgnana vorum við í nokkurs konar hringborðsumræðum, sem breyttust að vísu fljótlega í hringborðseinræðu því að einum kennaranum þótti meira gaman að tala en öðrum. Í fyrstu fannst mér þetta frekar ópraktískt og leiðinlegt, en svo vandist ég því að sitja og njóta þess að hlusta án þess að þurfa að gera neitt. Þetta var ekki til prófs og því urðu glósurnar um það bil svona á hverjum degi:

IMG_6934_zps8e3f673c

Þetta er víst mitt "stream of consciousness" því að ég fékk einhvern tímann gagnrýni í grunnskóla fyrir "andlitskrot" á öllum skólabókum. Ég ætla greinilega ekki að þroskast upp úr þessu.

Anyhow, eftir hádegi var töluvert meira "action" og þá gafst enginn tími fyrir krot og kaffisyfju. Hópurinn var fluttur í "Arts hub", hvar farið var í alls kyns æfingar og ísbrjóta, túlkun á texta og leiklistarpælingar. Sumt af þessu var gagnlegt og jafnvel hægt að yfirfæra á kennsluna, en annað hefði hentað leiklistarkennurum á meistarastigi betur en okkur. Ég naut þessa hluta námskeiðsins meira en umræðnanna (einræðunnar) fyrir hádegi, jafnvel þó að ég hafi óttast í fyrstu að gera mig að fífli.

Mér tókst reyndar að gera mig að fífli fyrsta daginn, alveg óvart. Ein æfingin fólst í því að fólk átti að para sig saman og fyrir algjöra tilviljun (liar liar) lenti ég með Ástu. Næstu fyrirmælin voru á þann veg að annar aðilinn átti að segja hinum eitthvað eitt um sjálfan sig. Ég hallaði mér leyndardómsfull að Ástu, leit hana ástþrungnum augum og hvíslaði: "I am very sexy." Að sjálfsögðu fékk hún hláturskast þegar hún heyrði þessi öfugmæli sem var auðvitað "mission accomplished" hjá mér. Áður en mér tókst að finna eitthvað annað skynsamlegra og hversdagslegra eins og "I like yoga" eða "I can't live without latté" komu næstu fyrirmæli frá kennaranum, sem voru þau að breyta mér í myndastyttu sem passaði við fyrri ummæli. Ekki þýddi að hreyfa mótmælum við Ástu sem auðvitað sá sér leik á borði að stríða vinkonu sinni ofurlítið. Hún setti mig því upp í ægilega sexý myndastyttu á meðan ég táraðist af skömm og hlátri. Viðbrögðin voru eftir því - kennarinn sagði hissa, jafnvel glaður, en frústreraður: "There's always this one couple in the class..." Ekki tók nú betra við þegar Ásta átti að leika sama leik. Hún hvíslaði kankvís: "I am not a whore." Þá var mér allri lokið því að nú þurfti ég að gera mjög sérstaka myndastyttu úr Ástu OG segja hvað hún táknaði. Þetta var fyndið, vandræðalegt....ógleymanlegt. Þarna var tónninn settur.

Það var létt yfir þessum 15 manna hópi enskukennara. Ég kannaðist við örfáa en eftir smá spjall var búið að finna tengingar alls staðar. Eins og áður sagði var ég 90% tímans með Borgópakkinu en einu sinni fórum við flest út að borða í "Sunday Roast" og svo kikkuðu eldhúspartýin á kvöldin ágætlega inn. Það var ekkert hangið á börunum á kvöldin þar sem pint kostaði a.m.k. 4 pund, en ég staldraði við í eldhúsinu í nokkur kvöld og kynntist þar aðallega kennurunum utan af landi og svo auðvitað formanni FEKI sem er frábær manneskja. Hér fyrir neðan er hluti af hópnum að hlæja að þýðingu eðalfrænda míns á orðinu "selfie" sem er "miga" á íslensku. Það orð var mikið notað í ferðinni:

IMG_6819_zps6a0800ea

Hitt orðið sem ég lærði í ferðinni var "demob happy" sem kennarinn notaði yfir okkur síðasta daginn þegar við vorum ógeðslega spennt að vera að klára námskeiðið og fá viðurkenningarskjal.

Við höfðum í sjálfu sér ekki mjög mikinn frítíma í þessari ferð en vorum dugleg að skella okkur í bæinn með leigubíl þegar skóla lauk á daginn. Þá var auðvitað verslað smá og svo farið út að borða. Besta máltíðin var líklega á líbönskum veitingastað sem lét lítið yfir sér en reyndist vera ótrúlega ferskur og spennandi. Þar fékkst líka "dolma" sem er í uppáhaldi hjá mér. Það eina sem við Ásta klikkuðum á var að fá okkur "crispy duck" á kínverskum en þar sem við stefnum á að fara til útlanda á námskeið alla vega annað hvert ár eigum við svo sannarlega tíma til stefnu. Svona utanlandsferðir kosta þó sitt, eins óhagstæð og krónan er, og því kíktum við reglulega í kjörbúðina til þess að afla fanga, eins og sést glöggt á þessari mynd:

IMG_6835_zps9aef9d3c

Ásta veit að 500 punda sekt liggur við því að drekka á almannafæri en uppreisnarseggirnir í enskudeildinni létu aðvaranir hennar og fordæmingu sem vind um eyrun þjóta.

Ég var alveg að fíla Norwich. Campusinn var mjög nýlegur og flottur og borgin sjálf virtist mjög snyrtileg. Ég hafði það á tilfinningunni að bæjarráð hefði úr talsverðum peningum að moða. Ég fékk reyndar þessa tilfinningu líka í London. Þegar ég bjó þar síðast veturinn '95-'96 fannst mér margt svo gamaldags og úr sér gengið, eins og til dæmis bara almenningsklósett. Nú finnst mér Tjallinn hafa forskot á Íslendinginn. Eflaust hefur margt verið tekið í gegn í tengslum við Ólympíuleikana en fleira hefur kannski komið til. Ójá, by the way. Hópurinn fór sem sagt saman til London til þess að sjá King Lear í Shakespeare globe. Við fórum snemma af stað og þrömmuðum um bæinn allan daginn (af því að það rímar) og ég man ekki eftir eins mörgum á ferð um Oxford Street og einmitt þá. Gengin upp að hnjám þurftum við svo að standa í þrjá tíma og horfa á leikritið um kvöldið. Ekki alveg minn tebolli, því að í ofanálag stóð ég til hliðar við sviðið og sá sjaldnast framan í leikarana. Þetta var eflaust góð sýning en ég náði engri tengingu í þetta sinn. Þeir sem höfðu séð uppfærsluna heima voru reyndar á því að þessi sýning hefði verið miklu áhugaverðari. Við vorum ekki komin heim fyrr en hálf þrjú um nóttina, ansi lúin.

Ég sem sagt ætlaði að hvíla mig og lesa í þessari ferð en í staðinn vaknaði ég alltaf klukkan hálf sjö á morgnana (nema einu sinni) til þess að skokka úti í ensku sveitasælunni með Ástu og Lilju. Ég hefði svo sannarlega ekki viljað missa af því. Hvað er yndislegra en að stoppa hjá ösnum (öðrum en Palla) og smáhestum, hlaupa nokkra hringi í kringum lítið veiðivatn og heilsa hundafólkinu á morgnana? Fara svo í sturtu, drekka instant kaffi og borða Bónus múslí fyrir námskeið. Toppurinn. Hér er Ásta með "her little pony" (sem var ekta og alls ekki phony):

IMG_6887_zps598404a6

Veit ekki hvort þeirra er sætara, svei mér þá!

Úthvíld en samt illa sofin hélt svo enskudeildin heim til Íslands, örlítið fróðari en aðallega mun betur tengd, bæði innbyrðis og útbyrðis (við aðra skóla). Öflugasta (og hógværasta) enskudeild landsins yljar sér við minningarnar þangað til næst.

Núbb...þetta er að verða svolítið langt og Danskir dagar eftir...and I haven't got all night. Klassískir Danskir...ég á mjög erfitt með að skrifa Danskir með stórum staf af því að -sk reglan er svo greypt í huga minn og fráfarandi fingur. En dagarnir heitar Danskir og því verða þeir Danskir. Ég var rétt búin að taka upp úr Norwich töskunni þegar ég fór að pakka niður aftur fyrir Stykkiz. Við komum þangað í skítaveðri á föstudaginn en það var í góðu lagi af því að Kristbjörg mín elskuleg var búin að bjóða okkur í mat. Það var hið skemmtilegasta matarboð með vinafólki frá Grindavík sem auðvelt var að kynnast og eiga samleið með. Daginn eftir var glampandi sól en töluverður kaldur vindur. Eiginmaðurinn fór einn að kitesurfa um allan Breiðafjörð á meðan ég rölti með stelpurnar niður á hátíðarsvæðið og tók staðlaða hoppukastalapakkann á þetta. Eftir dágóðan tíma í biðröðum og fimm mínútna hopp hér og þar var Kristrún orðin svo þreytt (við fórum seint að sofa kvöldið áður) að við fórum heim að hvíla okkur. Reyndar teygðist ótrúlega mikið á handleggjunum mínum á leiðinni því að í öðru hvoru skrefi hitt ég Hólmara sem ég bara varð að tala við en það fannst litlunum gjörsamlega óþolandi og toguðu í mig eins fast og þær gátu. Mér fannst það hins vegar dásamlegt og rúmlega það en gat þó sett mig í þeirra spor því að svona líður mér þegar ég er á ferð með Ástu um stórhöfuðborgarsvæðið. Hún þekkir gjörsamlega alla. Og ef hún þekkir þá ekki, kynnist þeim hún á staðnum. Margt er ólíkt með Síams. Og þess vegna er Ásta með svona langa handleggi.

Um kvöldið hófst uppáhaldstíminn minn, sem er myrkrið og brekkusöngurinn. Við komum við hjá bróður mínum, Árna Johnsen okkar Hólmara (ekki viss um að hann sé hrifinn af samlíkingunni), og röltum okkur niður í bæ og settumst nálægt sviðinu með alla hersinguna. Herbert Guðmundsson sjálfur var að hita upp fyrir Bjössa bró og naut ég þess auðvitað í botn að sjá og heyra 80's goðið performera. Ég hafði ekki séð hann síðan um miðjan tíunda áratuginn þegar hann var í bóksölubransanum og keypti pulsu hjá mér á Bensó á milli ferða. Lagið "Svaraðu kallinu" hitti sérstaklega í mark hjá unglingnum mínum, en það lag hafði Bjössi oft sungið en breytt textanum örlítið, sem sagt í "Svaraðu kallinum" þegar hann vildi að við svöruðum pabba gamla, annað hvort í síma eða síendurteknum spurningum hans um hvort hann mætti fá meira whiskey. Kribba var auðvitað á staðnum líka og rifjaði upp glæsilega danstakta frá Bensóárunum sem endaði með því að hún og Helga voru búnar að koma af stað rosalegri dansbylgju fyrir aftan sig. Hér sjást nokkrir þaulvanir, kappklæddir dansarar:

IMG_0969_zps82b66315

Eftir upphitun Hebba tóku Bjössi, Zúkka Pé og Njalli (Vinir vors og blóma meðlimir) við keflinu og héldu uppi stuðinu nánast fram að miðnætti ásamt nokkrum frábærum gestasöngvurum. Óskalagið mitt komst í gegn, en Bjössi er búin að gera mig að algjörum sökker fyrir laginu "Ég er kominn heim." Lag sumarsins hjá mér - takk Bjössi! Hér er flott mynd af bróður mínum sem sýnir og sannar að hann er sannur Svefneyingur, dökkur á brún og brá:

IMG_0988_zps22895b21

Rétt fyrir miðnætti tók svo glamúrgosinn Páll Óskar og tveir pallíettudansarar við skemmtuninni og trylltu lýðinn. Þá var ekki lengur vært upp við sviðið með litla krakka og því færðum við okkur á gamla góða staðinn okkar þar sem Hjaltalínshúsið stóð. 10 mínútum eftir miðnætti hófst flugeldasýningin og hún var svo miklu betri en í fyrra. Hún reyndar misfórst eitthvað í fyrra, en þessi var í alvöru mjög flott. Samkvæmt staðli sturlaðist litla barnið mitt úr hræðslu og grenjaði í kapp við hvellina í rakettunum, en ég held í þá von að á næsta ári verði hugrekkið orðið örlítið meira. Samt eitthvað notalegt við þessa sömu dagskrá alltaf á Dönskum dögum: Hoppukastalar, brekkusöngur, flugeldasýning, barnið fríkar út. Djók - má ekki gera grín að ótta litla barnsins míns. En ég held að hún muni reyndar hafa húmor fyrir þessu síðar.

Eftir flugeldasýninguna bauðst mér að fara á ballið með Páli Óskari. Tja...sko ekki með honum sjálfum....but you know what I mean. Auðvitað fór ég ekki frekar en vanalega, en mágkona mín lét loksins verða af því og sagði að við yrðum að fara saman næst. Ég lá hvort eð er andvaka til rúmlega þrjú þannig að það hefði verið alveg eins gott að nota tímann í djamm.

Daginn eftir vakti ég kallinn snemma til þess að fara með mér, Helgu og vinkonu hennar í smá kveðjusiglingu um Breiðafjörðinn fagra. Sjórinn var spegilsléttur og sól skein í heiði - ekta svona veður til þess að trega sumarfríið sem var að líða undir lok og lyfta sálinni um leið. Eðalfleytan okkar reyndist vera rafmagnslaus en eftir japl og jaml og fuður var sjálfur Gummi Amlín vakinn upp til þess að redda starti. Við sigldum að Dímonarklökkum og þar sáum við að breiðfirzkar kindur gefa tíbetzkum fjallageitum ekkert eftir. Grasið er alltaf grænna hinum megin og ef myndin prentast vel sést að kindurnar tvær víla ekki fyrir sér að bíta kjarngott grasið í snarbrattri hlíð með þrítugan hamarinn fyrir neðan sig:

IMG_1081_zpsd69ae71a

Mmmeeejááá....svona er þetta. Ég tók alveg fullt af myndum af höfninni í Stykkishólmi á meðan ég beið eftir að Sólunni væri startað, en ég ætla að eiga þær til góða.  

Fleira er kannski ekki að frétta nema það að við byrjum óvenju seint að kenna í ár. Ég hef varið dögunum í undirbúning en með börn og búskap heima hefur fókusinn kannski ekki alltaf verið í lagi. Ég er spennt fyrir nýju skólaári en bæði kvíði fyrir og hlakka til rútínunnar. Þessar tvær síðustu vikur í ágúst eru líklega mest "busy" vikur ársins. Börnin að byrja í tómstundum, ég að byrja að kenna, afmæli hjá Björgu...held að jólin séu mun skárri hvað þetta varðar. En ég prófaði svolítið sniðugt í gær, sko. Frændi hans Hjartar er með heilun, jóga og einhverja KCR aðferð og blah til þess að koma fólki í gott líkamlegt og andlegt stand. Hann sagðist geta læknað mig af verknum í ilinni og mjöðminni sem ég fæ af því að hlaupa. Ég lét verða af því að prófa einn tíma hjá honum í gær og það var alveg sérstök upplifun. Ég er búin að vera í áskrift hjá nokkrum sjúkraþjálfurum í gegnum tíðina en aldrei fengið svona meðferð eða liðið svona undarlega eftir tímann. Mér fannst ég hálfpartinn vera máttlaus og hálfpartinn svífa það sem eftir lifði kvölds. Ekki er ég læknuð en ég ætla að prófa að fara aftur. Nú er mottóið að vera með opnari huga gagnvart nýjum hlutum. Ég prófaði meira að segja crossfit síðasta föstudag. Hentar mér líklega ekki því að kappið myndi fljótt bera mig ofurliði. Held mig við tabata hjá honum Óla mínum.  

Sjæt...nú er ég búin að blogga fyrir allt haustið. Harpa og Jakob koma á föstudaginn (jibbý), okkur er boðið í svakalegt afmælispartý þá um kvöldið (jibbý) og svo ætla ég að fylgjast með unglingnum mínum hlaupa 10 km á laugardaginn og spila á básúnuna sína úti um allan bæ með Sextett SK (jibbý). Ég fór í strípur og klippingu í dag til þess að vera tilbúin í átökin. You like?

USA004

Peace out, man.

Zola Zuckerberg :)


Jibbýjúlí 2014

Hallærislegur bloggtitill þetta en ég vil vitna í gamlan vin minn, Huey Lewis með þessum orðum: "It's hip to be square!"

Það er langt um liðið síðan síðast þegar ég var í Flatey í lok júní og byrjun júlí í roki og rigningu. Síðan tóku við tíu góðir dagar í Stykkishólmi, í misjöfnu veðri þó. Ég man ekki lengur hvað við gerðum frá degi til dags en mig minnir þó að félagslífið hafi verið óvenju gott. Ég hitti náttúrulega Dísu skvísu og Maju pæju - það er bara fastur liður. Svo hékk ég töluvert með yngri deildinni, t.d. Kribbu cray cray sem vann dag og nótt við að koma nýja húsinu í gott stand, Sólveigu sykurpúða sem eyddi einni helgi með fjölskyldunni í Stykkiz, Bjöggó Österreich sem skottaðist út um allan bæ á sínum fráu fótum og Höllu Dís sem skokkaði með frænku sinni upp að ruslahaugum og til baka oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, já og jafnvel oftar en þrisvar. En þegar fjórði rigningardagurinn var runninn upp og ég búin að prófa öll kaffihús og söfn í bænum var kominn tími til þess að hvíla Hólminn og skella sér í bæinn. Höfuðborgarsvæðið er aðeins stærra en Stykkishólmur og örlítið meiri afþreying í boði þegar veður er vott. Hér er ég enn en á laugardaginn kíkjum við í 2-3 daga í Hólminn og hittum vonandi alla þá sem ég taldi upp hér á undan og fleiri í viðbót. Það er gott að vera í Hólminum "where everybody knows your name" og anda að sér æskuminningunum. Vel á minnst, ég komst að því að besta kaffið fæst í Sjávarpakkhúsinu og ekki orð um það meir. Og já...ég fékk líka að kynnast krílinu hennar Kristbjargar örlítið betur og hún er sko ekki barnabarn ömmu sinnar Hrefnu Markan fyrir ekki neitt. Þrælklár, orkumikil, sjálfstæð og sniðug. Hér eru hetjurnar þrjár á ferð um bæinn með Jólrúnu á góðviðrisdegi í júlí í Hólminum fagra:

10401507_10152739576420579_1409434395419011581_n_zps5bb88869

 Kristrún Eir, Sigrún Björk og Íris Ísafold. Flott teymi!

Við erum sum sé búin að vera tvær og hálfa viku í bænum og það er rosalega langur tími fyrir fjölskyldu sem er vön að vera á ferð og flugi á sumrin. En þetta er búinn að vera ótrúlega góður tími og mér hefur bara ekki leiðst neitt - þvert á móti höfum við alltaf fundið upp á einhverju skemmtilegu að gera á hverjum degi. Fyrir tilviljun var mér bent á gott sundnámskeið í Breiðholtslaug þannig að ég skráði báðar litlurnar á það. Flesta morgna höfum við því mætt í laugina á morgnana, sem er frábær byrjun á deginum. Þetta er tveggja vikna námskeið og það var fyrst núna á þriðjudeginum síðasta sem að sólin skein aðeins á okkur í lauginni. Núna erum við stelpurnar allar komnar með gott sundbolafar og gömul sólbrúnka frá því snemma í júní farin að líta aftur dagsins ljós.  

Eflaust er veðrið ekki eina ástæðan fyrir því að við höfum ekki verið á flandri um landið nýlega. Björg er heima að vinna og vill ekki sleppa einum einasta degi í vinnunni þó að henni bjóðist það. Það stefnir allt í að hún verði vinnualki eins og pabbi hennar...og mamma. Hún er að vinna á kaffihúsinu Víkinni niðri á Granda og líkar lífið þar vel undir stjórn pabba síns. Hún er orðin vaktstjóri og kaffimeistari staðarins þannig að framtíðin í veitingabransanum er björt. En það er nú kannski ekki víst að hún ætli að gera þjónsstarfið að ævistarfi. Hér er duglega stelpan mín að skenkja litlu systrunum nýkreistan appelsínusafa úti á palli í blíðunni:

10398675_10152739576395579_3169421501313761774_n_zpsbb561b21

 Sigrún, Björg og Kristrún. Mæli með ferð í Sjóminjasafnið og svo kaffi og kökur í Víkinni á eftir. Eða fiskisúpunni - það er sko öflug súpa!! Blogg skal ekki vanmeta sem leið til þess að auglýsa :)

Eitt af því skemmtilegasta sem við erum búin að gera í júlí var að fara til Vestmannaeyja. Pabbi sagði mér í Flatey að hann hefði aldrei komið til Vestmannaeyja. Mér þótti það heldur "lellett" ("lélegt" á pabbamáli) og ákvað að úr þessu yrði bætt hið snarasta. Svo kom í ljós að Óli Geir djúníor (Bjössabróson) hafði heldur ekki komið til Eyja sem var auðvitað tvöföld gleði og ánægja. Við fórum því í dagsferð til þessa dásamlega fallega og skemmtilega staðar. Það sem gladdi mig mest voru breytingarnar á sundlauginni og ég held bara svei mér þá að þetta sé uppáhaldssundlaugin mín á öllu landinu. Þá er sko mikið sagt því að þær eru margar góðar. Söfnin Eldheimar og Sæheimar voru líka sérlega fjölskylduvæn söfn, ásamt spranginu og bara umhverfinu öllu. Því oftar sem ég kem til Eyja, því hrifnari verð ég af bænum, sögunni og landslaginu. Allir voru í góðum fíling og Sigrún og Óli Geir hlógu nánast alla ferðina. Hér er Óli að klappa lunda í Sæheimum:

1610767_10152739576385579_3314668490833423861_n_zps5ba20326

 Óli, léttur í lund(a)

Hér komu svo Norsararnir Svala, Gunni og Madelen og nutu þess að vera ekki að kafna úr hita alla daga. Maður skyldi ekki vanmeta íslenskt loftslag og ofmeta hitann og rakann í útlöndum. Það var gott að hitta þau aftur og Lúlla sys er heppin að hafa þau á kantinum í Noregi. Henni gengur vel í prestsstarfinu og var alveg svakalega fljót að ná tökum á norskunni og umhverfinu öllu. Þetta er sko ekki öllum gefið og það er ekki að spyrja að dirfskunni og dugnaðinum í henni systur minni. Við erum að spá í Skandinavíuför á næsta ári og þá væri gaman að eyða smá tíma í Svíþjóð og smá tíma í Noregi. Við sjáum hvað setur.  

Samkvæmt plani ættum við að vera í Stykkishólmi núna en smá töf varð á löndun þegar það "uppgötvaðist" að tengdamamma mín yrði sjötug á morgun (1. ágúst). Það verður því svaka partý á morgun með nánustu fjölskyldu - kokkur og læti. Planið er svo að henda í töskur á laugardagsmorgni og bruna á vit ævintýranna í Stykkishólmi. Elskulega mágkona mín og Kribba cray cray ætla að kíkja með mér á Sjávarpakkhúsið um kvöldið og fá sér einn...kaffi. Með froðu.

Heyrðu já já, eitt að lokum. Ég er kona með markmið. Ég er svolítið eins og systir mín. Ef ég ætla mér að verða Íslandsmeistari í einhverju þá verð ég það. Hún varð Íslandsmeistari í júdó, vaxtarrækt og fitness. Ég varð Íslandsmeistari í tónlist. 80's tónlist. Í júlí. Klapp klapp.

eighties_zps1e78d52b

 

Eigið góða Verslunarmannahelgi!

Sóla Íslandsmeistari :) 

PS Næst verður bloggað um ferð með fjórum enskukennurum til Norwich. Stay tuned! 


Flateyjarfærslan 2014

Eirðarleysið var um það bil að heltaka mig þegar mér datt allt einu í hug að skrifa nokkur orð um Flateyjardvölina 2014. Hér sit ég því í stofunni í Bræðraminni með Viking Lite á kantinum og klukkan ekki orðin tvö! Ég er búin að eyða morgninum í að týna til fötin af börnunum úti um allt hús, flokka í hreint og óhreint og sópa aðeins og snurfusa. Aðeins að vinna mér í haginn fyrir morgundaginn þegar við þurfum að vakna í fyrra fallinu, sótthreinsa húsið og taka Baldur yfir hálfan Breiðafjörð, "alla" leið til Stykkishólms.

Þótt að veðrið fari ekki í sögu- eða gestabækurnar sem það allra besta í Flatey á ég erfitt með að kvarta of mikið. Helgarveðrið olli svolitlum vonbrigðum af því að ekki var eins mikil sól og logn og spáð hafði verið, en rigningin og rokið síðustu daga stemmir nokkurn veginn við yr.no – og er jafnvel heldur umfangsminna ef eitthvað er. Það er til dæmis alveg þurrt í dag, en ég giska á að um leið og við förum út í labbitúr komi góð demba.

Krakkarnir eru búnir að vera óvenju iðnir í innileikjum í dag og vilja ekki heyra á það minnst að fara út í göngutúr. Sigrún er komin á kaf í að flétta vinabönd og Kristrún og Halldór eru í einhverjum leik með fígúrum sem þau bjuggu til úr kubbum og spýtum. Seinni partinn í gær, eftir að hafa blotnað vel úti í einni mestu rigningu sem ég hef séð í Flatey, fengu þau langan tíma í i-padnum þannig að hann er aðeins hvíldur í dag.

Við komum hérna 9 manns síðasta föstudagseftirmiðdag, eftir góða ferð í Bónus í Stykkishólmi þar sem tvær innkaupakerrur voru fylltar af mat. Helga og Björg, ásamt Guðrúnu Bjargarvinkonu, voru hér um helgina og líkaði vel, að því er ég best veit. Þær voru duglegar að leggja sig um miðjan dag, en áttu líka sterka innkomu í miðaleik Sólrúnar (sem saminn var af Björgu) á laugardagskvöldinu og svo í pub quiz í Bryggjubúðinni. Við ætluðum öll að vera eitt lið en þar sem ekki máttu vera fleiri en fjórir í hverju liði ákváðum við að hafa liðsfélagana úr sigurliðinu frá því í fyrra í sama liði og svo mynduðu Guðrún, Helga, Ástþór og Haraldur annað lið. Í sigurliðinu annað árið í röð voru því ég, Björg, pabbi og Halla Dís ofurfrænka. Lísa, sú sem samdi spurningarnar, hafði ætlað sér að nota sömu spurningar og í fyrra en þegar hún sá pabba koma með Baldri á föstudaginn gerði hún sér grein fyrir því að þarna var á ferð sigurvegarinn frá því í fyrra (legend!). Því eyddi hún allri nóttinni í að semja 20 nýjar spurningar um Flatey og ýmislegt annað spennandi. Úr varð æsispennandi keppni sem lyktaði með sigri Bræðraminnisgáfumennanna annað árið í röð. Í öðru sæti varð fólkið á Vegamótum og bronsið hlaut útibú Bræðraminnis, þ.e. Helga og co. Aftur var forláta rauðvínsflaska í verðlaun auk verðlaunaskjals og súkkulaðis sem börnin á staðnum voru fljót að hakka í sig. Rauðvínsflöskunni var einnig slátrað undurhratt af meðlimum gull- og bronsliðsins. Eftir sigurinn skunduðu svo allir niður á Saltbarinn og náðu einum köldum af krana áður en lokað var á miðnætti. Helga og pabbi héldu svo uppi hálftíma söngstund heima í Bræðraminni en þá voru allir orðnir ofurþreyttir (enda sumir "bara" búnir að leggja sig í þrjá tíma yfir daginn) og fóru að sofa.

Á sunnudeginum var ágætis veður til sjósóknar og þá var auðvitað farið á blöðruna frægu og þorskur dreginn úr sjó. Ég var heima í rólegheitunum með Kristrúnu á meðan allir hinir íklæddust fjölbreyttu blautbúningasafni Hjartar og þeyttust eftir haffletinum og jafnvel lóðrétt ofan í hann. Samkvæmt matseðli var steiktur þorskur í kvöldmatinn og ekki tók langan tíma að ná nokkrum golþorskum upp í bátinn. Eftir góða leggju hjá stelpunum og skippernum fékk fiskurinn að synda á ný – í smjöri, raspi og remúlaði.  Toppurinn á tilverunni var svo auðvitað Royal búðingur a la Björg Steinunn. Klassíker sem aldrei má vanta í Flatey. Það var örlítill tregi í mér þegar ég kvaddi stóru stelpurnar þrjár á sunnudagskvöldið, en svona er víst lífið: Stóru skólabörnin þurfa að vinna fyrir sér. Helga er í húspössun enn á ný og Björg skiptist á að njóta lystisemda pabba síns og gourmet eldamennsku stóru systur. Björg og kettirnir eru svo sannarlega heppin að eiga góða að.

Þó að fámennara hafi verið í kotinu síðustu daga hefur samt verið gott að vera í Flatey. Mér er lífsins ómögulegt að muna hvað við gerðum á mánudaginn, annað en að elda góðan mat og lesa góðar bækur. Ég var ekki lengi að klára Afleggjarann eftir Auði Evu Ólafsdóttur og greip þá í bókina Insjallah  eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur. Svo sannarlega bækur af ólíkum toga en fínar aflestrar, báðar tvær. Annars hef ég ekki mikla eirð í mér til þess að lesa mikið í einu. Mér finnst ég oft vera að svíkjast um í móðurhlutverkinu ef ég er ekki að hafa ofan af fyrir börnunum og viðra þau. Nú rifjast það reyndar upp fyrir mér að veðrið á mánudaginn var alveg skaplegt og þá gengum við hringinn í kringum eyna og kíktum á tippakallinn á miðri leið. Ekki það að ég þurfi að færa honum fórnir lengur, enda hætt barneignum og farin að njóta þess að eiga örlítið stálpuð börn. Minnistæðast úr þeirri ferð er líklegast sú uppgötvun að Kristrún er að verða stór stelpa og klöngraðist nánast alla þýfðu leiðina án þess að kvarta. Í restina kom reyndar hellirigning og þá var gott að komast heim og hafa það notalegt í hlýjunni í Bræðraminni. Um kvöldið hakkaði Hjörtur afganginn af fisknum með gömlu hakkavél ömmu sinnar á Patró og í kvöldmat voru bestu fiskibollur í heimi, auðvitað samkvæmt plani. Hér hleypur maður ekki út í Bónus eftir einhverju nýmeti, sko. Um kvöldið fengum við góða gesti úr Græna-Garði og börnin fóru ekki að sofa fyrr en rétt fyrir miðnætti. Fröken árrisul vaknaði ekki fyrr en klukkan tíu morguninn eftir, fyrst manna auðvitað, þannig að það var ekki auðvelt að koma börnunum í háttinn í gærkvöld.

Reyndar var búið að tannbursta og láta alla pissa (nema Hjört og pabba) klukkan rúmlega átta um kvöldið svo að það gæfist góður tími til þess að lesa Bróðir minn ljónshjarta og segja einhverjar skemmtilegar sögur. Spennan eykst smátt og smátt hjá Lindgren og vinum og við enduðum á því að fatta að Húbert var ekki svikarinn, heldur Josse! Herregud! Rea. Sem fyrr var mikil pressa á mig að segja sögur og þá helst draugasögur, en ég var búin að vera treg til allan tímann. Ég sagði Sigrúnu og Halldóri Ásgeiri frá frænku þeirra sem var ansi kokhraust og vildi fá hressandi hryllingssögu frá Sólu sögukonu. Í bæði skiptin (með löngu millibili) varð frænkan svo hrædd að hún grét og vildi fara heim til mömmu. Þetta fannst Sigrúnu og Halldóri bara fyndið og gerðu óspart grín að þessari frænku sinni sem virtist vera algjör skræfa undir hörðu yfirborðinu.  Nú jæja, eftir mikið suð ákvað ég að segja eina milda draugasögu sem endaði afskaplega vel. Draugurinn reyndist ekki vera draugur, heldur pabbi hans Óla afa (þetta var saga úr fortíðarflateyþegarafivarungur...) og eftir draugasöguna sagði ég bjánalega sögu um banana og sígarettu, að ósk barnanna. Vögguvísurnar voru svo sungnar í rokkuðum stíl (rock-a-bye-baby) sem endaði með hörkudansi allra viðstaddra úti á dúandi gólfi suðurloftsins. Ég hélt því að öll börn hefðu gengið glöð og gleymin til hvílu stuttu síðar.

Nóttin reyndist þó frekar erfið því að áður en fiskur náði að draga andann kom frændi Hjartar niður og vildi fara heim. Jamm, svona er þetta alltaf þegar ég segi frændfólki Hjartar draugasögur. Hjörtur er sjálfur lítið fyrir að láta bregða sér (I‘ve learnt the hard way) og kannski það eigi bara við alla hans ætt. Það er nú annað en breiðfirzku harðjaxlagenin...hmmm.... Ég og Hjörtur skiptumst á að kúra hjá litla knúsudýrinu alla nóttina, en svo kom sem betur fer nýr dagur með nýjum fyrirheitum og ég get ekki betur séð en að drengurinn sé áfram hinn glaðasti með dvölina hjá Bóa (Hirti) frænda og Jólu frænku. Á morgun förum við í Stykkishólm og þar verður stráksi alla vega tvo til þrjá daga í viðbót. Það er yndislegt að hafa hann því að hann og Sigrún eru jafnaldrar og þá er svo miklu skemmtilegra að leika sér. Kiddú er ekki lengur litla óvitakrúttið, heldur er hún farin að svara fyrir sig og jafnvel stríða stóru systur sinni smá. Þá myndast oft leiðinda spenna og pirringur á milli systkina sem er eitt það leiðinlegasta sem foreldrar þurfa að hlusta á. Ég mæli eindregið með því að taka skemmtilega frændur eða frænkur með í ferðalagið, ef því verður við komið.

Ég verð nú að segja frá alveg einstökum atburði sem átti sér stað í gær. Í lok kvöldvöku þriðjudagsins sammæltumst við frænkur (Halla Dís og ég) um að fara út að hlaupa í Flatey. Ekki alveg það nýjasta nýtt í sjálfu sér því að við höfum báðar skokkað í Flatey áður, en það er orðið ansi langt síðan ég gerði það síðast út af verkjum í il. Jú, rúmlega tvö ár síðan ég hætti alfarið að hlaupa. Undanfarið hef ég þó tekið eftir jákvæðum breytingum í vinstri il og aðeins prófað hana eftir að heim var komið frá Dóminíkanska Lýðveldinu.  Ég ákvað því að slá til og skokka smávegis með þessari góðu frænku minni. Við ákváðum að kalla þessa tilraun „Haltur leiðir blindan“ því að hún Halla er jú lögblind og ég hef verið nánast löghölt (ef það er til) síðustu tvö árin eða svo. Klukkan ellefu að morgni skokkuðum við svo rúma fimm kílómetra eftir mjúkum stígum eyjarinnar og fórst það svo ljómandi vel úr hendi að sú lögblinda hnaut aldrei um þúfur eða steina og sú löghalta fann varla fyrir verknum undir ilinni. Okkur leið báðum eins og sigurvegurum í lok hlaupsins og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að hittast aftur í Hólminum og hlaupa saman eða jafnvel klífa fjöll. „Haltur leiðir blindan“ er gott teymi. Ég þori ekki að fagna of snemma en innan í mér er kátur harmonikkuleikari og óður skáti sem veifar íslenska fánanum í gríð og erg. Er mér að batna? Verð ég ÉG á ný?

Með þessum orðum er mál að linni að sinni. Börnin eru enn kát og glöð í sínum eigin leikjaheimi uppi á lofti en samviskusama móðirin verður endilega að fara að draga þau út og viðra eins og þvottinn. Á morgun hefst 10 daga ævintýri í Stykkishólmi. Líklega blautt og vindasamt, en svona er nú bara Ísland í dag. Vonandi get ég hlaupið lengra í næstu tilraun. INSJALLAH!

Sóla sigurglaða :) 

 PS Myndir frá Flatey eru tímabundið "public" á facebook hjá mér og Hirti, ef einhver vill kíkja.


Hitt póstkortið frá DL

Nú fer að líða að lokum þessarar utanlandsferðar fjölskyldunnar. Á morgun á Hjörtur afmæli og snemma daginn eftir afmælisdaginn fljúgum við til USA og svo þaðan til Íslands. Lendum eldsnemma á sunnudagsmorgni, lúin eftir langt og strangt ferðalag býst ég við. Við förum í stutta ferð í Hólminn strax daginn eftir en ætlum svo að eiga heila 10 daga í höfuðborginni áður en haldið verður af stað í Flatey og svo aftur í Hólminn. Það verður ekki löng viðkoma á leikskólanum hjá litla unganum mínum þetta sumarið frekar en önnur.  

Tíminn hefur liðið hratt eins og alltaf en dagarnir renna frekar mikið saman í eitt. Það er ákveðin rútína í gangi á heimilinu. Ég vakna alltaf fyrst og fæ mér kaffi, les eða kíki á netið. Klukkan átta vek ég svo stelpurnar en af gæsku minni leyfi ég köllunum yfirleitt að ráða hvenær þeir vakna. Það eru svo sem ekki vandræði að fá þá til þess að sofna á kvöldin. Stelpurnar eru mjög spenntar fyrir dóminíkanskri jógúrt sem fengur hefur að flæða frjálst í morgunverðarskálarnar. Heima er ekki keypt sykruð jógúrt í morgunmat nema að einhver eigi afmæli. Það eru ansi fjölbreyttar mjólkurvörur í boði hérna enda sjást kýr um allar grundir.

Eftir morgunmat förum við stelpurnar að huga að sundferð og þá er regla númer eitt að vera komin upp úr ekki seinna en 11 (sólin er svo sterk). Þær eru ekki alveg eins spenntar fyrir sundinu núna og þær voru fyrst. Suma daga hef ég á tilfinningunni að þær líti á sundið sem ákveðna afplánun svo að þær megi horfa á eitthvað í ipad-num á "siesta" tímanum. "Mamma, má ég fara upp úr núna?" Mamma er líka leiðinlegri á morgnana af því að þá þarf hún að synda smá, ekki bara leika. Björg er meira á sundlaugarbakkanum að lesa og tjilla en kemur af og til út í til þess að stríða yngri systrum sínum, jú og mömmu sinni líka.

Svo fáum við okkur að borða í hádeginu og eftir það er oftast hvíldartími inni, horft á mynd, hlustað á tónlist, spilað, farið á netið eða í leiki á ipad-num. Við Björg áttum til að nota tækifærið og synda aðeins í sjónum en það hefur lítið farið fyrir því síðustu daga. Sundlaugin hefur tvímælalaust meira aðdráttarafl þó að ströndin sé í túngarðinum. Hvíldartíminn er svo stundum brotinn upp með ísgöngutúr á nálæga veitingastaði eða einhverjum öðrum bráðnauðsynlegum erindum. Það er smá ókostur við staðsetninguna að það er langt í bæinn fyrir litla fætur í hitanum sem kannski takmarkar svolítið afþreyingarmöguleika fyrir krakkakrílin. En þegar ég hugsa um það þá er ekki mikil afþreying falin í því að vera að þvælast um umferðargötuna niðri í bæ með uppáþrengjandi sölumenn á hverju horni í steikjandi hita. Það er nefnilega ótrúlegur munur á hitanum og andrúmsloftinu við ströndina og úti á götu. Ferski hafvindurinn verður til þess að það er aldrei of heitt úti í garði hjá okkur, en um leið og það er komið skjól fyrir vindinum fer maður að verða svolítið máttlaus. Stelpunum finnst samt voða gaman að fara með leigubíl í fína, loftkælda súpermarkaðinn og velja ís og eitthvað gott í matinn.Við Björg erum búnar að fara nokkrar ferðir einar niður í bæ að skoða eitthvað glingur og þá göngum við bara berfættar eftir strandlengjunni til baka.

Upp úr þrjú eða fjögur er aftur fínt að fara út í sundlaug með grísina og hafa gaman. Eftir buslið eldum við oftast eitthvað heima en samt er búið að fara nokkrum sinnum út að borða á staðina í nágrenninu. Það kemur aðallega til af því að kokkurinn er stundum örþreyttur eftir þriggja tíma "kitesurfing session" á hafi úti. Hann er yfirmaður kvöldverðar- og innkaupasviðs, á meðan ég er meira í hádegissnarlinu, þvottinum, barnaafþreyingu og almennri tiltekt. Síðan er farið snemma í háttinn og snemma á fætur. Ágætis sumarfrísrútína held ég bara.

Síðasti þriðjudagur var samt alveg afskaplega spennandi því að þá eyddum við öllum deginum í Ocean World. Þar er hægt að kaupa mismunandi fjölskyldupakka og komast þar með í snertingu við ýmis dýr, sérstaklega sjávardýr. Við keyptum sund með höfrungum fyrir mig, Björgu og Sigrúnu á meðan Hjörtur fór með Kristrúnu í svokallað "dolphin encounter" eða höfrungahitting, þar sem hún fékk að vera í sömu laug og höfrungar, leyfa þeim að kyssa sig og horfa á þá leika ýmsar kúnstir. Höfrungasundið var mun öflugra. Þeir syntu með okkur og hentu okkur upp úr haffletinum, svo að segja. Litla táin fór heldur illa út úr þeim átökum og er að líkindum brotin - alla vega illa brákuð og ég held að ég komist ekki í venjulega skó á næstunni. Þetta var samt ótrúlega gaman og ég var mjög hissa á því að finna hvað höfrungar eru yndislega mjúkir viðkomu. Sigrún Björk var rosalega dugleg og hló eiginlega allan tímann sem við vorum ofan í sjónum með höfrungunum. Við keyptum myndapakka og vídeó á disk af öllum ósköpunum en DVD-drifið á tölvunni hans Hjartar er bilað þannig að við getum ekki deilt myndunum fyrr en við komumst í tölvuna mína heima. Annað sem stóð upp úr hjá stelpunum voru ástarfuglarnir sem flokkuðust í kringum okkur og settust á höfuð og hendur um leið og fuglafræ voru sett í lófana. Góður dagur í skemmtilegum (en dýrum) dýragarði.

Fleira er líklega ekki að frétta, eða hvað? Jæja jú, ég er farin að venjast umferðinni aðeins betur og meira að segja búin að prófa að sitja hjálmlaus aftan á mótorhjóli. Ég man nefnilega eftir því þegar ég var tvítug í útskriftarferðinni á Kýpur. Þá leigði ég vespu í þrjár vikur og keyrði um alla eyju i vinstri umferð HJÁLMLAUS og fannst það ekkert mál. Nú er öldin önnur enda löngu búin (3 meðgöngum síðar) að læra að ég er ekki ódauðleg. Ég var stíf af hræðslu aftan á hjólinu til að byrja með og svo þegar ég steig af því fór hægri kálfinn á mér í púströrið á hjólinu og "hvisss" - þetta fína brunasár, blöðrur og læti. 

Nú þarf maður bara að fara að setja sig í Íslandsgírinn. Bara tilhugsunin um að fara í síðbuxur aftur er svolítið óþægileg, hvað þá ef sá grunur læðist að manni að fötin heima passi ekki allt of vel eftir þægindin og hvíldina í sólinni. En það verður gaman að hitta Helgu og kisurnar aftur. Þau eru víst búin að hafa það mjög notalegt saman í sólinni á Íslandi. Vonandi verður afmælisdagurinn hans Hjartar svo skemmtilegur á morgun. Við ætlum alla vega fínt út að borða, en verðum eflaust mjög upptekin við að pakka niður og gera og græja.

Hasta la vista baby!

Sóla the dolphin :)

 


Póstkort 1 frá Dóminíkanska Lýðveldinu

Sælinú

Klukkan er sjö að morgni og enginn vaknaður í höllinni nema ég. Ég er alltaf fyrst fram þó að ég þykist nú vita að pabbi sé oft farinn að rumska fyrir þennan tíma. Hann grípur bara í Jo Nesbö vin sinn til þess að stytta sér stundir áður en hann töltir fram til þess að fá sér kaffi og Bónus múslí. Við förum yfirleitt að sofa ekki seinna en klukkan tíu að kvöldi. Það er skynsamlegt að fara snemma út í sundlaug eða sjó, áður en brennandi karabíska sólin fer að grilla húðina á okkur bleiknefjunum. Klukkan er 11 að morgni heima, nota bene, þannig að það er ágætt að snúa ekki sólarhringnum alveg við.

Við byrjuðum ferðalagið seinni part 29. maí, en þá flugum við til Newark og gistum á Hilton flughótelinu. Það ferðalag gekk allt vel og var þetta fyrsta Norður-Ameríkuferð pabba og Kristrúnar, alla vega utanlegs (sú síðarnefnda átti millilendingu í Florida á leið til Barbados sem 24 vikna fóstur). Sigrún Björk var búin að fara a.m.k. þrisvar til USA, en man ekkert eftir því vegna þess að hún var svo lítil. Við fórum nokkrum sinnum fyrir hrun en svo kom löööööng pása af efnahagslegum ástæðum. Stelpurnar voru sem gefur að skilja mjög spenntar fyrir ferðalaginu, en upplifðu sig samt sem reynslubolta eftir Tyrklandsferðina í fyrra. Hápunktur gistingarinnar á Newark hótelinu var auðvitað morgunverðarhlaðborðið og þar kom beikonið og Froot Loops sérlega sterkt inn hjá grísunum.

Flugið frá Newark til DL tók bara rúma þrjá tíma. Það fyrsta sem mætti okkur fyrir utan flugstöðina var hitamolla og piltur að selja ískalda Presidente bjóra í risastórum glerflöskum, sem við auðvitað þáðum með þökkum. Stóri leigubíllinn beið okkar með enskumælandi bílstjóra en móðurhjartað tók kipp þegar uppgötvaðist að öll bílbeltin voru ónothæf! Það er víst ekki skylda að hafa bílbelti hér í DL, nema kannski hjá bílstjóranum. Mér fannst þetta mjög óþægilegt, sérstaklega í ljósi þess að umferðin var að mínu mati villimannsleg. Þarna voru margir á mótorhjólum og allir án hjálms og hraðinn allt of mikill miðað við breidd vegar og fjölda farartækja. Einhvers staðar las ég að hjálmlaust fólk á mótorhjólum væri kallað líffæragjafar og finnst það passa einstaklega vel við. Það hljóta að vera mörg dauðaslys í umferð sem þessari. 

Lífhrædda konan andaði léttar þegar Udo Þjóðverji tók á móti okkur og sýndi okkur dvalarstaðinn. Þeir sem hafa séð myndirnar frá okkur á facebook vita að þetta er paradís á jörðu. Íbúðin sjálf er í einkaeign í átta íbúða húsi (condo) en leigð út af og til, en aðeins til mjög traustra aðila (sem við erum auðvitað, "a family of six"). Það eina sem ég get sett út á íbúðina er að hún er allt of stór, líklega yfir 300 fermetrar á einni hæð. Það stressaði alla vega konuna með litla hjartað að hafa börnin svona langt frá mér, auk þess sem ég átti erfitt með gang fyrstu tvo dagana eftir að hafa tognað í baki í tabata fyrir ferðina. Mér fannst ég þurfa að taka á mig langt ferðalag með nesti og nýja skó ef ég gleymdi einhverju inni í herbergi og þurfti að ganga þaðan frá eldhúsinu. Herbergið okkar Hjartar er stærra en íbúðin mín sem ég bjó í í Fossvoginum með Björgu í þrjú ár. Öll fjögur herbergin eru með klósetti og baði, allt vel loftkælt, eldhús með öllu og hlaupið beint út í sundlaug eða á ströndina af jarðhæðinni. Það borgar sig oft að leigja af einkaaðilum heldur en að fara í gegnum hótelbransann. Við hefðum eflaust ekki fengið mjög merkilega hótelgistingu fyrir sama verð.

Í garðinum okkar eru alltaf þrír menn sjáanlegir, uppteknir við að raka lauf og fleira dútl. Pabbi kallar þá rakarana og við vorum einmitt að spá í hvort þeir væru ættaðir frá Sevilla. Þriðja kvöldið okkar áttaði ég mig á því að þeir eru svo miklu meira en garðyrkjumenn. Hjörtur labbaði eitthvað út í myrkrið í átt að ströndinni (ekki í ölæði, no worries) og ég fór út til þess að banka á gluggann hjá Björgu til þess að stríða henni smá. Við görguðum eitthvað og göluðum eins og mæðgna er háttur og skyndilega spruttu upp úr runnunum tveir menn. Það voru þá rakararnir sem eru greinilega á vakt allan sólarhringinn til þess að passa upp á íbúana. Við erum sem sagt með öryggisgæslu allan sólarhringinn. Hliðin sem snýr út að veginum er lokuð af með háum vegg og öryggishliði með vaktmönnum. Hinum megin við götuna eru svo hrörlegir kofar þar sem seldir eru ávextir og matur. Þarna býr líka fólk og andstæðurnar við okkar líf eru miklar, svo miklar að maður eiginlega skammast sín, jafnvel þó að maður beri aðstæðurnar saman við lífið heima, sem er ekki alveg svona mikið lúxuslíf. Ég upplifði mig öruggari í rólega þorpinu okkar í Tyrklandi heldur en hér, en man samt að það tók mig smá tíma að átta mig á umhverfinu þar. Ég man að ég vaknaði við bænakallið frá moskunni og hnipraði mig saman af ótta, enda búin að horfa á allt of margar amerískar bíómyndir þar sem bænakall múslima er forleikur að hryðjuverkum ljótu kallanna. Fljótlega fór bænakall moskunnar að verða hápunktur dagsins, notaleg staðfesting á því að fólkið í bænum var gott og heiðarlegt og vildi mér og börnunum mínum allt það besta. Ég hlakka til að fá mosku í Reykjavík.

Lífið hjá okkur snýst um að fara snemma út í sundlaug eða á ströndina, áður en sólin verður of sterk. Auðvitað berum við á okkur góða sólarvörn en það dugir ekki til. Stelpurnar litlu eru oft í sundpeysunum sínum sem verja reyndar þeirra hvítu og viðkvæmu húð ansi vel. Björg var á því í byrjun að hún þyrfti nú ekki merkilega sólarvörn af því að hún væri með svo dökka húð, en að kvöldi dags gat móðir hennar sagt: "I told you so!" Súrt epli að bíta í, en svona er þetta bara. Ég er búin að taka heilmikinn lit en hef reynt að forðast sólina og sund alveg síðustu tvo dagana, enda komin með léttan kláða í húðina og reyndar kvef líka. Hjörtur er mikið í sjónum og alltaf í peysu og með sterka sólarvörn. Pabbi er sá alharðasti og dekkstur af öllum og sá eini sem getur leyft sér að liggja úti á bekk hvenær sem er dagsins. Hann var náttúrulega búinn að undirbúa sig vel úti á svölum heima hjá sér allan maímánuð sem bara undirstrikar þá staðreynd að heimavinna margborgar sig. 

Jæja, hér þurfti ég að gera rúmlega sólarhringshlé á skrifum mínum. Fólkið mitt fór að týnast fram hvert af öðru og húsfaðirinn var fljótlega mættur í vinnuna, sem sagt í tölvuna sem ég var að nota. Svolítið sérstakt að vera í fríí en samt alltaf í vinnunni. Hjörtur er samt ekki eins upptekinn eins og hann var í fyrra í fríinu í Tyrklandi, en þá sáum við alls ekki mikið af honum. Núna er minna að gera í fiskbransanum og meiri tími fyrir fjölskyldu og flugdreka. Ástæðan fyrir því að við erum hérna en ekki einhvers staðar annars staðar er auðvitað sú að hér eru kjöraðstæður fyrir kitesurfing eða mardrekaflug. Það kemur alltaf góður vindur hérna seinnipartinn og þá sjáum við ekki Hjört í nokkra tíma. Svo kemur hann heim með sælubros á vör og salt í öllum vitum, búinn að hamast langt úti í öldunum með öllum hinum "kæturunum." Gott líf. Það er súrt að horfa á hlauparana á ströndinni hérna fyrir neðan á morgnana og geta ekki verið með. Vonandi kemst þessi bévítans il í lag einn daginn. Ég læt mér nægja að svamla aðeins í lauginni með stelpunum, sem er nú betra en ekkert. Ég spottaði reyndar fólk í yoga á hóteli rétt hjá en hef ekki haft mig í að kanna það nánar. Ég nenni engan veginn að stunda yoga sjálf, svona heima við. Látum bara svamlið nægja.

Við höfum mest borðað heima eftir að við komum hingað, en samt fengið okkur smá snarl líka hér og þar. Allir nema þær tvær yngstu eru búnir að fá magapest með tilheyrandi klósettferðum, en ekki er alveg ljóst hvort það er maturinn eða eitthvað tilfallandi. Ég get eiginlega ekki sagt til um hvort maturinn hér sé góður eða slæmur af því að við höfum ekki heimsótt neina klassastaði. Ég veit alla vega að hér er auðvelt að ná í dásamlega ávexti sem bragðast öðruvísi en heima. Ananasinn er sætari og minnir mikið á Pina Colada. Banarnir eru líka bragðbetri, ástaraldin örlítið súrara og mangóið með stærri stein, þ.e. með minna aldinkjöt á "beinunum." Ég hef ekkert séð epli eða venjulegar appelsínur sem þýðir kannski að þetta sé ekki árstíðin þeirra. Mér skilst þó að hér sé gott veður allt árið og alltaf gott framboð af glænýjum ávöxtum. Dásamlegt. Við stefnum á að fara á góðan stað á afmælisdaginn hans Hjartar, en annars eldum við bara mest heima, svona til þess að halda jafnri þykkt á hægðunum...múha :).

Ég neyðist víst til þess að segja frá læknisheimsókn sem við fengum eitt kvöldið, þó það sé að vissu leyti örlítið pínlegt. Málið er að ég var bitin af moskító, einmitt eina kvöldið sem ég setti ekki á mig DEET moskítóvörnina sem virðist vera það eina sem dugar á móti þessum ófreskjum. Ég fékk heilmikið kýli, eins og svo oft áður, en setti bara á mig vörnina strax og hef ekki fengið annað bit síðan. Daginn eftir var ég mjög slöpp, með margumræddan niðurgang, illt í hálsi og með þessa leiðinlegu tilfinningu sem maður fær þegar STÓRA kvefið er að byrja (slappleiki, höfuðverkur, beinverkir, o.s.frv...). Um kvöldið ákváðum við stelpurnar að prófa heita pottinn sem fylgir hjónaherberginu og þar uppgötvaði Björg að kýlið á hendinni var orðið meira en lófastórt! Hirti leist ekkert á blikuna og hafði samband við Udo (sem var upptekinn við að spila Ludo) og sagði honum frá ástandinu. Hann kallaði strax á lækni og sagði "but it might be too late!" - sem mér leist nú ekkert á. Læknirinn kom og skoðaði mig vel og vandlega og taldi að þetta væru bara ofursterk ofnæmisviðbrögð við moskító og skrifaði upp á ofnæmislyf og krem. Svo fór hann að sýna kvefinu mínu mikinn áhuga og þá fannst mér allt í einu ótrúlega vandræðalegt að vera búin að fá lækni heim til þess að spyrja mig um KVEF! Hann endaði nú reyndar á því að skrifa upp á beiðni um blóðprufu líka og við lofuðum að mæta í það dæmi strax morguninn eftir. Daginn eftir leið mér nú eitthvað skár og bólgan í bitinu var minni þannig að ég og húsbóndinn sammæltust um að skrópa í blóðprufuna. Ég er ekki heldur búin að leysa lyfin út og er bara að vona að DEET eitrið haldi skrímslunum frá mér. Mig klæjar reyndar voðalega í húðina sem gæti verið blanda af eitrinu og sólinni, en mér er sama, bara ef ég fæ ekki þessi bit. 

En nóg um mig. Stelpunum líkar vistin vel og þá sérstaklega ef við gerum eitthvað meira en að hanga bara heima við. Við fórum í snorklferð til Sosua þar sem ég, Hjörtur, Björg og Sigrún snorkluðum í hafinu bláa með alls konar íðilfögrum skrautfiskum á meðan afi og Kristrún biðu í bátnum og horfðu á. Mér fannst Sigrún vera svolítið stór og dugleg að taka þátt í þessu því að sjórinn var ansi djúpur á þessum slóðum. Kristrún hefur líka fullorðnast örlítið í ferðinni. Hún var alltaf svo hrædd við dýpri enda barnalaugarinnar í sundlaug Kópavogs en núna er hún farin að synda þvert yfir tveggja metra djúpu laugina okkar og vill helst ekki vera í barnalauginni. En með handakúta, auðvitað. Í dag fórum við svo í vatnsrennibrautagarð, sem reyndist nú vera eitthvað annað en við héldum en samt var gaman. Það var ótrúlega mikið af leiktækjum þarna fyrir börn og ég gat alveg séð hann Jakob minn hlaupa þarna um allan daginn að skoða og prófa allt dótið. Þarna voru líka endalausar sundlaugar sem sýnir að það virðist vera nóg til af vatni í DL. Flottur staður sem gaman var að heimsækja þó að rennibrautirnar væru lítið spennandi fyrir stóra fólkið.

Í gær var tæknilega séð útskriftardagur Bjargar úr grunnskólanum. Stelpurnar allar fengu sér afró-fléttur í tilefni dagsins (eða við segjum alla vega að útskriftin hafi verið tilefnið) og svo fengum við okkur léttan bita á veitingastað hérna á ströndinni um kvöldið. Það var næs að labba berfættur heim í myrkrinu og hlusta á brimið og sjá rétt glitta í svart hafið. Sigrún útskrifaðist svo úr 3. bekk í dag með fullt hús stiga þannig að framtíðin er bara björt. Kristrún á enn eftir einn vetur í leikskólanum þannig að Sigrún verður "ein" í Snælandsskóla næsta vetur. Björgin ætlar í MH á náttúrufræðibraut og vona ég að það gangi eftir. Hún vill nýta sér þessar 9 framhaldsskólaeiningar sem hún kláraði með 10. bekknum og þá væntanlega ljúka stúdentnum á 4 árum með því að fara líka til Suður-Ameríku sem skiptinemi. Þetta er planið núna en svo sjáum við hvað setur.

Nú er klukkan að verða fjögur og bráðum verður óhætt að fara út í sólina eða mistrið og busla aðeins í sundlauginni með stelpugrislingunum. Ég bið ykkur sem heima sitjið vel að lifa og fagna því að það sé líka komið sól og sumar á öllu Íslandi.

Luv  

SólahansÓlasólarsig :)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband