Póstkort 1 frá Dóminíkanska Lýðveldinu

Sælinú

Klukkan er sjö að morgni og enginn vaknaður í höllinni nema ég. Ég er alltaf fyrst fram þó að ég þykist nú vita að pabbi sé oft farinn að rumska fyrir þennan tíma. Hann grípur bara í Jo Nesbö vin sinn til þess að stytta sér stundir áður en hann töltir fram til þess að fá sér kaffi og Bónus múslí. Við förum yfirleitt að sofa ekki seinna en klukkan tíu að kvöldi. Það er skynsamlegt að fara snemma út í sundlaug eða sjó, áður en brennandi karabíska sólin fer að grilla húðina á okkur bleiknefjunum. Klukkan er 11 að morgni heima, nota bene, þannig að það er ágætt að snúa ekki sólarhringnum alveg við.

Við byrjuðum ferðalagið seinni part 29. maí, en þá flugum við til Newark og gistum á Hilton flughótelinu. Það ferðalag gekk allt vel og var þetta fyrsta Norður-Ameríkuferð pabba og Kristrúnar, alla vega utanlegs (sú síðarnefnda átti millilendingu í Florida á leið til Barbados sem 24 vikna fóstur). Sigrún Björk var búin að fara a.m.k. þrisvar til USA, en man ekkert eftir því vegna þess að hún var svo lítil. Við fórum nokkrum sinnum fyrir hrun en svo kom löööööng pása af efnahagslegum ástæðum. Stelpurnar voru sem gefur að skilja mjög spenntar fyrir ferðalaginu, en upplifðu sig samt sem reynslubolta eftir Tyrklandsferðina í fyrra. Hápunktur gistingarinnar á Newark hótelinu var auðvitað morgunverðarhlaðborðið og þar kom beikonið og Froot Loops sérlega sterkt inn hjá grísunum.

Flugið frá Newark til DL tók bara rúma þrjá tíma. Það fyrsta sem mætti okkur fyrir utan flugstöðina var hitamolla og piltur að selja ískalda Presidente bjóra í risastórum glerflöskum, sem við auðvitað þáðum með þökkum. Stóri leigubíllinn beið okkar með enskumælandi bílstjóra en móðurhjartað tók kipp þegar uppgötvaðist að öll bílbeltin voru ónothæf! Það er víst ekki skylda að hafa bílbelti hér í DL, nema kannski hjá bílstjóranum. Mér fannst þetta mjög óþægilegt, sérstaklega í ljósi þess að umferðin var að mínu mati villimannsleg. Þarna voru margir á mótorhjólum og allir án hjálms og hraðinn allt of mikill miðað við breidd vegar og fjölda farartækja. Einhvers staðar las ég að hjálmlaust fólk á mótorhjólum væri kallað líffæragjafar og finnst það passa einstaklega vel við. Það hljóta að vera mörg dauðaslys í umferð sem þessari. 

Lífhrædda konan andaði léttar þegar Udo Þjóðverji tók á móti okkur og sýndi okkur dvalarstaðinn. Þeir sem hafa séð myndirnar frá okkur á facebook vita að þetta er paradís á jörðu. Íbúðin sjálf er í einkaeign í átta íbúða húsi (condo) en leigð út af og til, en aðeins til mjög traustra aðila (sem við erum auðvitað, "a family of six"). Það eina sem ég get sett út á íbúðina er að hún er allt of stór, líklega yfir 300 fermetrar á einni hæð. Það stressaði alla vega konuna með litla hjartað að hafa börnin svona langt frá mér, auk þess sem ég átti erfitt með gang fyrstu tvo dagana eftir að hafa tognað í baki í tabata fyrir ferðina. Mér fannst ég þurfa að taka á mig langt ferðalag með nesti og nýja skó ef ég gleymdi einhverju inni í herbergi og þurfti að ganga þaðan frá eldhúsinu. Herbergið okkar Hjartar er stærra en íbúðin mín sem ég bjó í í Fossvoginum með Björgu í þrjú ár. Öll fjögur herbergin eru með klósetti og baði, allt vel loftkælt, eldhús með öllu og hlaupið beint út í sundlaug eða á ströndina af jarðhæðinni. Það borgar sig oft að leigja af einkaaðilum heldur en að fara í gegnum hótelbransann. Við hefðum eflaust ekki fengið mjög merkilega hótelgistingu fyrir sama verð.

Í garðinum okkar eru alltaf þrír menn sjáanlegir, uppteknir við að raka lauf og fleira dútl. Pabbi kallar þá rakarana og við vorum einmitt að spá í hvort þeir væru ættaðir frá Sevilla. Þriðja kvöldið okkar áttaði ég mig á því að þeir eru svo miklu meira en garðyrkjumenn. Hjörtur labbaði eitthvað út í myrkrið í átt að ströndinni (ekki í ölæði, no worries) og ég fór út til þess að banka á gluggann hjá Björgu til þess að stríða henni smá. Við görguðum eitthvað og göluðum eins og mæðgna er háttur og skyndilega spruttu upp úr runnunum tveir menn. Það voru þá rakararnir sem eru greinilega á vakt allan sólarhringinn til þess að passa upp á íbúana. Við erum sem sagt með öryggisgæslu allan sólarhringinn. Hliðin sem snýr út að veginum er lokuð af með háum vegg og öryggishliði með vaktmönnum. Hinum megin við götuna eru svo hrörlegir kofar þar sem seldir eru ávextir og matur. Þarna býr líka fólk og andstæðurnar við okkar líf eru miklar, svo miklar að maður eiginlega skammast sín, jafnvel þó að maður beri aðstæðurnar saman við lífið heima, sem er ekki alveg svona mikið lúxuslíf. Ég upplifði mig öruggari í rólega þorpinu okkar í Tyrklandi heldur en hér, en man samt að það tók mig smá tíma að átta mig á umhverfinu þar. Ég man að ég vaknaði við bænakallið frá moskunni og hnipraði mig saman af ótta, enda búin að horfa á allt of margar amerískar bíómyndir þar sem bænakall múslima er forleikur að hryðjuverkum ljótu kallanna. Fljótlega fór bænakall moskunnar að verða hápunktur dagsins, notaleg staðfesting á því að fólkið í bænum var gott og heiðarlegt og vildi mér og börnunum mínum allt það besta. Ég hlakka til að fá mosku í Reykjavík.

Lífið hjá okkur snýst um að fara snemma út í sundlaug eða á ströndina, áður en sólin verður of sterk. Auðvitað berum við á okkur góða sólarvörn en það dugir ekki til. Stelpurnar litlu eru oft í sundpeysunum sínum sem verja reyndar þeirra hvítu og viðkvæmu húð ansi vel. Björg var á því í byrjun að hún þyrfti nú ekki merkilega sólarvörn af því að hún væri með svo dökka húð, en að kvöldi dags gat móðir hennar sagt: "I told you so!" Súrt epli að bíta í, en svona er þetta bara. Ég er búin að taka heilmikinn lit en hef reynt að forðast sólina og sund alveg síðustu tvo dagana, enda komin með léttan kláða í húðina og reyndar kvef líka. Hjörtur er mikið í sjónum og alltaf í peysu og með sterka sólarvörn. Pabbi er sá alharðasti og dekkstur af öllum og sá eini sem getur leyft sér að liggja úti á bekk hvenær sem er dagsins. Hann var náttúrulega búinn að undirbúa sig vel úti á svölum heima hjá sér allan maímánuð sem bara undirstrikar þá staðreynd að heimavinna margborgar sig. 

Jæja, hér þurfti ég að gera rúmlega sólarhringshlé á skrifum mínum. Fólkið mitt fór að týnast fram hvert af öðru og húsfaðirinn var fljótlega mættur í vinnuna, sem sagt í tölvuna sem ég var að nota. Svolítið sérstakt að vera í fríí en samt alltaf í vinnunni. Hjörtur er samt ekki eins upptekinn eins og hann var í fyrra í fríinu í Tyrklandi, en þá sáum við alls ekki mikið af honum. Núna er minna að gera í fiskbransanum og meiri tími fyrir fjölskyldu og flugdreka. Ástæðan fyrir því að við erum hérna en ekki einhvers staðar annars staðar er auðvitað sú að hér eru kjöraðstæður fyrir kitesurfing eða mardrekaflug. Það kemur alltaf góður vindur hérna seinnipartinn og þá sjáum við ekki Hjört í nokkra tíma. Svo kemur hann heim með sælubros á vör og salt í öllum vitum, búinn að hamast langt úti í öldunum með öllum hinum "kæturunum." Gott líf. Það er súrt að horfa á hlauparana á ströndinni hérna fyrir neðan á morgnana og geta ekki verið með. Vonandi kemst þessi bévítans il í lag einn daginn. Ég læt mér nægja að svamla aðeins í lauginni með stelpunum, sem er nú betra en ekkert. Ég spottaði reyndar fólk í yoga á hóteli rétt hjá en hef ekki haft mig í að kanna það nánar. Ég nenni engan veginn að stunda yoga sjálf, svona heima við. Látum bara svamlið nægja.

Við höfum mest borðað heima eftir að við komum hingað, en samt fengið okkur smá snarl líka hér og þar. Allir nema þær tvær yngstu eru búnir að fá magapest með tilheyrandi klósettferðum, en ekki er alveg ljóst hvort það er maturinn eða eitthvað tilfallandi. Ég get eiginlega ekki sagt til um hvort maturinn hér sé góður eða slæmur af því að við höfum ekki heimsótt neina klassastaði. Ég veit alla vega að hér er auðvelt að ná í dásamlega ávexti sem bragðast öðruvísi en heima. Ananasinn er sætari og minnir mikið á Pina Colada. Banarnir eru líka bragðbetri, ástaraldin örlítið súrara og mangóið með stærri stein, þ.e. með minna aldinkjöt á "beinunum." Ég hef ekkert séð epli eða venjulegar appelsínur sem þýðir kannski að þetta sé ekki árstíðin þeirra. Mér skilst þó að hér sé gott veður allt árið og alltaf gott framboð af glænýjum ávöxtum. Dásamlegt. Við stefnum á að fara á góðan stað á afmælisdaginn hans Hjartar, en annars eldum við bara mest heima, svona til þess að halda jafnri þykkt á hægðunum...múha :).

Ég neyðist víst til þess að segja frá læknisheimsókn sem við fengum eitt kvöldið, þó það sé að vissu leyti örlítið pínlegt. Málið er að ég var bitin af moskító, einmitt eina kvöldið sem ég setti ekki á mig DEET moskítóvörnina sem virðist vera það eina sem dugar á móti þessum ófreskjum. Ég fékk heilmikið kýli, eins og svo oft áður, en setti bara á mig vörnina strax og hef ekki fengið annað bit síðan. Daginn eftir var ég mjög slöpp, með margumræddan niðurgang, illt í hálsi og með þessa leiðinlegu tilfinningu sem maður fær þegar STÓRA kvefið er að byrja (slappleiki, höfuðverkur, beinverkir, o.s.frv...). Um kvöldið ákváðum við stelpurnar að prófa heita pottinn sem fylgir hjónaherberginu og þar uppgötvaði Björg að kýlið á hendinni var orðið meira en lófastórt! Hirti leist ekkert á blikuna og hafði samband við Udo (sem var upptekinn við að spila Ludo) og sagði honum frá ástandinu. Hann kallaði strax á lækni og sagði "but it might be too late!" - sem mér leist nú ekkert á. Læknirinn kom og skoðaði mig vel og vandlega og taldi að þetta væru bara ofursterk ofnæmisviðbrögð við moskító og skrifaði upp á ofnæmislyf og krem. Svo fór hann að sýna kvefinu mínu mikinn áhuga og þá fannst mér allt í einu ótrúlega vandræðalegt að vera búin að fá lækni heim til þess að spyrja mig um KVEF! Hann endaði nú reyndar á því að skrifa upp á beiðni um blóðprufu líka og við lofuðum að mæta í það dæmi strax morguninn eftir. Daginn eftir leið mér nú eitthvað skár og bólgan í bitinu var minni þannig að ég og húsbóndinn sammæltust um að skrópa í blóðprufuna. Ég er ekki heldur búin að leysa lyfin út og er bara að vona að DEET eitrið haldi skrímslunum frá mér. Mig klæjar reyndar voðalega í húðina sem gæti verið blanda af eitrinu og sólinni, en mér er sama, bara ef ég fæ ekki þessi bit. 

En nóg um mig. Stelpunum líkar vistin vel og þá sérstaklega ef við gerum eitthvað meira en að hanga bara heima við. Við fórum í snorklferð til Sosua þar sem ég, Hjörtur, Björg og Sigrún snorkluðum í hafinu bláa með alls konar íðilfögrum skrautfiskum á meðan afi og Kristrún biðu í bátnum og horfðu á. Mér fannst Sigrún vera svolítið stór og dugleg að taka þátt í þessu því að sjórinn var ansi djúpur á þessum slóðum. Kristrún hefur líka fullorðnast örlítið í ferðinni. Hún var alltaf svo hrædd við dýpri enda barnalaugarinnar í sundlaug Kópavogs en núna er hún farin að synda þvert yfir tveggja metra djúpu laugina okkar og vill helst ekki vera í barnalauginni. En með handakúta, auðvitað. Í dag fórum við svo í vatnsrennibrautagarð, sem reyndist nú vera eitthvað annað en við héldum en samt var gaman. Það var ótrúlega mikið af leiktækjum þarna fyrir börn og ég gat alveg séð hann Jakob minn hlaupa þarna um allan daginn að skoða og prófa allt dótið. Þarna voru líka endalausar sundlaugar sem sýnir að það virðist vera nóg til af vatni í DL. Flottur staður sem gaman var að heimsækja þó að rennibrautirnar væru lítið spennandi fyrir stóra fólkið.

Í gær var tæknilega séð útskriftardagur Bjargar úr grunnskólanum. Stelpurnar allar fengu sér afró-fléttur í tilefni dagsins (eða við segjum alla vega að útskriftin hafi verið tilefnið) og svo fengum við okkur léttan bita á veitingastað hérna á ströndinni um kvöldið. Það var næs að labba berfættur heim í myrkrinu og hlusta á brimið og sjá rétt glitta í svart hafið. Sigrún útskrifaðist svo úr 3. bekk í dag með fullt hús stiga þannig að framtíðin er bara björt. Kristrún á enn eftir einn vetur í leikskólanum þannig að Sigrún verður "ein" í Snælandsskóla næsta vetur. Björgin ætlar í MH á náttúrufræðibraut og vona ég að það gangi eftir. Hún vill nýta sér þessar 9 framhaldsskólaeiningar sem hún kláraði með 10. bekknum og þá væntanlega ljúka stúdentnum á 4 árum með því að fara líka til Suður-Ameríku sem skiptinemi. Þetta er planið núna en svo sjáum við hvað setur.

Nú er klukkan að verða fjögur og bráðum verður óhætt að fara út í sólina eða mistrið og busla aðeins í sundlauginni með stelpugrislingunum. Ég bið ykkur sem heima sitjið vel að lifa og fagna því að það sé líka komið sól og sumar á öllu Íslandi.

Luv  

SólahansÓlasólarsig :)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl og blessuð, les stundum bloggið þitt og hef gífurlega gaman af - vildi benda þér á að fá forvarnasprautu við þessum ofnæmiseinkennum. Ég átti alltaf gífurlega bágt þar til ég fór í svona sprautu fyrir ca. 4-5 árum og sólarlandaferðin öðlaðist nýja merkingu í mínu lífi, enginn kvíði fyrir ofnæmi, hita og leiðindum.

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 8.6.2014 kl. 20:50

2 identicon

Takk fyrir þetta Nanna, ég hafði ekki hugmynd um að það væri hægt að fá svona sprautu. Fer í málið!

Sóla (IP-tala skráð) 12.6.2014 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband