Hitt póstkortið frá DL

Nú fer að líða að lokum þessarar utanlandsferðar fjölskyldunnar. Á morgun á Hjörtur afmæli og snemma daginn eftir afmælisdaginn fljúgum við til USA og svo þaðan til Íslands. Lendum eldsnemma á sunnudagsmorgni, lúin eftir langt og strangt ferðalag býst ég við. Við förum í stutta ferð í Hólminn strax daginn eftir en ætlum svo að eiga heila 10 daga í höfuðborginni áður en haldið verður af stað í Flatey og svo aftur í Hólminn. Það verður ekki löng viðkoma á leikskólanum hjá litla unganum mínum þetta sumarið frekar en önnur.  

Tíminn hefur liðið hratt eins og alltaf en dagarnir renna frekar mikið saman í eitt. Það er ákveðin rútína í gangi á heimilinu. Ég vakna alltaf fyrst og fæ mér kaffi, les eða kíki á netið. Klukkan átta vek ég svo stelpurnar en af gæsku minni leyfi ég köllunum yfirleitt að ráða hvenær þeir vakna. Það eru svo sem ekki vandræði að fá þá til þess að sofna á kvöldin. Stelpurnar eru mjög spenntar fyrir dóminíkanskri jógúrt sem fengur hefur að flæða frjálst í morgunverðarskálarnar. Heima er ekki keypt sykruð jógúrt í morgunmat nema að einhver eigi afmæli. Það eru ansi fjölbreyttar mjólkurvörur í boði hérna enda sjást kýr um allar grundir.

Eftir morgunmat förum við stelpurnar að huga að sundferð og þá er regla númer eitt að vera komin upp úr ekki seinna en 11 (sólin er svo sterk). Þær eru ekki alveg eins spenntar fyrir sundinu núna og þær voru fyrst. Suma daga hef ég á tilfinningunni að þær líti á sundið sem ákveðna afplánun svo að þær megi horfa á eitthvað í ipad-num á "siesta" tímanum. "Mamma, má ég fara upp úr núna?" Mamma er líka leiðinlegri á morgnana af því að þá þarf hún að synda smá, ekki bara leika. Björg er meira á sundlaugarbakkanum að lesa og tjilla en kemur af og til út í til þess að stríða yngri systrum sínum, jú og mömmu sinni líka.

Svo fáum við okkur að borða í hádeginu og eftir það er oftast hvíldartími inni, horft á mynd, hlustað á tónlist, spilað, farið á netið eða í leiki á ipad-num. Við Björg áttum til að nota tækifærið og synda aðeins í sjónum en það hefur lítið farið fyrir því síðustu daga. Sundlaugin hefur tvímælalaust meira aðdráttarafl þó að ströndin sé í túngarðinum. Hvíldartíminn er svo stundum brotinn upp með ísgöngutúr á nálæga veitingastaði eða einhverjum öðrum bráðnauðsynlegum erindum. Það er smá ókostur við staðsetninguna að það er langt í bæinn fyrir litla fætur í hitanum sem kannski takmarkar svolítið afþreyingarmöguleika fyrir krakkakrílin. En þegar ég hugsa um það þá er ekki mikil afþreying falin í því að vera að þvælast um umferðargötuna niðri í bæ með uppáþrengjandi sölumenn á hverju horni í steikjandi hita. Það er nefnilega ótrúlegur munur á hitanum og andrúmsloftinu við ströndina og úti á götu. Ferski hafvindurinn verður til þess að það er aldrei of heitt úti í garði hjá okkur, en um leið og það er komið skjól fyrir vindinum fer maður að verða svolítið máttlaus. Stelpunum finnst samt voða gaman að fara með leigubíl í fína, loftkælda súpermarkaðinn og velja ís og eitthvað gott í matinn.Við Björg erum búnar að fara nokkrar ferðir einar niður í bæ að skoða eitthvað glingur og þá göngum við bara berfættar eftir strandlengjunni til baka.

Upp úr þrjú eða fjögur er aftur fínt að fara út í sundlaug með grísina og hafa gaman. Eftir buslið eldum við oftast eitthvað heima en samt er búið að fara nokkrum sinnum út að borða á staðina í nágrenninu. Það kemur aðallega til af því að kokkurinn er stundum örþreyttur eftir þriggja tíma "kitesurfing session" á hafi úti. Hann er yfirmaður kvöldverðar- og innkaupasviðs, á meðan ég er meira í hádegissnarlinu, þvottinum, barnaafþreyingu og almennri tiltekt. Síðan er farið snemma í háttinn og snemma á fætur. Ágætis sumarfrísrútína held ég bara.

Síðasti þriðjudagur var samt alveg afskaplega spennandi því að þá eyddum við öllum deginum í Ocean World. Þar er hægt að kaupa mismunandi fjölskyldupakka og komast þar með í snertingu við ýmis dýr, sérstaklega sjávardýr. Við keyptum sund með höfrungum fyrir mig, Björgu og Sigrúnu á meðan Hjörtur fór með Kristrúnu í svokallað "dolphin encounter" eða höfrungahitting, þar sem hún fékk að vera í sömu laug og höfrungar, leyfa þeim að kyssa sig og horfa á þá leika ýmsar kúnstir. Höfrungasundið var mun öflugra. Þeir syntu með okkur og hentu okkur upp úr haffletinum, svo að segja. Litla táin fór heldur illa út úr þeim átökum og er að líkindum brotin - alla vega illa brákuð og ég held að ég komist ekki í venjulega skó á næstunni. Þetta var samt ótrúlega gaman og ég var mjög hissa á því að finna hvað höfrungar eru yndislega mjúkir viðkomu. Sigrún Björk var rosalega dugleg og hló eiginlega allan tímann sem við vorum ofan í sjónum með höfrungunum. Við keyptum myndapakka og vídeó á disk af öllum ósköpunum en DVD-drifið á tölvunni hans Hjartar er bilað þannig að við getum ekki deilt myndunum fyrr en við komumst í tölvuna mína heima. Annað sem stóð upp úr hjá stelpunum voru ástarfuglarnir sem flokkuðust í kringum okkur og settust á höfuð og hendur um leið og fuglafræ voru sett í lófana. Góður dagur í skemmtilegum (en dýrum) dýragarði.

Fleira er líklega ekki að frétta, eða hvað? Jæja jú, ég er farin að venjast umferðinni aðeins betur og meira að segja búin að prófa að sitja hjálmlaus aftan á mótorhjóli. Ég man nefnilega eftir því þegar ég var tvítug í útskriftarferðinni á Kýpur. Þá leigði ég vespu í þrjár vikur og keyrði um alla eyju i vinstri umferð HJÁLMLAUS og fannst það ekkert mál. Nú er öldin önnur enda löngu búin (3 meðgöngum síðar) að læra að ég er ekki ódauðleg. Ég var stíf af hræðslu aftan á hjólinu til að byrja með og svo þegar ég steig af því fór hægri kálfinn á mér í púströrið á hjólinu og "hvisss" - þetta fína brunasár, blöðrur og læti. 

Nú þarf maður bara að fara að setja sig í Íslandsgírinn. Bara tilhugsunin um að fara í síðbuxur aftur er svolítið óþægileg, hvað þá ef sá grunur læðist að manni að fötin heima passi ekki allt of vel eftir þægindin og hvíldina í sólinni. En það verður gaman að hitta Helgu og kisurnar aftur. Þau eru víst búin að hafa það mjög notalegt saman í sólinni á Íslandi. Vonandi verður afmælisdagurinn hans Hjartar svo skemmtilegur á morgun. Við ætlum alla vega fínt út að borða, en verðum eflaust mjög upptekin við að pakka niður og gera og græja.

Hasta la vista baby!

Sóla the dolphin :)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband