Herregud! Rea!

Aldrei hafa liðið fleiri vikur á milli bloggfærslna en nú, þrátt fyrir að ég hafi haft ágætis tíma aflögu og frá mörgu að segja undanfarið. Video killed the radio star. Facebook killed the blog star. En ég kem alltaf, alltaf aftur...rétt eins og Mosdal.

Ætli ég vindi mér ekki beint í að segja frá því að núna er það staðfest að ég mun reyna að ná toppi Kilimanjaro í Tanzaníu 2. janúar 2016. Við kveðjum Ísland 27. desember og hefjum gönguna 29. desember. Frumkvæðið að þessu uppátæki átti Lilja vinkona mín og samstarfskona sem spurði mig og Guðrúnu, sem einnig er vinkona mín og samstarfskona (þetta tvennt fer mjög oft saman), hvort við værum ekki til í að klífa þetta fjall með henni. Þessi spurning var borin upp á jólahlaðborði starfsmanna Borgarholtsskóla, ca. korter í jólafrí og allir í stuði. Við tókum aldeilis vel í þetta og þá varð bara ekki aftur snúið. Lilja er 67 ára maraþonhlaupari og fjallið er á fötulistanum hennar. Nýjustu rannsóknir benda á að við 46 ára aldur verði konur miðaldra, engar líkur á frekari starfsframa og að annað hvort muni þær rétta úr kútnum og finna hamingju í öðrum hlutum eða fara til hormónahelvítis og dúsa þar til æviloka. Lilja virðist hafa farið vel út úr þessu ævintýri öllu saman og þar sem við Guðrún sökkvum ört niður á aldursbotninn er kominn tími til þess að elta jakkaföt (follow suit) Lilju til þess að eiga hugsanlega afturkvæmt í Glaðheima. Guðrún tekur með sér eiginmann (sem er hennar eigin) og Lilja sína bestu vinkonu (fyrir utan okkur, auðvitað). 15-20 manns deyja á ári hverju úr háfjallaveiki og annarri móðursýki á Kilimanjaro þannig að ef ég blogga ekkert á nýju ári er ég að syrgja vini mína og samstarfskonur.

blogg10_zpsczila6fj

 

En yfir í aðra sálma. Aðaltúr þessa árs er að baki og þarfnast sérstakrar umfjöllunar. Stúre Skandinavíske túren var einstaklega vel heppnaður og verður eflaust seint toppaður (nema á Kilimanjaro, pun intended). Hefst nú frásögnin:

Dagur 1: Dagur eitt verður alltaf Dagur Hjartarson (stórskáld og ofurkennari) fyrir mér, en það er önnur saga. Á degi 1 flugum við til Köben og komum okkur fyrir í fínni íbúð við garð kóngsins, hvaðan stutt var að labba á Strikið.

Dagur 2: Eintóm hamingja! Við eyddum öllum deginum í tívolíinu í Kaupmannahöfn, fyrsta tívolíinu sem stelpurnar hafa farið. Stelpurnar stækkuðu um helming og Kristrún hætti að vera hrædd við rúllustiga og fallturninn í Húsdýragarðinum.

Dagar 3-5: Ókum alla leið til Lúllu systur í Kirkenær í Noregi. Þar gistum við í 3 nætur og nutum góðs atlætis systur minnar, sem býr ein með syni sínum í 400 fermetra prestsbústað. Ég naut þess að láta mýflugurnar úr Glommu narta í nefið á mér á meðan litlu stelpurnar kysstu og kjössuðu 5 kettlinga og Mílu, mömmu þeirra. Norska fjölskyldan fjölmennti líka og úr varð hið besta fjölskylduboð undir sætri sólinni. Hér sést fjölskyldan fagra:

blogg1_zpspxuimftf

Dagar 6-13: Aftur settist Hjörtur undir stýri og ók með okkur alla leið til Stokkhólms. Við fórum samtals 2200 kílómetra á bílaleigubílnum þannig að seta í bíl var þó nokkur. Ferðin hefði getað orðið stelpunum erfið ef ekki hefði verið fyrir i-padinn góða sem stytti þeim endalaust stundir. Ég greip í góðar bókmenntir eða leyfði tilbreytingalausu og trjáskreyttu landslaginu að líða hjá. Faðir minn starði köldum augum út í tómið. Djók.

Við fengum góðar móttökur hjá innfæddum í Stokkhólmi, þ.e. Hörpu sætu og Jakob krúttuling. Helga og prinsessan ófædda voru líka mættar á staðinn þannig að það má segja að öll fjölskyldan hafi verið saman komin nema aumingja Björg, sem var á Spáni með skólahljómsveitinni. Það var reyndar besta trip sem stelpan hefur farið í þannig að ég held að hún hafi ekkert saknað okkar eins mikið og við söknuðum hennar. Anyways, Harpa sýndi okkur það besta sem Stokkhólmur hefur upp á að bjóða, sem er þó nokkuð.

Fyrir það fyrsta kom hún okkur fyrir í frábærri íbúð í Södermalm þar sem miðbærinn og strönd voru í göngufæri, jafnvel fyrir stutta fimm ára fætur. Ferðin átti fyrst og fremst að vera barnvæn og hún var það svo sannarlega. Stelpurnar styrktust og efldust í þessi ferð, sáu heiminn og komu lífsreyndari heim. Hér erum við í dýragarðinum:

blogg2_zpsjdrwef1v

Þarna afrekuðum við helst að klappa risakönguló. Kristrún lét reyndar nægja að klappa snák og sagði að hann hefði verið viðkomu eins og plast.

Þegar það var skýjað fórum við á Tæknisafnið og í tívolí, en þegar sólin skein var farið í lautarferð á ströndina. Jakob var sá alharðasti í vatninu, svona oftast nær. Ég ætla ekki að birta myndina af honum skelfingu lostnum í vatninu. Hjörtur afi sér um alla svoleiðis vitleysu. Hér er barnið alsælt með móður sinni á ströndinni inni í miðri borg og rak ekki upp org:

blogg3_zpseztr90ye

Veðrið var mjög gott allan tímann, stundum of gott. Síðustu dagarnir voru mjög heitir og ég átti nokkrar erfiðar nætur með stærsta moskítobit sem ég hef nokkurn tímann fengið. Hef ég þó fengið þau mörg allsvakaleg. Ég er mikill Svíþjóðaraðdáandi en fagnaði þó svala íslenska sumarloftinu þegar heim var komið. Fylltist eiginlega mikilli ættjarðarást þegar ég fann gróðurilminn og hjólaði í gegnum Elliðaárdalinn, fullan af ilmandi lúpínu og kerfli. Dásemd! En við vorum að tala um Svíþjóð. Hér er ein sæt mynd af yngstu, næstyngstu og næstelstu, síðasta daginn í Svíþjóð:

blogg5_zpsyyz0vdrl

Helga gat ekki verið með okkur því að hún var á fullu að versla í H og M fyrir vini sína á Íslandi. Ég keypti mér nú bara eitt stykki sólgleraugu á þúsund kall í þessari ferð og eitthvað smotterí fyrir stelpurnar. Ég er líka svo praktískt að ég veit að sumartískan er bara bóla og mun skynsamlegra að kaupa inn á haustin, helst eitthvað svart og sykurlaust.

Eftir Stokkhólm keyrðum við til Vimmerby, gistum eina nótt í sumarbústað og vorum að kafna úr hita. Bústaðurinn var við vatn og ég var orðin svo hrædd við að fá fleiri flugnabit að ekki mátti opna neinn glugga. Það er deginum ljósara að ég er farin að hafa örlitlar áhyggjur af Tanzaníuferðinni! En við vorum mætt á slaginu 10 í Veröld Astrid Lindgren til þess að skoða Línu, Emil og alla hina karakterana. Við vorum búnar að undirbúa stelpurnar nokkuð vel í ferðinni með því að láta þær horfa á mynd um Emil, Bróður minn Ljónshjarta, Ronju Ræningjadóttur, Kalla á þakinu og Madditt. Garðurinn var því þó nokkuð spennandi fyrir þær þó að hann kæmist ekki í hálfkvisti við tívolíin tvö. Ég var þarna í Vimmerby fyrir 13 árum með Björgu og sagan endurtók sig því að sólin og hitinn voru að fara með okkur. Það var því ágætt að við vorum ekki búin að áætla meiri tíma fyrir garðinn. Við þurftum að vera mætt á flugvöllinn í Kaupmannahöfn klukkan 19 og skila af okkur bílaleigubílnum. Emil og Ída voru því ánægð að fá að stíga inn í loftkældan bílinn og leika sér með ipadinn.

blogg6_zpsjljmnold

 

 

 

 

 

 

 

 

 Fluginu seinkaði um 3 klukkutíma svo að við lentum seint og síðar meir en allt gekk vel, eins og allur túrinn sjálfur í hnotskurn. Ég gef þessari ferð 5 stjörnur af 5 mögulegum!

Nú er vika síðan við komum og á morgun förum við aftur í ferðalag: Flateyri - Patró - Stykkis. Það er orðið ansi langt síðan við fórum í Hólminn og ég hlakka til að eiga nokkra góða daga þar með fjölskyldunni. Við gátum ekki sjósett í vor vegna veðurs en ég vona að núna verði logn og veiðiveður. Mig er farið að klæja í fingurna! Planið er reyndar að taka með okkur veiðarfæri til þess að nota á bryggjunni á Flateyri. Þar er flóran oft mun fjölbreyttari en í Breiðafirðinum. Ekki bara þorskur og marhnútur heldur koli, ufsi og jafnvel einstaka síungur silungur. Verst að veðurspáin er ekki mjög spennandi, en við því er ekkert að gera.

Síðasta vika er búin að vera svolítið skrítin. Sigrún fór í sínar fyrstu sumarbúðir á mánudaginn og kemur ekki aftur fyrr en í dag (sunnudag). Hún hefur aldrei verið í burtu frá mér svona lengi. Ég fæ fréttir á netinu á hverjum degi um það sem stelpurnar eru að gera og mér sýnist á öllu að þær eigi ekki eina dauða stund, nema rétt yfir blánóttina. Ég var búin að biðja Sigrúnu um að vera með "thumbs up" á öllum myndum ef henni fyndist gaman í sumarbúðunum. Henni fannst þetta frekar asnaleg hugmynd en á hverri einustu mynd sem ég sé af henni er hún með þumalfingur upp í loftið, helst báða! Það gleður mitt gamla móðurhjarta.

Kristrún vildi endilega fara á leikskólann síðustu fjóra dagana og fékk það auðvitað. Hún kvaddi leikskólann síðasta fimmtudag og það var afskaplega tregafull stund fyrir mig, vitandi það að nú ætti ég ekki fleiri leikskólabörn. I'm getting old! Ég ætla samt ekki að skella í annað, sko. Maður verður nú að hafa tíma til þess að lesa góðar bækur áður en sjónin fer að daprast of mikið.

Ég nýtti barnlausa tímann ágætlega. Hitti Margréti vinkonu mína, sem býr í Svíþjóð í hádegismat. Við sjáumst víst ekki aftur fyrr en eftir ár því að hún kemur aftur um áramótin og þá verð ég víst úti í Afríku að reyna að paufast upp á eitthvað fjall, útbitin af moskító og með lungun full af þunnu lofti....eða eitthvað. Ég plataði einmitt Björgu upp á Esjuna með mér síðasta þriðjudag. Hún var ekkert sérstaklega ræðin. Lilja hafði svo samband við mig og plataði mig aftur upp á Esjuna daginn eftir. Það var miklu skemmtilegra, enda hafði Lilja frá mörgu að segja og Esjan var dásamleg í sólskininu. Hér er sem sagt Kilimanjarokonan sjálf:  

blogg7_zpslosvkdmg

Hafiði sér þær flottari? Nei, ekki ég heldur. Núbb...svo fór ég út að borða með Sólveigu vinkonu í tilefni þess að hún átti afmæli fyrir stuttu. Að endingu bauð ég sjálfri Ástu ofurkonu í kaffi og með því, þannig að húsmæðraorlofið var vel nýtt í "catching up". 

Við Kristrún höfum nýtt tengihjólið vel og hjólað út um allar trissur. Hún býður spennt eftir að fá Sigrúnu heim í dag, enda búin að sakna hennar óhemju mikið.

Ég er búin að reyna að vera smá með elsku frumburðinum mínum í vikunni því að nú styttist aldeilis í skiptinemadvölina í Costa Rica. Minnstu ekki á það ógrátandi! Esjan var ekki "success" en við áttum notalega stund í spa og dinner síðasta föstudagskvöld. Enn er stelpan ekki komin með upplýsingar um fjölskyldu eða dvalarstað og það eina sem við vitum er að hún flýgur út 7. ágúst í gegnum USA. Svo kemur hún heim 11. júlí á næsta ári! Ég er búin að fá heilt ár til þess að aðlagast þeirri hugsun að ég mun ekki sjá barnið mitt í rúmlega 11 mánuði. Ég reyni að sjá það jákvæða í stöðunni, s.s. að þessi skiptinemadvöl muni þroska og styrkja barnið mitt óhemju mikið og ég ætti að vera þakklát fyrir að hún hafi hugrekki til þess að gera þetta. Og ég er þakklát. Nú, svo eru það praktísku hliðarnar eins og minni þvottur, minni áhyggjur af því hvað barnið er að gera á kvöldin (out of my hands)...og ég get nýtt herbergið hennar sem vinnuaðstöðu. Mig hefur lengi dreymt um að vinna við skrifborð í lokuðu herbergi. Svo nýtist herbergið auðvitað fyrir Helgu og litla krílið ef það verður kannski kveisubarn og afi og amma verða að taka kvöld og næturvaktir til þess að létta á einstæðu móðurinni. Við vonum nú að þetta verði eitt af þeim undrabörnum sem bara sefur og sefur svo að Helga geti haldið áfram í náminu. Ég þekki ekki slík ungabörn persónulega, en hef heyrt sögur af þeim. Þjóðsögur kannski?

En nú er kominn tími til þess að pakka fyrir Westurferð. Ef Guð lofar verð ég duglegri að tjá mig hér á næstunni, til dæmis um hvernig tilfinning það er að vera Bjargarlaus, undirbúa sig fyrir Kilimanjaroferð, kenna ensku 103 miðað við nýjustu námsskrá, vera viðstödd fæðingu nýjasta barnabarnsins...svei mér þá ef ég hef bara alls engan tíma til þess að verða miðaldra!

Ég segi bara "kwaheri" sem þýðir "bless" á swahili. 

Sóla (bráðum) Bjargarlausa

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband