Flateyró - Patró - Stykkó - Kópó - Esjó

Sumarið líður allt of hratt og stóra stundin nálgast óðfluga. Í maga mínum flögra fiðrildi, maurildi og ókræsileg þykkildi. Engin leið að snúa til baka.

Hingað til hefur sumarið samt verið gott. Veðrið hefur ekki leikið við okkur úti á landi. Norðaustan stinningskaldi nartar í nefið á meðan hæg sunnangolan strýkur mér blítt um kinn í höfuðborginni og nærsveitum. 

Eftir Skandinavíureisuna gáfum við okkur smá tíma til þess að anda og leyfa köttunum að kynnast okkur á ný. Svo var haldið af stað vestur á firði, alla leið til fyrirheitna landsins, Flateyrar. Þegar amma lifði fór ég oft tvisvar á ári vestur en ferðunum hefur fækkað eftir að hún dó. Ég gerði mitt besta til þess að leigja húsnæði á Flateyri síðasta sumar en allt var upptekið vegna kvikmyndaverkefnis. Fögnuður minn var því mikill þegar ég komst loksins á þennan yndislega stað. 

Það er svo margt gott við það að vera á Flateyri á sumrin. Staðurinn er lítill en þjónustan ágæt og meira að segja sundlaugin er orðin uppáhalds á Vestfjörðum. Ég var alltaf hrifnust af sundlauginni á Suðureyri, en núna eru komnir tveir heitir útipottar á Flateyri sem gera laugina svo miklu skemmtilegri. Hægt er að fá afnot af íþróttahúsinu til þess að gera alls konar skemmtilegt þegar kaldir vindar blása (sem er nokkuð algengt) og skólinn er með forláta sparkvöll og þokkalegan körfuboltavöll. Leikskólarólóinn færeyski stendur svo alltaf fyrir sínu með sinn gula sand.

Toppurinn á tilverunni er svo bryggjan á Flateyri, sérstaklega fyrir veiðisjúkling eins og mig sem tímir ekki að eyða stórfé í laxveiðar en fær í staðinn útrás í ufsaveiði á bryggjunni. Ufsinn er sterkur og sveigir stangirnar svo skemmtilega að maður getur alveg ímyndað sér að eitthvað spennandi sé á spúninum. Ekki þarf annað en svartan Toby, kasta langt, draga inn og hviss bamm búmm! Kominn fiskur! Sigrún og Kristrún fundu loksins neistann og voru meira en tilbúnar að fara með mömmu sinni á bryggjuna, kvöld eftir kvöld. Fljótlega tók fimm ára dýravinurinn og grænmetisætan upp á því að taka alfarið að sér hlutverk slepparans (jú jú, þetta var veiða - sleppa) og hafði mikið gaman af. Hún var líka fyrst til þess að veiða kola og var ótrúlega stolt af því. Minn fyrsti fiskur var einmitt koli. Þá var ég fjögurra ára með Björgvin frænda og fullt af krökkum í Flatey á bátnum Litla-Björg, minnir mig. Sá eða sú sem fengi fyrsta fiskinn átti að fá súkkulaði í verðlaun og ég vann! Ég fékk kola og sagði uppnumin: "Lítil lúða!" Svona var maður nú vitlaus. En Sigrún Lár sauð hana fyrir mig og betri fisk hef ég ekki smakkað síðan. En þetta var útúrdúr. Hér eru glöð fiskifeðgin á Flateyri:

bloggjuli1015_zpstaurhheg

 Eins og sést voru allir ágætlega dúðaðir, enda bara miður júlí.

Auðvitað var mannlífið skoðað líka. Lífið er víst ekki endalaust og eftir bjartan daginn kemur nótt. Við heimsóttum gröf mömmu og ömmu daglega. Því miður fékk mamma ekki að hitta Sigrúnu og Kristrúnu, en það er huggun harmi gegn að Björg skuli muna vel eftir henni og eiga margar góðar minningar, sérstaklega frá Flateyri. Hérna eru stelpurnar mínar með Kiddý ömmu og Ingu langömmu:

bloggjuli815_zps4uiffyoe

Hann Gumbi okkar sér um að halda leiðunum snyrtilegum og það eina sem við gerðum var að velja einn engil í viðbót á leiðið hennar mömmu. Hún safnaði englum í lifanda lífi og hefur eflaust ekkert haft á móti þessum:

bloggjuli615_zps5ivkjrzv

Kristrún valdi engilinn með demantshjartað alveg sjálf.

Við kíktum á Dellusafnið á Flateyri og höfðum gaman af. Þar er samansafn hluta sem fólk hefur haft algjöra dellu fyrir að safna í gegnum tíðina. Flestir hlutanna voru á bakvið gler, sem er eins gott því að Kristrún potaði í stórt safn af Pez köllum sem að hrundi niður eins og dóminó með tilheyrandi látum og drama. Við stelpurnar vorum heillengi að raða því upp aftur. Auðvitað var pennasafn þarna og það fyrsta sem ég leitaði eftir var mjög eftirsóttur penni frá Stykkishólmi:

bloggjuli215_zps30ftnkgy

Þegar pennasafnaraæðið stóð sem hæst (in the 90s) vorum við á Bensó (Verslun Gissurar Tryggvasonar) spurð daglega um penna og það endaði með því að við fórum að selja hann á 100 kall (stórgróði alveg). Penninn yljaði mér um hjartarætur og minnti mig á sjö sumurin frábæru sem ég vann á bensínstöðinni í Stykkishólmi með skemmtilegasta fólki í heimi. Svo fann ég Borgó, sem gaf Bensó lítið sem ekkert eftir reyndar. 

Eins og ég sagði áður hitti ég nokkra sem ég þekkti á Flateyri, en engan eins mikið "legend" og sjálfan Óla Popp. Þegar ég heyrði nafn mitt kallað og leit við hélt ég fyrst að Jesús sjálfur væri að kalla mig til sín. Liverpool treyjan studdi þá ályktun:

bloggjuli715_zpsgafyszve

Svo bar ég kennsl á manninn, Hólmarann sem varð sannur Flateyringur og velti upp spurningunni frægu: "Er það hafið eða fjöllin sem að laða mig hér að? Eða...er það kannski fólkið á þessum stað?" Já, gott fólk. Þetta er maðurinn sem samdi þjóðlag Westfirðinga og eitt af mínum uppáhaldslögum. Ég spyr mig oft þessarar spurningar sjálf og hef ekki enn fundið svarið. Eitt er víst að samspil hafsins, fjallanna og mannlífsins hafa spilað sérstaka rullu í gegnum aldirnar. Flateyri mun alltaf laða mig að.

Við kíktum líka á höfuðborg Westfjarða, sjálfan Ísafjarðarbær, sem er stórborg miðað við Flateyri og frekar hættuleg, sko:

bloggjuli915_zps81xnhxj3

Við prófuðum að borða á hinu margrómaða Tjöruhúsi og ég get mælt með því algjörlega 100%. Þvílíkt snilldarkonsept! Hasta la vista, baby.

Eftir dagana köldu en ljúfu á Flateyri keyrðum við sem leið lá á Patró, fæðingarbæ eiginmanns míns. Við droppuðum auðvitað við á besta róló landsins á Þingeyri, prófuðum latté í Simbahöllinni og borðuðum svo í logninu á Bíldudal. Hreyfir nokkurn tímann vind þar? Það var bjart yfir Patró og fínt að gista þar eina nótt. Við fórum til Dóra, frænda Hjartar, og fengum þar ógrynni af klessum (pönnukökum) og prófuðum líka að veiða á bryggjunni. Markmiðið var að sýna börnunum hvernig marhnútur lítur út en við fengum bara þorsk og ufsa. Við töltum upp Tálkna og Hjörtur leit yfir gamla bæinn sinn:

bloggjuli315_zpsjjyqecep

Hann viðurkenndi samt að eini bærinn þar sem honum finnst hann vera að koma heim er Stykkishólmur. Ég er ekki hissa á því. Drengurinn er svo félagslyndur að hann er búinn að kynnast fleiri Hólmurum en ég!

Við sigldum með nýja Baldri yfir Breiðafjörð og líkaði dallurinn nokkuð vel bara. Ég hef svo sem ekki margt að segja frá dvölinni í Hólminum nema að veðrið var mestanpart frekar óspennandi, þó það væri ekkert miðað við fárviðrið fyrir sunnan fjall. Þetta er þriðja heimsóknin í Hólminn þetta sumar og enn hefur ekki verið hægt að sjósetja bátinn okkar út af of mörgum metrum á sekúndu. Þetta er eitthvað alveg nýtt og bara bévítans óheppni. Ekkert hægt að veiða, sem sagt. Við Helga reyndum að dorga á bryggjunni en þar er ekkert að hafa, virðist vera. Hjörtur er alltaf með plan B út af "kitesurfing" sportinu og finnst því vindur vera hið fínasta veður. Hann fór að kætast (kite-ast) rétt hjá mínum æskuslóðum á Ægisgötunni en illa fór nú sjóferð sú. Hann datt og missti brettið frá sér, sem er ekkert óvanalegt. Hann er hins vegar ekki vanur þessum gríðarsterku straumum við tangann sem hrifsuðu brettið frá honum á svipstundu. Hann lét drekann draga sig á land og bjóst við að brettið myndi skila sér fljótlega upp á land vegna þess að vindurinn að landi var mjög sterkur og það var að falla að. Við hjónin gengum fjörurnar með kíki (ekki Kíkí páfagauk í Ævintýrabókum Blyton - hann hefði misst fjaðrirnar) og ekkert sást til brettisins. Þá fékk hann Stjána Lár Djúníor til þess að sigla með sig á ribbara út um allt og leita en ekki sást tangur né tötur af brettinu og þar við situr. Hjörtur á átján önnur bretti en þetta var uppáhalds og kostaði fullt af pjeeening. Svona er nú Breiðafjörðurinn viðsjáll og vill helst engu hlífa.

Fyrir utan brettaleit í norðangarra áttum við bara tjillaðan tíma í Hólminum. Ofur-Ásta og strákarnir hennar 12 kíktu í súpu og körfubolta. Þau gáfust svo upp á Hólminum og leituðu á hlýrri slóðir. Ég heilsaði upp á elsku Maj'ömmu sem bauð upp á dýrindis vöfflur og svo hittist svo vel á að sjálfur eyjajarlinn, Gissur hinn góði, var heima og áttum við Sigrún gott spjall við hann og borðuðum allt súkkulaðið sem til var í húsinu. Kristrún var heima með gubbupest, aldrei þessu vant.

Það var alveg hitabeltisstemmning að mæta aftur í borg óttans eftir Vesturreiðina miklu. Hér hefur veðrið bara verið hið þýðasta og ekki verið mikil löngun í að fara langt frá heimilinu. YR.NO og facebook segja mér reyndar að í Flatey og í Hólminum sé búið að vera sól og blankalogn marga daga í röð, en ég neita auðvitað að trúa því. 

Við stelpurnar höfum fundið okkur verkefni á hverjum degi og erum hvergi nærri hættar. Nauthólsvík, Húsdýragarðurinn og fleiri klassíkerar hafa legið í valnum og eflaust eitthvað margt fleira sem ég er búin að steingleyma akkúrat núna. Hér er nú samt ein sæt úr Húsdýragarðinum af Sigrúnu, Halldóri Ásgeiri og Kristrúnu, teikin it ísí...eins og sagt er á góðri ísl-ensku:

bloggjuli115_zpsjsfssbe9

Já já, svo sé ég á myndum í símanum að við fórum einn daginn í öldusundlaugina á Álftanesi og beint á Árbæjarsafnið á eftir með öldruðum föður mínum. Ungviðið þar var fallegt:

bloggjuli515_zpsnwok3zuj

Svo er Kristrún búin að vera að æfa sig svolítið að hjóla sjálf og tengihjólið er að sjálfsögðu nýtt töluvert fyrir lengri ferðalög. Okkur leiðist ekki, stelpunum.

Ég hef lítið minnst á stóru stelpurnar, enda eru þær nú uppteknar í vinnu og eru minna að stússast með mömmu sinni. Ein býr náttúrulega í útlöndum og bráðum bætist önnur við, sjálfur frumburðurinn. 7. ágúst er stóri dagurinn sem að ég er búin að kvíða í ár. Nú er bara að koma að þessu. Sjittsjittsjitt...! Björg er sem betur fer búin að fá upplýsingar um fjölskyldu og samastað sem henni líst alveg bærilega á. Hún verður í ellefu þúsund manna fjallaþorpi, skammt frá höfuðborginni (San José). Foreldrar hennar eru fæddir 1946 og 1950 þannig að þeir gætu í rauninni verið eins og afi hennar og amma. Þær eiga eina 28 ára dóttur sem er nýgift og þar af leiðandi nýflutt að heiman, eins og kaþólskra er siður. Herbergið hennar losnaði og Björg fær að vera þar, í eitt ár. Eitt ár? OMG! Jæja jæja, ég verð að róa mig. Við erum búin að vera í samskiptum við dótturina sem er mjög spennt fyrir að fá Björgu inn í líf foreldra hennar. Björg skrifar henni á ensku og setur allt klabbið inn á google translate sem þýðir yfir á einhvers konar spænsku. "Systir" hennar gerir slíkt hið sama, bara frá spænsku yfir á ensku, og allt skilst þetta nú. Skólinn hennar er í 3 km fjarlægð en því miður er ekki merkilega skólahljómsveit þar að finna. Björg ætlar samt að borga undir básúnuna og vonar svo hið besta.

Ef ég leyfi mér að hugsa of mikið um að hún sé að fara verð ég virkilega niðurdregin, þannig að ég reyni bara að hafa nóg fyrir stafni og ýta hugsununum burt. Það tekst ekki alltaf. Björg finnur fyrir því sama og greinilega mikill tilfinningarússíbani í gangi. Þetta er nú einu sinni frumburður minn, elsku barnið. Stærsta stund lífs míns var þegar hún fæddist og ég fékk svarið við tilgangi lífsins. Þetta var svo ótrúleg og óvænt hugljómun að engin orð geta lýst þeirri upplifun. Svo er hún að fara frá mér í svo allt aðra menningu, hvar femínískt uppeldið gæti orðið henni til trafala...en þó vonandi til gagns. Hún verður 17 ára 27. ágúst þannig að þegar hún kemur til baka er svo stutt í að hún verði 18 ára og sjálfráða. Ég óttast að kveðja barnið mitt og hitta dóttur mína fullorðna ári seinna. Samt fagna ég því líka. Heimskt er heimaalið barn. Ég vil að dætur mínar allar upplifi að búa annars staðar og öðlast víðsýni, læra ný tungumál, kynnast nýrri menningu, aðgát, nærgætni, fordómaleysi...ég gæti sullað fleiri hugtökum hérna á blað en "bottomline" er...að ég vildi óska þess að hún væri ekki að fara og gæti alltaf verið heima hjá mömmu sín! En samt ekki, sko...  Hér er Björg, voðalega áhyggjulaus eitthvað og ekkert að hugsa um hvað mamma hennar þjáist:

bloggjuli415_zpsmhooj646

Jæja ókey, hún þjáist líka. En þetta verður góð reynsla. Púff...ætla ekki að byrja aftur.

Ég var eitthvað að tala um að ég væri dugleg að finna mér verkefni í sumarfríinu. Guðrún vinkona mín stakk upp á einu slíku. Hún skoraði sem sagt á mig að ganga með henni þrisvar upp á Esjuna og þá fengi ég "Muahahaha" Snickers súkkulaði í verðlaun. Múahahaha er auðvitað einkennismerki mitt, sérstaklega í netheimum. Ég tók auðvitað áskoruninni og við Kilimanjarofararnir (hvað erum mörg "r" í því?) notuðum þetta sem æfingu í gær. Það er skemmst frá því að segja að ferðin gekk mjög vel. Lilja og Guðrún eru svo skemmtilegar að ég gleymdi því alveg að þetta ætti að vera eitthvert puð. Verst finnst mér alltaf að fara niður fjöll og hélt á tímabili að ég myndi missa tánögl, en allt er heilt núna daginn eftir og það eina sem amar að mér eru harðsperrur framan á lærum. Smá harðsperrur í morgun en þær hafa aukist með deginum og núna í kvöld finn ég að morgundagurinn verður erfiður! En það er bara gott og gaman og ég væri svo sannarlega til í að gera þetta aftur. 

Meira var það ekki í bili, enda orðið assgotans nóg. Ætla að fara að sofa og reyna ekki að sakna.

Luv

Sóla MÚAHAHAHAHAHAHAHAHA!

bloggjuli1115_zps2akj4qrs

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð sönn og vel sögð saga er góð skemmtun. Þessi toppar flest. Takk fyrir mig. Þú ættir að leggja skriftir fyrir þig!

Lúðvíg A. Halldórsson (IP-tala skráð) 29.7.2015 kl. 12:44

2 identicon

Kærar þakkir fyrir falleg orð og hvatningu elsku "gamli" skólastjórinn minn :)

Sóla (IP-tala skráð) 4.8.2015 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband