Afmæli afmæli afmæli...og smá rok

Þegar starfsfólk Landsbankans í Keflavík fer að kvarta yfir bloggleysi er kominn tími til þess að spýta í lófana...og sulla út lyklaborðið.

Það er alveg heilmargt búið að ganga á og gerast og jafnvel eiga sér stað síðan síðast, en myndavélin fangar bara veislur og aftur veislur og jafnvel smá partý líka. Fór líka í eitt teiti á laugardaginn.

Veðrið í Grafarvogi var alls ekki til fyrirmyndar á föstudaginn. Ég hélt ég myndi láta lífið og fjúka með gámum og öðru álíka þungu og lauslegu þegar ég barðist í gegnum fellibylinn frá skólanum í World Class í Spönginni. Þegar til kom féll svo tabata tíminn niður af því að þær fáu sem voru mættar óttuðust um bílana sína á stæðinu fyrir utan. Sá ótti var ekki ástæðulaus því að það brotnuðu margar bílrúður í veðurhamnum. Eitt kennaranef brotnaði líka og næstum því hausinn með, sjúkrabíll og læti. Óskemmtileg sjón og bara guðs mildi að ekki urðu alvarlegri slys á fólki. Kennslunni var aflýst og það gerist ekki oft í Borgarholtsskóla.

Helgina áður héldu Sigrún og Kristrún upp á afmælið sitt fyrir fjölskylduna. Kristrún verður reyndar ekki þriggja ára fyrr en 28. nóvember, en það er víst óþarfi að vera að kalla saman allt liðið á mánaðarfresti, sérstaklega þegar húsmóðirin er ekki ofsalega mikið fyrir að undirbúa veislur. Samt voða gaman að bjóða fólki - leiðist bara tíminn sem fer í undirbúning. "Keep it simple" var mottó helgarinnar og gekk bara ágætlega upp. Hér eru Sigrún og Kristrún að búa til ostapinna fyrir gestina: 

IMG_7507-Copy

Sigrún er með athyglina á sjónvarpinu (var þrjá tíma að búa til 50 ostapinna) en Kristrún var aðallega í því að borða allt sem hönd á festi, litla sílóið.

Ég gleymdi að taka mynd af aðalkökunum, en hér sést í afmæliskökuna og nokkra góða gesti: 

IMG_7518

Ægisgötuafkomendur og Strandamenn fylla hálfan salinn!

 

Litlu prófessorarnir Halldór Ásgeir, Aðalsteinn og Sigrún Björk dunduðu sér lengi við að púsla saman hnattlíkani. Halldór og Sigrún fundu réttu stykkin og Aðalsteinn setti þau á sinn stað. Mikil og góð samvinna hjá þessu skemmtilega teymi.IMG_7528

 

Síðasta helgi var vindasamari en afmælishelgin, en þegar lægði loks seinni part laugardags tölti ég út úr húsi til þess að hitta systkini mín í föðurhúsum. Tilefnið var langþráð myndakvöld, en það hefur sem sagt tekið okkur 10 ár að koma okkur í það að skipta upp myndum úr myndasafni mömmu. Ekki entist okkur kvöldið til þess því að bróðir minn er mikill "gourmet" kall og þurfti að láta okkur smakka á og dæma alls kyns góðgæti sem hann dró upp úr mal sínum. Hér er brot af því besta:IMG_2091

Ég man nú ekkert hvað þetta dót heitir allt saman, en gantaðist örlítið með grafna ærkjötið sem á borð var borið og stakk upp á því að Assý móðursystir úr Mývatnssveitinni hefði sent Bjössa það, ferskt upp úr einum skaflinum. Auðvitað grínast maður ekkert með svona hörmungar og biðst ég innilega afsökunar á skeytingarleysinu og ósmekklegheitunum. Heitreykta andalifrin fékk engin skot á sig (eða í sig - maður skýtur ekki aliendur) en ítalska salamipylsan bauð upp á athugasemdir sem voru hreinn horbjóður.

Núbb...gærdagurinn rann upp svo ægilega bjartur og fagur að við stelpurnar urðum að skreppa í Húsdýragarðinn. Þar vorum við lengi, lengi í ljúfa logninu. Hér er Kiddú litla Biddú, ægilega ánægð með lífið:

IMG_2103

Buðum svo Bjórlafi föður mínum og Búllu bavíana systur minni í mat um kvöldið, sem var ágætis endir á góðri helgi.

Hann Jakob Ari okkar tók svo upp á því að verða tveggja mánaða þann 2. nóvember og ég stenst ekki mátið og stelst til þess að deila dýrðinni: 

 jakob-1

Svo dædur og dædur þessi dákur....gússígússímússí....!

 

Lifið heil!

 

Sóla sveskja Wink 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Yndislegt alveg hreint, ostapinnarnir sérlega góðir, frábærar kökur hjá súperhúsmóður og húsföður, fallegt barnabarn (og fáránlega sniðugt að taka mynd mánaðarlega og setja tölu við hliðina, ég þarf eiginlega að eignast eitt barn í viðbót til að gera það) og ótrúlega flottar veitingarnar hjá föðurnum.

Ég væri samt til í að sjá myndir úr hrekkjavökuafmælinu, á ekkert að blogga um það?

Ásta (IP-tala skráð) 9.11.2012 kl. 11:44

2 identicon

Djók, þú varst búin að blogga um það:)

Ásta (IP-tala skráð) 9.11.2012 kl. 11:44

3 identicon

Takk Ásta mín aparass. Það er löngu búið að blogga um hrekkjavökuafmælið!

Sóla (IP-tala skráð) 11.11.2012 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband