Jakob, áramót og afmæli Helgu

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla. Ég hef ekki lagt í að gera annál ársins 2012 í myndbandsformi, kannski vegna þess að ég missti allan annál ársins 2011 þegar forritið hrundi í byrjun síðasta árs. Margra klukkustunda vinna í vaskinn. Svo er maður hálf dasaður eftir flutningana. Ég sé til hvort ég geri myndaannál eða bara skrifa einn nettan einhvern tímann í janúar. Eða bæði. Eða hvorugt. Djók. Ég er orðin meira meðvituð um að það sem ég skrifa hér eru mikilvægar heimildir þegar fram í sækir, bæði fyrir gömlu og gleymnu mig og afkomendur mína. Sigrún Björk 7 ára er meira að segja farin að lesa gamlar færslur um sjálfa sig sem ungbarn.

Jólafríið einkenndist af töluverðri leti og miklum slaka varðandi sjónvarpsgláp. Auðvitað voru þær viðraðar reglulega eins og þvotturinn í gamla daga, út að renna eða í Húsdýragarðinn. Hér eru stelpurnar í kunnuglegum stellingum:

IMG_7815

 

Ekki má gleyma Kisa krúttlingi sem elskar að klóra í nýja sófann, Hirti til mikillar gleði. Kisi er enn að jafna sig á flutningunum og tekur upp á því af og til að láta sig hverfa í nokkra daga, mér til mikils ama. Hann kíkti í heimsókn í Álfatún eitt og lapti þar mjólk þannig að við sóttum hann þangað í fyrrakveld. Ég vona að hann fari að átta sig fljótlega á því að hér á hann heima og hvergi annars staðar.

30. desember kom sænski prinsinn okkar til Íslands og hann virðist ætla að verða heimakærari en Kisi. Hann Jakob Ari okkar er sem sagt mættur á svæðið, yndislegastur í öllum heiminum. Hér er hann í hláturskasti yfir geiflum Bjargar:

IMG_7809

Afinn og amman fengu það ábyrgðarhlutverk að passa kappann á gamlárs á meðan foreldrarnir kíktu í partý. Hann vaknaði ansi oft til að fá snuð (enda Sarajevo beint fyrir utan gluggann), svo gaf amma honum pelann (amma...that's me :) ) og eitthvað annað enn betra þannig að hann sofnaði loks vært í ömmufangi, litli ljúflingurinn. Hér eru afinn, barnabarnið og mamman rétt fyrir áramót:

IMG_7851

 

 

Áramótin fóru fram með hefðbundnum hætti. Bara kjarnafjölskyldan...sem er ekkert "bara" því að fjölskyldan fer ört stækkandi. Hér eru allir sestir að snæðingi:

IMG_7834

Flassið náði ekki alveg nógu langt þannig að fólkið sem situr innst er aðeins í skugga, en það verður bara að hafa það. Hreindýrstarfur sem Hjörtur skaut í haust var á boðstólum og svo tvær ístertur a la Jól'amma. Kristrún var hrædd við sprengjurnar þannig að ég sat inni og horfði á sjónvarpið og flugeldana út um gluggann til skiptis með Kristrúnu og Jakob í fanginu. Ekki amalegur félagsskapur það.

Á nýársdag spiluðum við stelpurnar Fimbulfamb, borðuðum súkkulaði og drukkum rauðvín. Eftir það hefur hugurinn verið meira og meira hjá vinnunni. Ég er búin að fá hina þokkalegustu stundatöflu (þó að hún hefði alveg getað verið betri) og svo eru hópastærðirnar ótrúlega hagstæðar, nokkuð sem ég hef ekki séð síðan kreppan skall á. 31-32 nemandi í hóp hefur verið normið en núna eru bara tuttugu og eitthvað nemendur í hverjum hóp. Reyndar ekki alveg endanlegar tölur, en mér sýnist hlutirnir vera að skána...líklega fyrir einhver mistök?

Anyways...dagurinn í gær var stór dagur fyrir Helgu Rún því að þá varð hún 25 ára. Hún er í miðjum prófum þannig að hún gerði ekkert stórt. Við elduðum hrygg fyrir kellu og Pavlovu í eftirrétt. Hjörtur var svo indæll að setja mynd af mér og henni á facebook sem ég hefði ALDREI sett á fésið (af því að ég er að gretta mig eins og mófó). En fyrst að hún er komin á veraldarvefinn læt ég hana laggó hérna líka:

IMG_7872Þetta átti sem sagt að vera mynd af henni einni en ég stökk inn á hana með mitt fagra smetti og frægu athyglissýki.

Afmælisdagur Helgu var líka stór dagur í lífi Jakobs Ara og foreldra hans: Fyrsti tíminn í ungbarnasundi! Því miður gleymdist myndavélin en við klikkum ekki á því næst. Tíminn gekk mjög vel hjá Lóló sundkennara og við vonum bara að hann fái að fara í kaf næst því að Jakob kallinn á bara þrjár vikur eftir á landinu. Það er verst að sundlaugar eru ekki á hverju strái í Stokkhólmi, a.m.k. ekki miðað við höfðatölu eins og hér á höfuðborgarsvæðinu og svo kostar líka stórfúlgu bara að komast ofan í laugarnar. Ísland er landið. Hver á sér fegurra móðurland en hann Jakob minn?

Gleðilegt ár aftur elskurnar mínar.

Jól'amma Wink

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband